16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Guðmundsson:

Það eru nú þrír dagar síðan þm. vissu, að slíta átti þingi fyrir páska. Og þegar svo er, undrar það mig stórum, hvernig deginum í gær var varið, því að hann fór í umr. um mál, sem engar líkur er á að gangi fram. Þetta er óforsvaranleg aðferð hjá hæstv. stj. og get ég ekki skilið hana öðruvísi en átt hafi að koma í veg fyrir að mál, sem henni er illa við, nái fram að ganga.

Ég vil taka í sama streng og hv. 1. þm. Reykv. um það, að sú aðferð, sem hæstv. dómsmrh. notar, að koma inn við 3. umr. í Ed. heimild handa stj. til stórfelldra framkvæmda, sem í sjálfu sér eru ekki einungis fjárhagsatriði, er alveg óhæf. Hann lék þennan leik í fyrra og hann leikur hann enn í ár. Þessu vil ég mótmæla algerlega.

Mér þótti það undarlegt, hve hv. frsm. fjvn. fann mjög að gerðum Ed., þar sem hann vildi þó láta samþ. fjárl. óbreytt. Þótti mér forsendur og niðurstöður rekast þar nokkuð á.

Það er auðsætt, að vextir og afborganir af lánum ríkissjóðs eru áætlaðir allt of lágt í fjárlfrv. þessu. Engir vextir eru áætlaðir handa Útvegsbankanum, og vita þó allir, að engin líkindi eru til, að bankinn geti greitt vexti 1931. Líklegt er og, að vexti vanti af fleiri upphæðum. Ég geri ráð fyrir, að stj. taki þau lán, sem hún hefir heimild til að taka, því að ég býst ekki við, að hún sé að fá lánsheimildir til að leika sér að þeim.

Hv. þm. Ísaf. var að hnýta nokkuð í stj., með sínum veikasta málrómi að vísu.

Það er eins og hann sé farinn að fá einhverja hugmynd um, að nú þurfi að fara að skipta liði undir landskjörið, en ég efast um, að hann heimti alla sína sauði aftur, eftir að þeir hafa staðið við framsóknarjötuna í 3 ár. Nú er þessi hv. þm. búinn að fá svo mikinn áhuga fyrir raforkutaugakerfum í sveitum, að hann flytur brtt. um 70 þús. kr. í þessu skyni. En þó gat hann ekki greitt atkv. með samskonar till. meðan hún var bundin við nafn Skagfirðinga. Það gleður mig samt, að hann hefir nú séð sig um hönd, og ég býð hann velkominn í hóp þeirra manna, sem vilja vinna að þessu þjóðþrifamáli. (ÓTh: Hann svíkur þetta allt eftir landskjörið). Við sjáum til, en ég get ekki gert að því, að mér dettur í hug, að hv. þm. flytji þessa till. af því, að hann veit nokkurnveginn með vissu, að frv. verður samþ. óbreytt til að tefja ekki þingið. Það er því ekki laust við, að ég gruni þm. um græsku.

Mér þótti það óviðkunnanlegt, hvernig Jóni Sveinbjörnssyni konungsritara hefir verið blandað inn í umr. hér. Ég skal ekki fella dóm um, hvað rétt er í þessu máli, en hitt veit ég, að það er rangt að fella dóm án þess að hafa fengið skýrslu beggja aðilja. Hefði það verið gert, býst ég við, að málsatriðin litu nokkuð öðruvísi út og niðurstaðan önnur.

Hv. 2. þm. Rang. er ekki hér í d., en ég get samt ekki stillt mig um að segja honum, að mér þykir undarlegt, að hann hefir ekki komið með minni hl. álít um járnbrautarmálið. Þetta var honum þó innan handar, þar sem hann er form. þeirrar n., sem hafði málið til meðferðar. Hefði mátt búast við því, svo mikinn áhuga sem hann telur sig hafa á þessu máli, að hann hefði ekki látið stj. draga sig allt þingið á eyrunum með loforðum um skjöl og skilríki, sem svo vitanlega aldrei koma.