14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (3003)

369. mál, héraðsskóli

Frsm. (Páll Hermannsson):

Frv. fer fram á, að bætt verði einum héraðsskóla við þá fjóra, sem fyrir eru samkv. 1. nr. 37, 14. júní 1929, og að þessi skóli sé settur niður á Reykjum við Hrútafjörð. Þetta frv. er borið fram í Nd., og menntmn. þeirrar deildar lagði eindregið til, að frv. væri samþ. óbreytt, sem og líka var gert þar. Menntmn. þessarar deildar hefir líka athugað þetta frv. og leggur einnig til, að það sé samþ. óbreytt. Hún lítur svo á, að það sé í alla staði eðlilegt, að fimmti skólinn komi þarna, og telur hann vel settan þar. Héruð þau, sem næst standa og eðlilega mundu sækja hann mest, enda bera kostnaðinn til móts við ríkissjóð, eru Húnavatnssýslur og Strandasýsla. Staðurinn er og ágætlega vel settur, liggur vel í héraði og jarðhiti er þar alveg nægur. Ég vil því f. h. menntmn. leggja til, að. frv. verði samþ. óbreytt.