25.03.1930
Efri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

91. mál, gagnfræðaskóli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil leyfa mér að þakka hv. n. fyrir afgreiðslu þessa frv. Er það í senn gleðilegt og merkilegt, að fulltrúar hinna þriggja flokka, sem n. skipa, skyldu hafa orðið sammála um frv. í öllum aðalatriðum. Ósamkomulag hefir ekki orðið nema um eitt atriði, sem liggur utan við umgerð frv. sjálfs.

Ég hygg, að mér sé óhætt að segja það, að þetta frv., sem fjallar um skipulag hinnar almennu alþýðufræðslu, muni marka stórt spor í menningu kaupstaðanna, ef það nær fram að ganga. Það hefir svo verið til þessa, að ekkert samfellt kerfi hefir náð yfir ungmennafræðsluna í landinu, sízt í kaupstöðunum. Vestmannaeyingar eru skólalausir, Ísfirðingar hafa baslað með dálítinn unglingaskóla, Akureyringar stuðzt við eldra fyrirkomulag, sem ekki á lengur við, Austfjarðakaupstaðirnir engan skóla haft, því að á Eiðaskóla er fremur lítið sem sveitaskóla en kaupstaða. Lánist að fá þetta frv. afgr. frá þessu þingi lítið breytt, er þar með búið að koma sterku skipulagi á alþýðufræðsluna í kaupstöðunum. Ég segi ekki, að ekki þurfi að laga eitt og annað seinna meir í þessari löggjöf, því að allt vex og breytist, en ég hygg, að una megi við hana um langan tíma. Alþingi í fyrra samþ. 1, um skipulag héraðsskólanna, og væri því mjög æskilegt, að skipulag kaupstaðaskólanna gæti orðið lögfest í ár.

Að gefnu tilefni frá hv. 3. landsk. skal ég skýra frá því, að hægt er að segja, að sæmilegar horfur eru nú á um héraðsskólana. Skólarnir á Laugum og Laugarvatni munu geta bjargazt af eins og þeim er nú komið, en aftur á móti er skólinn í Borgarfirði á flæðiskeri staddur, því að skólahúsið er svo bágborið, að bæði fyrrv. og núv. læknir á Kleppjárnsreykjum hafa viljað banna, að kennsla mætti fara fram þar. Skólinn á Núpi hefir léleg húsakynni, en nú stendur til, að sett verði þar upp raflýsing í sumar, og sýslurnar þar vestra og einstakir menn hafa þegar safnað miklu fé í því skyni, að takast megi að byggja þar upp sem fyrst. Og Strandamenn og Húnvetningar vilja láta byrja á byggingu skólans á Reykjum í sumar.

Hv. 3. landsk. var að spauga með það, að það væri ekki formlegt hjá stj. að taka lán til að mæta framlögum sveitanna. Því miður var það ekki ég, sem átti þessi „kompliment“, heldur lagði fræðslumálastjóri til, að þetta yrði gert, og var ég honum þakklátur fyrir. Borgfirðingar hafa safnað 80 þús. kr. til síns skóla og Strandamenn og Húnvetningar í kringum 40 þús. kr., en þar sem ekki var veitt nema 20 þús. kr. í þessu skyni í fjárl., hefði ekkert getað orðið úr framkvæmdum, ef ekki hefði verið gripið til þessa ráðs. Það yrði mjög seinunnið verk að ætla að koma þessum skólum upp með slíkum fjárveitingum eingöngu, auk þess sem líta ber til þess, að hér er um stofnanir að ræða, sem búa má að um langan aldur.

Það kom fram í ræðu hv. 3. landsk., að meiningin mundi vera að byggja meira á Laugarvatni. Það er að vísu eftir að byggja þar, en þó að peningar væru til, myndi ekki verða byggt þar svo að um munaði eins og stendur. Þær skáldsögur, sem hv. þm. kom með eftir bæjarhjalinu um ósamkomulag í stj. út af Laugarvatnsskólanum, eru algerlega úr lausu lofti. En eins og kostnaðurinn við aðgerð Menntaskólans fór fram úr því, sem áætlað var í fjárl., og eins og setja varð kostnaðinn við viðgerð Menntaskólans á Akureyri í fjáraukalög 1923, eins gerir stj. ráð fyrir, að meiru fé verði varið til skólanna en áætlað er, þegar vel árar.

Frv. gerir ráð fyrir, að sama kerfi verði komið á um hina almennu alþýðufræðslu í öllum stærri kaupstöðum landsins, sem eru þess megnugir að bera uppi skóla með núverandi fólksfjölda sínum. Það var síður en svo, að tilætlunin hafi verið að halla á Seyðisfjörð með því að taka hann ekki upp í frv., heldur Norðfjörð í hans stað, en Seyðisfjörður fer minnkandi með hverju ári og hefir ekki nóga nemendur til þess að halda uppi nema veikum unglingaskóla. Það leiðir af sjálfu sér, að engum einstökum kaupstað landsins verður misboðið með því að synja honum um skóla, þegar íbúar hans eru orðnir nógu margir til þess að bera skóla uppi, en eins og stendur allt ég það ekki tímabært fyrir Seyðisfjörð að fá gagnfræðaskóla.

Nái þetta frv. fram að ganga, verður næsta skrefið að bæta við lagabálk um verklegt nám, og yrði það sennilega gert á næsta ári. Þegar hv. 3. landsk. stakk upp á því að skipa Iðnskólanum hér í Reykjavík á bekk með gagnfræðaskólunum, komum við fræðslumálastjóri okkur saman um það, að við skyldum, ef þetta frv. næði afgreiðslu þingsins, undirbúa fyrir næsta þing frv. um verklegt nám. Stakk ég svo upp á þessu við hv. 3. landsk., en hann tók ekki liðlega — í það, svo að við felldum talið niður. Vil ég nú gera grein fyrir því, að hvaða leyti skoðanamunur er á milli okkar um þetta atriði.

Hv. 3. landsk. hefir borið fram, á þskj. 336, brtt. sínar við frv., og er aðaltill. hans við 18. gr. þess. Þeir þrír gallar eru á þessari aðaltill. hv. þm., að ég tel mjög misráðið að samþykkja hana. Fyrst og fremst gerir till. ráð fyrir, að bætt verði við alla kaupstaðaskóla óviðkomandi stofnunum, auk þess sem Reykjavík er tekin út úr með sérstöku fyrirkomulagi. Hér er því á annarlegum stað verið að skapa hlunnindi fyrir Reykjavík, þar sem frv. aftur á móti gerir ráð fyrir skynsamlegum þörfum allra kanpstaðanna. Þó gerir frv. eina undantekningu um Reykjavík, vegna þess að hér er þörfin mest í þessu efni, því að gert er ráð fyrir, að meira liggi á að byggja hér yfir alþýðuskólann en í Hafnarfirði, þar sem þar er þó hús yfir skólann, þó að lélegt sé. En það er um hv. 3. landsk. eins og kom fram í ræðu hjá hv. 1. þm. Reykv. í öðru máli, að hann vill láta Reykjavík hafa meiri rétt en hina kaupstaði landsins. Ég held því aftur á móti fram, að Reykjavík eigi að hafa jafnan rétt — og ekki meiri. Reykjavík er að vísu höfuðborg landsins, en hún á að vera hliðsett öðrum kaupstöðum á landinu engu að síður.

Annar gallinn á þessari hugmynd hv. 3. landsk. er það, að hann vill láta ríkið byggja yfir stofnanir hér í Reykjavík, sem því koma enn ekkert við. Iðnskólinn og Verzlunarskólinn eru einkastofnanir, sem mikið mundi kosta að byggja yfir. Ef ríkið því á að taka þessa fræðslu að sér, á að gera það með heildarlögum og réttlæti, en ekki með því að taka einn kaupstaðinn út úr, því að allir kaupstaðirnir hafa einhvern vísi til iðnfræðslu.

Í Hafnarfirði hugsa bæjarfulltrúarnir sér, að byggður verði alþýðuskóli eftir þessum l., en að iðnfræðslan rísi svo upp í sambandi við skólann. Og að þessu leyti get ég verið sammála, þó að ég hinsvegar líti svo á, að sjá eigi fyrir allri verklegri fræðslu jafnt, en ekki fyrir iðnfræðslunni einni saman. En hvernig því verði bezt fyrir komið, er með öllu órannsakað enn. Fræðslumálastjóri álítur, að iðnfræðslan eigi líka að koma, en að kaupstaðirnir eigi að bera kostnaðinn við hana að meira leyti en við alþýðufræðsluna. (JÞ: Hverjum bar að rannsaka þetta?). Stj. bar engin skylda til að búa það frv., sem hér liggur fyrir, og þá ekki fremur að rannsaka þessa sérfræðslu. Og það er ekkert sérlega vel viðeigandi að vera að reyna að bregða fæti fyrir skipulagningu hinnar almennu fræðslu í landinu með óeðlilegum fleygum um sérhagsmuni einstakra kaupstaða.

Þriðji gallinn á till. hv. 3. landsk. er vestur, þar sem till. hans gætu haft þær afleiðingar, að dráttur yrði á því, að byggt yrði yfir alþýðuskólann hér í Reykjavík. Bæjarstj. hér veit það ósköp vel, að nauðsyn ber til að byggja sem fyrst yfir alþýðuskólann, en engu að síður felldu íhaldsfulltrúarnir með tölu fjárveitingu til skólabyggingarinnar á móti framlagi ríkisins. Ég verð því að átelja það, að hv. 3. landsk. skuli búa till. sínar svo út, að þær gætu orðið fleygur gagnvart Reykjavík, ef þær næðu fram að ganga. Í frv. segir svo: „Ríkissjóður lætur á árunum 1930, 1931 og 1932 reisa hús handa gagnfræðaskólanum í Reykjavík. Leggur bærinn til ókeypis lóð, sem kennslumálaráðuneytið tekur gilda, þar sem séð er fyrir eðlilegri vaxtarþörf skólans og annara skóla og skyldra stofnana, sem síðar kynni að þykja heppilegt að reisa við hlið hans“.

Í stjfrv. er m. ö. o. séð fyrir þessu sama, sem hv. 3. landsk. telur, að vaki fyrir sér, þar sem séð er fyrir, að skólinn hafi svo stóra lóð, að hægt verði að reisa við hlið hans aðra skóla og skyldar stofnanir, eftir því sem þarfir og þróun krefur. Ennfremur gerir frv. ráð fyrir, að Reykjavíkurbær leggi til vatn með kostnaðarverði úr hitaveitu bæjarins til að hita skólabygginguna, og að ríkissjóður leggi fram 2/5 byggingarkostnaðarins, allt að 90 þús. kr., en Reykjavíkurbær 3/5 hluta. Þar til skólabyggingin er komin upp, er ætlazt til, að séð verði fyrir þörfum Reykjavíkur í þessu efni, þannig að bærinn sjái skólanum fyrir húsrúmi, sem kennslumálastj. tekur gilt, en landsstj. greiði 2/5 húsaleigunnar.

Till. hv. 3. landsk. ganga út á það, að „ríkissjóður leggi fram á árunum 1930, 1931 og 1932 samtals 90 þús. kr. vegna gagnfræðaskólans, til byggingar sameiginlegs skólahúss fyrir þann skóla, Iðnskólann og Verzlunarskólann“. Þessari sömu upphæð, sem frv. ætlar til byggingar alþýðuskólans, og frekar yrði of lítil en of stór í því skyni, á m. ö. o. að deila niður á skólana þrjá, og minnka alþýðuskólann að sama skapi, þó að því tilskildu, að „bæjarsjóður leggi fram vegna Gagnfræðaskólans 135 þús. kr. á sama tíma, og að samkomulag náist að öðru leyti við bæjarstj. Reykjavíkur og við eigendur Iðnskólans og Verzlunarskólans um fjárframlög til skólabyggingarinnar“. Það er þannig sett hvert skilyrðið á fætur öðru fyrir því, að ríkið fái þá æru að byggja yfir þessa skóla, og þá sérstaklega Iðnskólann, sem segja má, að sé sama sem úti á gaddinum. Þeir, sem þekkja til þess, hvílíka tregðu meiri hl. í bæjarstj. hér í Reykjavík hefir frá því fyrsta sýnt í þessu mikla velferðar- og menningarmáli bæjarins, munu ekki gera sér stórar vonir um árangur af þessari till. hv. 3. landsk. Bæjarstj. neytti ítrustu málafærslutiltekta í vetur til þess að komast undan að greiða kostnaðinn af alþýðuskólanum að sínum réttmæta hluta á móti ríkinu, enda er það á allra vitorði, að bærinn vill ekkert af mörkum leggja til alþýðuskólans, eins og bæjarstj. er nú skipuð. (JÞ: Það mun ekki standa á því, þegar hæstv. dómsmrh. hefir vikið úr ráðherrastólnum). Nú, á að bíða eftir því? Er íhaldið svo trúað á yfirburði stj., að meðan hennar nýtur við þurfi ekki að mennta kjósendur? Mikil er trúin á yfirburði framsóknarmanna!

Hv. þm. er í rauninni að eyðileggja allt frv. með þessum óviturlega fleyg, því hann myndi hafa það í för með sér, að ekkert yrði aðhafzt í þessum efnum í nánustu framtíð. En um leið er hann að búa svo um, að landið taki við Verzlunarskólanum að fullu, en þess hefir Alþingi hingað til eindregið synjað. Hv. þm. virðist standa í þeirri trú, að hann geti laumað Verzlunarskólanum, með á annað hundrað nemenda, og Iðnskólanum, með 300–400 nemenda, inn á landið. Ég hygg, að hv. þm. tefli hér helzt til djarft. Eftir að ríkið væri svo búið að byggja hús undir þessa skóla, þá myndu þeir vitanlega koma og heimta kennara, og svo meira og meira, til þess að Reykjavík þyrfti ekkert af mörkum að leggja. Ég er hinsvegar samdóma hv. þm. um það, að það þurfi að koma skipulagi á iðnfræðsluna, en ekki einungis í Reykjavík, heldur og um allt landið. Hv. þm. heldur, að hægt yrði að nota plássið í Gagnfræðaskólanum á kvöldin, en hér í bæ yrði stór kvöldskóli í sambandi við Gagnfræðaskólann, svo að lítið pláss yrði afgangs til annarar kennslu. En vitanlega er það sjálfsagt, að nota allt það pláss, sem afgangs yrði: En hitt er víst, að það hefði ekki verið vel tekið upp fyrir mér, ef ég hefði, eftir að hafa látið laga kennslustofurnar í Menntaskólanum, leyft Iðnskólanum að starfa þar á kvöldin. Það er annars dálítið kynleg veiðibrella hjá hv. 3. landsk., að reyna með hrekkjum að lauma kaupmannaskóla Reykjavíkur inn á landið, eftir að Alþingi er oftsinnis búið að fella slíka tilhögun, þegar hún hefir komið fram í frv.-formi. Ég skal aðeins minna hv. þm. á það, að kaupmannastétt Reykjavíkur hefir sýnt allt of mikið tómlæti um þennan skóla sinn til þess, að hún geti ætlazt til, að ríkið fari nú að verðlauna slíkt.

Hús skólans mun vera eitthvert hið lélegasta skólahús á landinu, og er þá mikið sagt. Og yfirleitt er útbúnaður skólans allur og aðbúð þannig, að til vansæmdar er þeim, er að standa. Eru það þó mestu peningamenn landsins, sem halda þessum skóla uppi. Nú styrkir ríkið þennan skóla með 6.000 kr. árlega, en ef ríkið ætti að taka skólann að sér að fullu, þá myndi þessi kostnaður minnst tífaldast. En hverju er það nú að þakka, að kaupmönnunum í Reykjavík hefir ekki enn tekizt að velta þessu yfir á landssjóðinn? Það er vitaskuld því að þakka, að kaupfélögin hafa haldið uppi skóla, mjög sæmilegum í alla staði og í viðunandi húsnæði. Nýtur hann að vísu nokkurs styrks af ríkinu, en myndi eflaust halda áfram jafnvel þótt hann fengi engan styrk, því að kaupfélögin hafa hingað til sýnt meiri skilning á þessum málum en kaupmannastéttin í Reykjavík. Þó að ekki væri öðru til að dreifa en nánasarskap verzlunarstéttarinnar og hirðuleysi hennar um þennan skóla sinn, þá væri það ærið nóg til þess, að þingið ætti að vísa á bug með fyrirlitningu öllum tilraunum þeirra til þess að veita skólanum yfir á ríkið. Meðan kaupmannastéttin sýnir ekki meiri myndarskap og stórmennsku en raun er á um skóla þeirra hér í bæ, þá verðskuldar hún ekki, að ríkið taki þetta fóstur hennar upp á sína arma. Ef peningamannastétt landsins þykir það sæmandi að halda við þessum skóla eins og horföllnum útigangshesti og varpa honum síðan yfir á landið, þá er lítill orðinn stórmennskubragurinn yfir brjóstfylking íhaldsins. Það er því alveg sjálfsagður hlutur að strádrepa þessa till., á þskj. 336, sem hv. 3. landsk. er flm. að. Síðari liður hennar er með öllu óhæfur og myndi hafa háskasamlegar afleiðingar. Enda kemur fram í till. mikið skilningsleysi á því, hvernig byggja á upp hina almennu fræðslu í landinu og hina verklegu á eftir. Ennfremur er till. í heild sinni einungis lævísleg tilraun til þess að velta yfir á landið þessari vanræktu stofnun, sem ríkið hefir hingað til ekki viljað taka á sína arma.

Ég skal svo ljúka máli mínu með því að drepa á nokkur einstök atriði í nál. minni hl. Þar er leitazt við að sanna, að í Reykjavík sé í rauninni áhugi fyrir alþýðufræðslu almennt. Því til sönnunar eru svo taldir upp ýmsir skólar, sem starfa hér í bæ. Fyrst er talin gagnfræðadeild Menntaskólans, með eitthvað 90–100 nemendur. Þessi deild er kostuð af ríkissjóði eingöngu, og ef hún yrði lögð niður, myndi ríkið láta bænum aðra tilsvarandi menntastofnun í té í stað hennar samkv. þessu frv. Af þessu sézt, að þetta er engin sönnun þess, að nokkur minnsti áhugi sé hjá bæjarbúum um þessa hluti. Svo kemur Gagnfræðaskóli Reykjavíkur. Um þá stofnun er það helzt að segja, að hún er sérskóli fyrir nokkurn hluta bæjarbúa, og til þess ætluð sérstaklega að búa börn þeirra undir Menntaskólann. Það fer því fjarri, að þetta sé nokkur alþýðuskóli. Hann er ekki miðaður við menntaþörf sjómanna eða sjómannakvenna, eða annara alþýðumanna, heldur embættismanna.

Neðri deild Menntaskólans og Gagnfræðaskóli Reykvíkinga eru báðir miðaðir við þarfir embættisnámsins, en ekki við almenna og alþýðlega menntun. Um Kvennaskólann er það að segja, að forstöðukona hans hefir margoft lýst því yfir, og jafnvel hér í deildinni, að hann væri landsskóli að öllu leyti. A. m. k. sýnir Reykjavík honum lítinn sóma. Þessu til sönnunar má benda á það, að bærinn leggur til skólans einar 500 kr. árlega, en að öðru leyti eru tekjur skólans skólagjöldin og ríkissjóðsstyrkurinn. Svo kemur kaupmannaskólinn, en hann er, eins og kunnugt er, sérskóli fyrir verzlunarstéttina. Ég held, að hv. 3. landsk. sé ekki með öllum mjalla, ef hann hyggst að telja nokkrum trú um, að þar sé um alþýðuskóla að ræða. Loks kemur Iðnskólinn, og ekki getur hann alþýðuskóli talizt fremur en t. d. bændaskólarnir. Hinir eiginlegu alþýðuskólar eru t. d. Flensborgarskólinn áður fyrr, Eiðaskólinn, Laugaskólinn og fleiri hliðstæðir skólar. Þessir skólar eru miðaðir við almenna menntun, en ekki sérmenntun. Þeir eru fyrst og fremst handa því fólki, sem enn er ekki búið að taka ákvörðun um það, hvaða lífsstarf það eigi að leggja fyrir sig. Nei, hv. 3. landsk. getur á engan hátt fóðrað þetta, því að leiðandi menn hér í bæ hafa ekkert gert fyrir þessi mál, ekkert lagt af mörkum og alltaf sýnt tregðu um þessa hluti. Jafnvel þótt telja megi Kvennaskólann alþýðuskóla, þá er það alls ekki Reykjavík að þakka, því að hún hefir aðeins notað skólann, en ekki styrkt. Og nú, þegar skólinn ætlar að kaupa húsnæði það, sem hann hefir haft að undanförnu, þá snýr hann sér ekki til bæjarsjóðs um styrk til þess, heldur til ríkisins, og bendir það til þess, að skólinn eigi ekki sérstaklega upp á pallborðið hjá bænum, þegar um fjárframlög er að ræða, þótt bærinn noti skólann og hafi af honum allt það gagn, sem unnt er.

Þá sagði hv. 3. landsk., að samband væri á milli mótmælanna frá Akureyri og sinna sérskoðana. Þetta er vitanlega hin mesta fjarstæða. Akureyringar segja einungis, að Akureyrarskólinn hafi verið alþýðuskóli fyrir Norður- og Austurland, og að þeir mótmæli því, að hann sé gerður að ungmennaskóla, sem kostaður væri að mestu af Akureyri. Nú þótti mér ekki hlýða að taka af þeim þessi réttindi, að hafa landskennslu, og lítur nú út fyrir, að fyrst um sinn verði í húsi Menntaskólans á Akureyri einnig héraðsskóli Eyfirðinga. Fyrir mér vakir alls ekki, að það verði með þessu fyrirkomulagi auðveldara að hlaupa úr þessum skóla upp í Menntaskólann heldur en t. d. úr Gagnfræðaskólanum hér. Þetta er því alls engin hækkun, eins og hv. 3. landsk. vill gefa í skyn. Eins og ekki er hægt að taka Eiðaskólann af Austfirðingum, eins er ekki hægt að taka frá Akureyringum þennan skóla. Og ég geri ráð fyrir, að Menntaskólinn þurfi bráðlega alla bygginguna, svo að fyrst um sinn verður aðeins um húsnæðissamband að ræða. Fyrir Akureyringum vakir, að skóli þeirra sé við vöxt, og þegar Menntaskólinn þar vex, þá fellur niður sú bráðabirgðaalþýðufræðsla, sem nú hefst í húsi skólans, og byggður verður myndarlegur alþýðuskóli á Möðruvöllum eða inni í Eyjafirði. Af þessu er það ljóst, að fyrir Akureyringum vakir allt annað en það, sem hv. 3. landsk. heldur. Þeir vilja einungis fá jafnrétti við aðra kaupstaði innan þess ramma, sem frv. ákveður, sbr. ræðu hv. þm. kjördæmisins.

Ég vil svo að lokum endurtaka þakklæti mitt til hv. n. fyrir undirtektir hennar. Ég vil vona það, að þetta skipulag, sem hér er stungið upp á, verði traustur grundvöllur undir skólamál okkar í framtíðinni. Verður væntanlega byggt ofan á það síðar, ekki á þann hátt, sem hv. 3. landsk. vill vera láta, að láta kaupmannafræðsluna sitja í fyrirrúmi, heldur almenna verklega fræðslu og húsmæðrafræðslu, sem sízt er minna um vert. Að lokinni hinni almennu bóklegu fræðslu, þá er eðlilegast að fá sérfræðslu í þeim verklegu greinum, sem æskumaðurinn ætlar að leggja fyrir sig. Hv. 3. landsk. virðist ekki hafa nægilegan skilning á þessu mikilsverða atriði, því að hann sér enga aðra lausn á þessum málum en að hrúga öllum þessum kennslugreinum saman í einn stóran skóla, svokallaðan samskóla. Þó er það ekki hv. þm. sjálfur, heldur einhver kunningi hans, sem á hugmyndina að þessari grautargerð í skólamálum. Þessir menn skilja ekki þá raunverulegu þörf, sem hér er fyrir hendi í þessum efnum. T. d. er húsmæðrafræðslan eitt af því nauðsynlegasta, og sem koma verður í betra horf á næstu árum. Húsmæðrastétt landsins er miklu fjölmennari en t. d. múrsmiðir og trésmiðir, eða þá kaupmenn, sem hv. þm. virðist aðallega bera fyrir brjósti. Næst á eftir húsmæðrafræðslu kemur svo fræðsla fyrir þá karlmenn, sem ekki eru iðnaðarmenn, því að iðnaðarmenn eru margfalt færri en t. d. almennir verkamenn, sjómenn o. fl.