15.03.1930
Efri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

34. mál, landhelgisgæsla

Erlingur Friðjónsson:

Ég hefði sennilega getað fallið frá orðinu, því að ágreiningur milli mín og hv. frsm. meiri hl. er nú ekki orðinn svo ýkjamikill viðvíkjandi þörf á aukinni landhelgisgæzlu, en hinsvegar ber okkur töluvert á milli út af þeirri grg., sem hann hefir ritað.

Ég lét þá skoðun í ljós í n., að það yrði varla hægt að auka gæzluna með því að kaupa nýtt skip, nema því aðeins, að einhverjar tekjur kæmu á móti þeim kostnaði, sem slíkt hlyti að hafa í för með sér. Hinsvegar felldi ég mig ekki við þá skoðun minni hl., að því skyldi vísað til stj. og falið henni á vald, hvort nýtt skip yrði byggt eða ekki. Mér var það ljóst, að það myndi hafa meiri töf í för með sér en æskilegt er, og ég álít, að brýn þörf sé á, að bætt verði við nýju skipi, sem þá gæti annazt björgunarstarfsemi við Vestmannaeyjar, og þá mátti einnig líta á þá þörf, sem er á fiskirannsóknum hér við land. Að því athuguðu vil ég fylgja málinu, en þó með þeirri aths., að tekjur ríkissjóðs verði auknar þannig, að þær gætu vegið upp á móti þeim kostnaði, sem þetta hefir í för með sér. Ég sá þó ekki ástæðu til að koma fram með till. þess efnis, af þeirri ástæðu, að það muni alltaf taka 1–2 ár að koma þessu í kring, svo að auðveit mun á næsta þingi að taka fjárhagshliðina til athugunar.

Það má náttúrlega deila um það, hversu mikil þörf sé á því að fá þetta 3. skip til landhelgisgæzlunnar, en ég tel það nauðsynlegt og á því byggi ég mitt atkv. Ég get að vísu ekki rökstutt það til fulls, en verð þó að segja það, að meðan ber á því, að landhelgislöggjöfin er brotin, þá virðast skipin, sem nú eru, ekki geta haft fulla gæzlu með landhelginni, eða ekki vera eins fær um það og vera ber. Þótt landhelgisgæzlan gefi máske ekki svo miklar beinar tekjur, þá hygg ég hinar óbeinu vera svo miklar, að það muni borga sig að auka hana, og sjávarútvegurinn myndi vissulega þola að greiða sinn hluta af þeim kostnaði, sem af henni leiðir, vegna hinna óbeinu tekna.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, þar sem hv. frsm. meiri hl. hefir fallizt á þetta og hæstv. stj. hefir látið þá skoðun í ljós, að nauðsyn beri til að afla ríkinu nýrra tekna, og þar sem engin mótmæli hafa komið fram gegn því, virðist mér sem hv. þdm. fallist á þessa skoðun.