03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Ég get þakkað hv. frsm. og hv. 4. þm. Reykv. fyrir það, að þeir hafa lýst fylgi sínu við brtt. mínar; hv. 4. þm. Reykv. við allar till., og hv. frsm. með þeirri fyrstu, sem gengur út á það að tryggja Fiskveiðasjóðnum greiðan aðgang að því að afla fjár með bréfasölu. En hinsvegar hefir hv. frsm. ekki getað fylgt 2. og 3. brtt., en ég vil benda á það út af ummælum hans um 2. brtt., að með henni væri verið að breyta grundvallarhugsun þessa frv., að það er alger misskilningur. Því að þótt það liggi nær skoðun hv. frsm. að telja þau skip, sem eru 35 smál., frekar báta heldur en hin, sem eru 50 smál., þá er sú merking lögð í þetta sunnanlands, að allt að 60 smál. teljist bátar. Það er miðað við það, að menn hafa að lögum tvennskonar réttindi til þess að hafa á hendi stjórn á skipum, svokallað bátapróf, sem nær til þess, að menn megi stýra allt að 60 smálesta bátum, en svo þarf annan og meiri lærdóm til þess að fá rétt til að stýra stærri skipum. Að því leyti, sem hér getur verið að ræða um skilgreiningu á bátum og skipum, er þess vegna um að ræða þá einu skilgreiningu, sem felst í þessu; önnur er ekki til. Enda veit ég, að það getur alls ekki verið meiningin með þessu frv. að útiloka einhverja stærstu vélbátaútvegsstöð landsins að meira eða minna leyti frá þessum lánum, eins og mundi verða, ef frv. verður samþ. eins og það er nú.

Ég hefi áður bent á, að í verstöðvunum við Faxaflóa eru bátar alltaf að stækka, og nú er mikið af útveginum rekið á 50 smálesta bátum og þar í kring, og tala stærri bátanna eykst jöfnum skrefum eftir því sem hinir ganga úr sér. Og þegar frá er talin Reykjavík og Hafnarfjörður, er við Faxaflóa veitt upp undir 1/10 af öllum fiski, sem fluttur er út úr landinu. Það nær því ekki nokkurri átt að leggja þann skilning í þetta frv., að útvegur frá þessum stöðum eigi að heyra undir undantekningaratriði um lán.

Nú hefir verið bent á, að á öðrum stöðum stendur eins á, t. d. á Ísafirði, og er það í samræmi við þá framþróun, sem er að verða á útveginum hér, að ég legg til, að þessi ákvæði verði tekin upp í frv.

Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Vænti ég þess fastlega, að hv. d. komist við nánari athugun að þeirri niðurstöðu, að réttara sé að ganga frá þessum ákvæðum eins og ég legg til, heldur en eins og gert er ráð fyrir í frv.