15.02.1930
Neðri deild: 28. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

46. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég skal fyrst svara spurningu hv. þm. Hann spurði um það, hvers vegna þessir farkennarar væru venjulega settir, en ekki skipaðir. Ástæðan er sú, að þar sem farkennslu er haldið uppi, er víðast hvar enginn fastur skólastaður, og getur þar alltaf komið fyrir, að kennsla falli niður vegna þess, að skólastaður fáist ekki. Og til þess að ríkið þurfi ekki að greiða föstum starfsmönnum, sem það getur ekki notað, hefir sú regla verið á höfð, síðan kennaralaunalögin voru sett, að veita engum farkennarastöðu, nema fastur skólastaður sé til, annaðhvort skólahús, sem sveitin á, eða kvaðir á húsnæði einstakra manna, meðan viðkomandi farkennari gegnir starfinu.

Þá kemur að hinu, hvort þessir menn, sem settir eru ár frá ári, ættu að fá aldursuppbót. Verður þá að bera þá saman við aðra embættismenn, en um kennara, sem hljóta laun eftir lögum um laun embættismanna, en ekki barnakennara, gildir sú fasta regla, að kennari, sem hefir verið settur í eitt ár, á heimtingu á veitingu næsta ár. Ef nú barnakennarar eru settir lengur en eitt ár, kemur ekki til mála að svipta þá rétti til aldursuppbótar, því samanborið við aðra eiga þeir heimtingu á aldursuppbót frá því er eitt setningarár er liðið.

Það er tilhæfulaust, sem hv. þm. sagði, að þessar setningar stöfuðu af því, að með öðru móti þættu launin of há. Alþ. ákveður launin, og ef framkvæmdarvaldið gerði eitthvað í þá átt að komast hjá að fara eftir vilja þingsins í þessu efni, þá yrði það ekki látið óátalið. Ef þannig væri farið að kennurunum til þess að draga úr lögmæltum launum þeirra, mætti alveg eins beita aðra embættismenn sama yfirgangi og svíkja þá á aldursuppbótinni.

Nei, það er hin mesta firra að halda því fram, að þetta sé gert í þeim tilgangi að spara við þessa vesalings menn, sem eru lægst launaðir allra opinberra starfsmanna. Tel ég svo þessu atriði fullsvarað.

Það er misskilningur hjá hv. þm. V.Húnv., að ég sé á móti því, að menn þeir, sem þegnskyldustörfum gegna, fái sæmileg laun. Ég get vel verið honum sammála um að launa hreppstjórum og oddvitum svo, að þeir séu fullsæmdir af. En hv. þm. getur ekki haldið því fram í alvöru, að halda eigi niðri kaupi barnakennara, til þess að geta haldið líka áfram að greiða hreppstjórum og oddvitum ófullnægjandi laun, að halda eigi áfram að launa kennarana illa, til þess að gera hreppstjórum og oddvitum sérstaka bölvun með því. Nei, slíkt nær vitanlega engri átt.

Um það, að kennarastarfið sé ekki aðalstarf þeirra, sem því gegna, þarf ekki að deila, þó þeir vitanlega vinni önnur störf á þeim tíma, sem skólinn starfar ekki.