14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (3080)

117. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Við verðum í þessu máli sem öðrum að líta jafnframt á getu þess aðilans, sem borga á brúsann, nefnil. ríkissjóðs. Þó að hér sé óneitanlega um stórþarft mál að ræða, þá eru þó vissulega einhver takmörk fyrir greiðsluþoli ríkissjóðsins. Þess ber og að gæta, að nú er kominn svo mikill áhugi fyrir hlöðubyggingum í sveitum landsins, að líkindi eru til, að bráðlega verði þeim málum komið í viðunandi horf. Hinsvegar bíður óræktaða landið alstaðar, og verð ég að álíta meira aðkallandi að lyfta undir aukna ræktun með slíkum fjárframlögum heldur en beina þeim til hlöðubygginga. Auk þess kemur slíkur styrkur ekki réttlátlega niður, eins og bent hefir verið á, og virðist mér því viturlegra að verja fé þessu á annan hátt, og þess vegna finnst mér sjálfsagt að setja hámark, eins og frv. gerir ráð fyrir. Annars er mér þetta ekkert kappsmál, en ég lít svo á, sem till. mín hafi rétt á sér, hvort sem till. hv. þm. Mýr. verður samþ. eða ekki. (MJ: Alveg rétt).