17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

117. mál, jarðræktarlög

Halldór Steinsson:

Ég verð að taka í sama streng og hv. 4. landsk. í þessu vera, eins og hv. flm. byrjaði ræði sína á því að þótt frv. sé smátt að línufjölda, hlýtur það að hafa mjög mikinn kostnað í för með sér, ef það kemur til framkvæmda. Ég er heldur ekki alveg sammála hv. flm. um, að það hafi orðið mjög litlar framkvæmdir á þessu sviði á síðari árum. Hv. þm. sýndi fram á það með tölum, að framfarir í ýmsum jarðabótum hefðu verið mjög stórstígar, t. d. túnasléttun o. fl., en að aðrar jarðabætur hafi staðið í stað, um það er ég alls ekki sammála hv. þm. Auðvitað er ég ekki þaulkunnugur alstaðar á landinu, en ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að hlöðubyggingar hafi mjög farið í vöxt, og ef hv. þm. hefði skýrslur um það, þá er ég viss um, að þær myndu staðfesta skoðun mína um þetta.

Hv. þm. sagði, að þetta mundi hafa dálítinn aukinn kostnað í för með sér. Ég er hræddur um það, svo framarlega sem þessi skoðun hv. þm. er rétt, að þessar framkvæmdir hafi legið í dái undanfarin ár, þá myndu lögin, ef framkvæmd yrðu, hafa mikinn kostnað í för með sér. Hitt er annað mál, að það er hægt að segja, að þetta séu nauðsynlegar framkvæmdir í sveitum. Skal ég ekki bera á móti því, en þá verða menn að athuga hina hliðina líka, eins og hv. 4. landsk. tók réttilega fram, og að við þessa fjárveitingu sem aðrar úr ríkissjóði sé gætt jafnréttis milli landbúnaðar og sjávarútvegs.

Það er annars einkennilegt, að það er eins og það sé einhver goðgá, ef komið er fram með frv. fyrir sjávarútveginn, er hefir í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, nema því aðeins, að komið sé um leið með frv. um tekjuauka. Minnist ég þar sérstaklega frv. hv. þm. Ak. um að fá lækkun á síldartollinum. Því var tekið fjarri að sinna því máli, nema því aðeins, að hv. þm. benti á einhvern tekjuauka fyrir ríkissjóð, og svona er það um ýms mál, sem talað hefir verið um að framkvæma fyrir sjávarútveginn. En við eigum að styðja báða atvinnuvegi, sjávarútveg og landbúnað, og þess vegna vona ég, að hv. n. athugi vel kostnaðarhliðina á þessu máli, og hvort hún út frá henni álítur fært að ganga að frv. eins og það liggur fyrir.