16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

1. mál, fjárlög 1931

Jóhann Jósefsson:

Það hafa nú verið sögð hér mörg orð í garð Ed. og sum þung, en þó er útlit fyrir, að svo fari sem áður, að látið verði við það sitja að kreppa hnefana í buxnavösunum.

Mér fellur það illa, að styrkurinn til Fiskifélagsins skuli hafa verið lækkaður í Ed., og held, að rökstuðningur fjvn. í Ed. fyrir því hafi ekki verið á sanngirni byggður. Því er borið við, að Fiskifélagið fari inn á valdsvið Alþingis með ýmsum smástyrkveitingum við sjávarsíðuna. Ég sé nú ekki ástæðu til að refsa Fiskifélaginu fyrir það, þó að það bæti úr brýnni nauðsyn, þar sem Alþingi var búið að neita um alla aðstoð áður. Ég veit, að það er ekkert stórfé, sem félagið getur veitt á þennan hátt, en þó hefir oft orðið að því allgóður stuðningur. Og ef til vill er þessu fé allt eins vel varið þannig, eins og þó að það væri látið ganga til ráðunauta, sendiferða og skrifstofukostnaðar.

Ef hér er tekið til samanburðar Búnaðarfél. Íslands, sem hefir 250 þús. kr. styrk, þá ætti að svipta það styrk fyrir það, að það hefir lagt fé til fyrirhleðslna. (BA: Til þeirra er ekki veitt fé úr ríkissjóði). Hvernig var um Þverárfyrirhleðsluna?

Þarna er mikið misræmi milli Fiskifélagsins og Búnaðarfélagsins. Það styrkir til verklegra framkvæmda. Ég hygg, að hv. frsm. fjvn. þurfi ekki að neita því. En fjvn. hv. Ed. finnst ástæða til að lækka styrk Fiskifélagsins, vegna þess að það styrkir ýms bráðnauðsynleg fyrirtæki. Þeirri stofnun, sem styrkir mesta bjargræðisatvinnuveg þjóðarinnar, er refsað fyrir það. Þeir, sem þekkja að einhverju leyti starfsemi Fiskifélagsins og hafa fylgzt með gerðum fiskiþingsins á undanförnum árum, — og það er öllum þm. hægt, því að skýrsla félagsins hefir verið lögð hér fram á hverju þingi, — þeir vita, að það eru svo mörg nauðsynjamál, sem fulltrúar Fiskifélagsins koma hér saman til að ræða um og taka til álits, að félagið á erfitt með að sinna nema þeim alla brýnustu. Og verksvið þess er alltaf að færast út. Og ég tel það beinlínis óhæfu, að deildin, sem hefir minna leyfi til að breyta fjárl., höggvi svo stórt skarð í tekjur þeirrar stofnunar eins og Ed. leyfir sér nú að gera.

Ef litið er á gengi ýmissa sjávarútvegsmála á þingi hér og hinsvegar á þær till., sem gerðar hafa verið á fiskiþingi og síðan reistur á Alþingi, þá sýnast þær hníga í sömu átt og fiskiþingið leggur til. Þetta sýnir, hvers trausts till. þess hafa notið, enda sitja þar nokkurskonar sérfræðingar í þessum málum. Það eru því ósæmilega þröng skilyrði, sem nú á að fara að setja fyrir starfsemi þessarar stofnunar, og enn síður réttmæt, þegar þess er gætt, hve ríflega landbúnaður og Búnaðarfélagið hafa verið styrkt, án þess að nokkur sjávarútvegsmaður hafi reynt að heimta slík skilyrði fyrir þeim fjárveitingum.

Ég rak mig á það í nál. hv. fjvn. Ed., að hún segist helzt skipta sér af persónustyrkjum. Styrkur Fiskifélagsins er þó ekki persónustyrkur. Hinsvegar eru felldir niður nokkrir persónustyrkir eða lækkaðir. Ekki er samt leitað á kjöltubörn hæstv. stj. En n. hefir ráðizt á áttrætt gamalmenni, Þórodd Bjarnason póstmann, sem búinn er að slíta sér út í þjónustu bæjarins og hins opinbera, og lækkað eftirlaun hans um helming frá því, sem þessi hv. d. var búin að samþykkja, úr 1.200 kr. í 600 kr. Ég veit ekki, hvað þeir hv. þm., sem talað hafa hér í kvöld, ætla sér að gera, þegar kemur að atkvgr. um fjárl. En mér þykir óviðeigandi að taka við aðgerðum hv. Ed. án þess að sýna lit á því, að í raun og veru er það Nd., sem á að ráða meiru um afgreiðslu fjárlaganna.

Ég vil mótmæla því algerlega sem sjávarútvegsmaður, að klipið sé af fjárveitingu til aðalstuðningsstofnunar þeirrar atvinnugreinar. Og ég mótmæli enn þeirri ósanngirni, sem sýnist eiga sterkar rætur í heilum stjórnmálaflokki, að hvenær sem eitthvað er gert fyrir sjávarútveginn, þá megi aðeins gera það þannig, að atvinnuvegurinn sé skattlagður um leið með nýjum aukaskatti.