05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Baldvinsson:

Þetta mál kom hér í Ed. í fyrra og mælti ég á móti því þá, vegna þess agnúa, sem þá var á frv., að taka stórkostleg réttindi af þeim sjómönnum, sem eru á þeim skipum, er lán fengu úr þeim sjóði. En ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að samkomulag hefir náðzt um það ákvæði 7. gr., sem sett er til að gera það mögulegt að bæta sjóðnum þann halla, sem hann kann að verða fyrir vegna sjóveða í skipunum. Þetta tel ég sæmilega lausn, þótt ég á hinn bóginn vilji gjarnan játa það með hv. þm. Snæf., að betra væri, ef verksvið sjóðsins væri víðtækara.

Ég hefi áður komið fram með till. um rekstrarlán handa hinum smærri útvegsmönnum, sem hefir verið misjafnt tekið, einmitt af hv. þm. Snæf., sem hefir haft horn í síðu þess, og það hefir ekki náð fram að ganga, þótt komið hafi svo snemma til sjútvn., að það hefði getað orðið afgr.

Það er rétt hjá hv. þm., að þessi sjóður er aðeins miðaður við skipakaup, en það hefði þurft að bæta meira við hann, ef hann hefði átt að taka að sér rekstrarlán líka. En sjóveðsmálinu er hér heppilega ráðið til lykta, því að það er svo á svo að segja hverju hausti, að margir sjómenn verða að sækja sinn rétt að lögum, til að fá kaup sitt greitt fyrir undanfarandi vertíð. Þetta hefir aðallega komið fyrir á síldveiðum.