16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Það kemur víst ekkert af þökkum hæstv. fjmrh í minn hlut, því að ég hefi enn sem fyrr borið hér fram nokkrar brtt. við fjárlagafrv.

Ég hefi talsverða tilhneigingu til þess að benda hv. d. á það í stórum dráttum, með hvaða sniði fjárlagafrv. er nú, eins og hv. Ed. hefir gengið frá því. Mér finnst aðalatriðin hafa gleymzt til þessa í karpinu um smáatriðin.

Þá vil ég fyrst vekja athygli á því, að búið er að ákveða útgjöld á árinu 1931, sem ekki hafa verið tekin upp í fjárlagafrv., er nema a. m. k. 4–500 þús. kr. Ég tel þetta ósæmilega afgreiðslu fjárl., þó það sé að vísu ekkert nýtt, að ekki séu tekin upp í fjárl. gjöld, sem ákveðin eru með sérstökum lögum á sama þinginu. En það þarf þá a. m. k. að gera ráð fyrir einhverjum tekjum til að mæta þeim útgjöldum. Útgjöldin er viss.

Eins og venja er til, er mestur hluti af gjaldaliðum fjárl. lögbundin gjöld. Af útgjaldaáætlun ársins 1931 má telja, að talsvert meira en helmingurinn sé lögbundin gjöld. Af ólögbundnu gjöldunum er langmestur hluti til verklegra framkvæmda. Ég skal nú manna sízt hafa á móti því, að mikið sé lagt til þeirra. Ég viðurkenni fullkomlega, að það fé; sem varið er til verklegra framkvæmda, er lagt í nokkurskonar sparisjóð, að með því er verið að tryggja framtíð þjóðarinnar. En ég efast um, að allir hv. þm. hafi gert sér ljósa grein fyrir, hvað hér er um stórar upphæðir að ræða.

Fjárveitingar, sem telja má að ætlaðar séu til verklegra framkvæmda, eru sem hér segir:

Samkv. 12. gr. …………… 20 þús. kr.

Samkv. 13. gr. B. ………… 950 — —

Samkv. 13. gr. D. ............... 240 — —

Samkv. 13. gr. F. ………… 400 — —

Samkv. 14. gr. A. ………… 20 — —

Samkv. 14. gr. B. ………… 170 — —

Samtals á þessum greinum

til verklegra framkvæmda .. 1.800 — —

Þar við bætist um 600 þús. kr. framlag frá einstökum héruðum, sem sett er að skilyrði fyrir mörgum þessum greiðslum, svo það eru eiginlega 2.400 þús. kr., sem vinna á fyrir af opinberu fé.

Enn er þó ótalin 16. gr., sem er langstærst. Nema öll gjöld í henni fast að 1.700 þús. kr.; þar af má telja beinlínis til verklegra framkvæmda 1.450 þús. kr. og í 17. gr. eru 10 þús. kr. ætlaðar til verklegra framkvæmda. Eru því alls ætlaðar á þessu eina ári til verklegra framkvæmda 3.260 þús. kr., auk allra framlaga frá þeim héruðum, sem framkvæmdanna eiga að njóta, og auk sérstakra laga.

Ef litið er yfir 16. gr., þar sem mest er talið af fjárveitingum til verklegra framkvæmda, sést það, að þingflokkurinn, sem kennir sig við bændur sérstaklega, notar allfreklega aðstöðu sína til þess að beina fjárstraumnum til sveitanna. Svo mikið er þar veitt til framkvæmda í sveitum og til lánsstofnana handa bændum, að ekki er nema sem svarar 10% af þeirri upphæð. sem ætlað er til samskonar þarfa þeirra, sem í kaupstöðum og sjávarþorpum búa. Mér finnst rétt að benda á þetta, því að ef ég man rétt, sagði hæstv. forsrh. hérna um daginn, að ekki væri búið að stíga nema fyrsta sporið í þá átt að hlúa að sveitunum, og að Framsóknarflokkurinn væri ekki búinn að koma í framkvæmd nema einum tíunda hluta af áhugamálum sínum í þá átt. Þetta er því ekki nema inngangurinn, þar sem hæstv. stj. og flokkur hennar á eftir að koma fram 90% af hagsmunamálum landbúnaðarins.

Þó margt og mikið megi að útgjaldahlið þessa fjárlagafrv. finna, þá er þó tekjuhliðin að mínu áliti enn aðfinnsluverðari. Tekju- og eignarskattur nemur ekki nema tæplega 10% af þeim álögum, sem ríkið leggur á þegnana. Og aðflutningstollurinn einn er hér um bil fimmfalt hærri en beinu skattarnir, svo ég ekki tali um skólagjöld og gróðann af fylliríi landsmanna.

Þegar litið er á heildarsvip fjárlagafrv. hygg ég því, að engan þurfi að undra, þó að ég flytji hér nokkrar brtt. En ég veit, að það er gagnslaust að reyna að lagfæra þetta, sem ég hefi bent á. Brtt. mínar hníga að öðrum og smærri atriðum. Sú þeirra, er mestu máli skiptir, er um það, að ríkið ábyrgist fyrir Siglufjarðarkaupstað lán til rafvirkjunar. Þessi ábyrgð var samþ. hér í hv Nd., en felld í Ed., af mér óskiljanlegum ástæðum. Það hefir mikið verið rætt hér um rafmagnsmál á þessu þingi og hinu síðasta. Meira þó um raforkuveitur í sveitum heldur en í kaupstöðum. Þau er talið fullvíst, að ekki sé hægt að sjá sveitunum fyrir rafmagni með því verði, að það komi að notum, nema með stórmiklum styrk úr ríkissjóði. Það getur vel verið gerlegt fyrir því. En þeir kaupstaðir, sem þegar eru búnir að koma sér upp rafveitum, hafa ekki fengið til þess annan stuðning en ábyrgð ríkisins. Og það verður að teljast vítavert afturhald og sinnuleysi að neita Siglufirði um samskonar ábyrgð, þar sem engar líkur eru til, að það kosti ríkið einn eyri. Ég skil vel, þó hæstv. stj. vilji ekki flana út í að samþ. lög um raforkuveitu í sveit, að lítt athuguðu máli, og gefa með því bindandi fordæmi um það, eftir hvaða hlutfalli á að styrkja slíkar framkvæmdir í framtíðinni. En ég skil ekki hvers vegna hún vill ekki veita Siglfirðingum þá hjálp, sem allar líkur eru til að baki ríkissjóði aldrei neinn kostnað. Því sú hefir orðið reynsla annara kaupstaða, að rafveitur þeirra hafa borið sig vel. Fjármálunum er nú svo háttað hér, að varla er nokkur von til þess, að kaupstaðir geti fengið stór lán án ríkisábyrgðar. Innanlands er varla um að ræða að fá svo stórt lán sem þetta, og utanlands er Siglufjarðarkaupstaður vitanlega lítið þekktur, eins og aðrir kaupstaðir hér.

Þá flyt ég till. um að veita 70 þús. kr. til raftauga. Hv. 3. landsk, flutti nærri samhljóða till. í Ed., sem fór fram á 75 þús. kr. fjárveitingu, og var hún felld. Hér í hv. Nd. bar hv. 1. þm. Skagf. fram till. um að veita allt að 75 þús. kr. til að greiða ákveðinn hluta kostnaðar við rafveitu um Skagafjörð. Ég greiddi ekki atkv. með þeirri till., því mér þótti hæpið að ákveða nú þegar eftir hvaða hlutföllum ríkið skuli styrkja slíkar framkvæmdir. Verð ég að ráða það af ummælum hæstv. ríkisstj., að hún láti hið fyrsta rannsaka þessi mál. Það er nauðsynlegt að fá glöggt heildaryfirlit yfir það, hvar á landinu eru bezt skilyrði fyrir stórar rafveitur, og hinsvegar hvar ekki er útlit fyrir, að slíkar rafveitur geti borið sig; þar sem svo er ástatt er full ástæða til að hvetja menn til smærri virkjana. Annarsstaðar ekki. Eftir þeim upplýsingum, sem stj. gaf, má ætla, að 1931 verði þessum málum komið það áleiðis, að stj. hafi gert sér hugmynd um heildarskiptingu landsins í orkusvæði og ennfremur um kostnað við þessar framkvæmdir og hluttöku ríkissjóðs í honum. Ef veitt er nokkurt fé nú í fjárl. í þessu skyni, er hægt að tryggja framkvæmdir þegar á næsta ári. Ella verða þær að bíða a. m. k. eitt ár, en slíkt verður væntanlega ákveðið með lögum innan skamms. Till. er hvorki bundin við ákveðið hérað eða ákveðið hlutfall.

Þá flyt ég brtt. um, að Finnur Jónsson fyrrv. póstmeistari á Ísafirði fái endurgreidd iðgjöld sín úr lífeyrissjóði. Slíkar heimildir hafa verið veittar á undanförnum þingum og ein síðast á þessu þingi, um Steinþór Guðmundsson. Má segja, að þingið hafi með þessu viðurkennt, að þeir, sem hætta störfum í þágu hins opinbera, fái endurgreidd iðgjöld sín. (HK: Það fer nú eftir því, hvaða ástæður eru til þess, að þeir láta af embætti). Ekki ættu þeir síður að njóta þess, sem fara með sæmd og heiðri, en hinir, sem eru reknir. Lífeyrissjóður hefir fengið vexti af iðgjöldunum, svo að hann græðir eigi alllítið, þótt sjálf iðgjaldaupphæðin sé endurgreidd. Finnur Jónsson sagði starfa sínum lausum 1. marz síðastl., eftir 15 ára ágæta þjónustu, og réðst til annars. Upphæðin er 7.950 kr. Þessu fé tapar hann, ef Alþingi samþ. ekki þessa till.