14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

117. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson:

Hæstv. forseti telur brtt. hv. þm. Mýr. mega komast að, og verður við svo búið að standa um það. En óneitanlega eru slík veðrabrigði dálítið undarleg, því að rétt nýlega færði þessi hv. deild hámarkið niður úr 75 þús. kr., niður í 50 þús. kr. Það er því, afgert mál, hversu miklu fé deildin vill verja í þessu skyni, og þýðir því ekki að rökræða um það að svo stöddu. Hitt er vitanlega hverjum frjálst, að hafa skoðanaskipti, og skal ég ekki um það fást að sinni. Um málið sjálft hefir hv. 2. þm. Skagf. talað, og á þann veg, sem ég vildi sagt hafa. Hefi ég því litlu við það að bæta. Hann benti rækilega á það, að ekki er nóg að líta eingöngu á það, hvað gott er að hafa af peningum, heldur og á getuna, Það væri óneitanlega gott að geta veitt svona styrk, en það er svo um þetta sem annað, að meta verður, hvar þörfin sé brýnust. Benda má einnig á það, að mjög er hæpið, hvort slíkur styrkur er í samræmi við anda jarðræktarlaganna. Má ef til vill segja, að hlöður stuðli óbeinlínis að ræktun, en á sama hátt mætti segja slíkt hið sama um ýmislegt annað, sem á engan hátt verður kallað jarðrækt viðkomandi beinlínis. Og þó að slíkur styrkur hjálpi óbeinlínis til við jarðrækt, þá verður hann með engu móti talinn jarðræktarstyrkur.

Út af ræðu hv. þm. V.-Húnv. má geta þess, að það er ekkert einsdæmi, að slíkir styrkir komi þannig ójafnt niður eftir árferði, t. d. námsstyrkir og því líkt. Alþingi ákveður einungis, hve mikill styrkur skuli veittur í þessu skyni, síðan fær hver einstakur styrkþegi styrk í öfugu hlutfalli við fjölda styrkþeganna. Þetta er því ekkert nýtt. Hvað þennan styrk snertir, þá finnst mér rétt að tiltaka nú í byrjun ákveðna upphæð og stilla fremur í hóf að svo stöddu.

Ég þarf ekki að eyða orðum að því, að brtt. hv. 2. þm. Skagf. stenzt jafnt hvort sem brtt. hv. þm. Mýr. verður samþykkt eða ekki, því að þó hún verði samþ., þá stendur þó eftir í brtt. hv. 2. þm. Skagf.: „þó veitist engum hærri styrkur en 500 kr.“ o.s.frv. Ég vil því leggja til, að sú brtt. verði samþ., hvað sem hinni líður.