01.04.1930
Neðri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (3145)

32. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það hefir verið kvartað yfir því, að þetta mál hafi verið seint afgr. frá n. En ástæðan til þess, að svo varð, er sú, að ekki þótti rétt að afgreiða álit fyrr en umsögn vegamálastjóra lægi fyrir. En hann hafði mikið að gera og gat því ekki afgr. það eins fljótt og vænzt var. Umsögn hans kom fyrir eitthvað 10 dögum. Þegar svo umsögn vegamálastjóra var fengin, gat n. ekki orðið sammála. Hún klofnaði í 2 eða jafnvel 3 hluta, 1 meiri hl. og 2 minni hl. En minni hl. hafa engu áliti skilað. Skal ég minnast á það síðar, þegar þeir hv. þm., sem minni hlutana skipa, hafa talað, en vík nú fyrst að nál. og brtt. á þskj. 346.

Brtt. þær, sem fram eru komnar frá ýmsum hv. þdm., fara fram á að auka þjóðvegakerfið um vegalengd, sem samtals nemur 420 km. Nú er það svo, að æðimikið er enn ógert af þeim vegum, sem lengi hafa staðið í vegalögunum. Verður því naumast mikið gert á næstu árum af þeim vegum, sem hér er lagt til, að teknir verði í þjóðvegatölu, þó samþ. verði. Áður en tekið er til við þá, þarf að koma á góðu vegarsambandi milli aðalhéraða landsins. Vegna undanfarandi góðæris hefir meira verið unnið að vegagerð en ráð var fyrir gert. Þar af leiðandi telur n. fært að taka nokkra kafla í tölu þjóðvega, bæði vegi, sem tengja saman héruð, og innanhéraðsvegi. Till. n. um nýja vegakafla nema um 87 km. Langmestur hluti þessara vega er þegar akfær, en sumt aðeins góður reiðvegur, en allir þurfa þeir endurbóta við. Kostnaður verður talsvert mikill við framkvæmd þessara vegagerða, og mun því eflaust dragast um fleiri ár að leggja þessa vegi, þó brtt. n. nái samþ. þingsins. Vegamálastjóri hefir ekki beint lagt með og ekki heldur á móti, að tveir nýir vegir verði upp teknir: Kópaskersvegur og Hafnarvegur. Þá telur hann eftir atvikum rétt, að einum vegi verði breytt, að í stað vegarins austur yfir Landeyjarnar verði vegur lagður inn Fljótshlíð.

Kem ég þá að till n. Er þá fyrst Kópaskersbraut, frá Kópaskersvogi að vegamótum við Brunnárbrú. Vegarlengdin er 24,2 km. Mikill hluti þess vegar er nýlega endurbættur með tillagi úr ríkissjóði að hálfu leyti. Er nú sæmilega fær bifreiðum, en þarf þó vegna mikillar umferðar endurbóta, sem áætlað er, að kosti allt að 30 þús. kr. Árlegt viðhald má ætla, að nemi 2.500 kr. Þetta er aðalflutningabraut þriggja hreppa og á því líkan rétt á sér og Hvammstanga- og Skagafjarðarbraut. Vegamálastjóri hefir ekki lagt á móti þessari brtt.

Þá er Hafnarvegur í Hornafirði. Er hann 5½ km. á lengd. Endurbyggður á síðustu árum með helmings framlagi úr ríkissjóði. Er búizt við, að ekki kosti meira en 2–3 þús. kr. í mesta lagi að fullgera hann. Viðhald er áætlað 1.200–1.500 kr. á ári. Er líkt um þennan veg að segja og næsta á undan og afstaða vegamálastjóra til hans sú sama.

Þá er 3. vegurinn, sem vegamálastjóri leggur ekki á móti, en frekar með. Það er, að þjóðveginum austur yfir Rangárvallasýslu, sem nú liggur yfir Landeyjar, hjá Garðsauka og Hemlu, sé breytt og hann lagður inn Fljótshlíð. Þessi breyting á vegastæðinu kemur síðar, ef ekki verður samþ. nú, því þegar Þverá verður brúuð, þá verður vegurinn lagður inn Fljótshlíð. Auk þess fara nú orðið nærfellt allir ferðamenn þessa leið, auk þess allt skemmtiferðafólk. Ef þessi till. verður samþ., fellur neðri vegurinn í tölu sýsluvega. Kostnaður er lítill, mestur við það að brúa 3 smáár.

Hinar aðrar brtt., sem nefndin gerir, eru þessar: Eyjafjarðarbraut, frá verzlunarlóð Akureyrar að Kristneshæli. Þetta er í samræmi við það, sem gert hefir verið um aðrar sjúkrahúsbrautir, t. d. héðan að Vífilsstöðum, Kleppi og Laugarnesi. En n. vildi ekki ganga lengra en þetta. Ef meira væri tekið, þá bættust svo margir nýir vegir við, að vegafé ríkissjóðs færi að miklu leyti í viðhald. Er það ótækt, meðan eftir er að gera marga nýja vegi. Að Kristneshæli er mjög mikil umferð vegna hælisins og því sanngjarnt, að sá kafli sé tekinn í tölu þjóðvega.

Þá er Vestfjarðavegurinn, frá Hnífsdal um Breiðadalsheiði að Veðrará. Vestfirðir eru enn nærri vegalausir, en þarna er langmest umferð og brýnust þörf. Önundarfjörður er eitthvert blómlegasta landbúnaðarhérað, sem gæti tekið mjög miklum umbótum, ef bændur gætu komið afurðum sínum til Ísafjarðar. Nú er það ekki hægt nema á hesthryggjum. Leið þessi er öll fær bifreiðum, nema 6 km. langur kafli yfir heiðina. Til umbóta þessa vegar hefir mikið verið lagt fram af Ísafjarðarkaupstað og sýslunni. Hinsvegar eru engir vegir í þessum sýslum í tölu þjóðvega nú.

Þá kem ég að þskj. 44. N. sá sér ekki fært að taka inn í brtt. sínar Úthéraðsveg. En öll sanngirni mælir þó með því að taka veginn frá Eyvindarárbrú að Eiðum upp í tölu þjóðvega. Hann er hliðstæður flutningabrautunum.

Vegurinn frá Eiðum út að Unaósi er bæði mjög vondur og langur. Auk þess er á Unaósi engin höfn. Þar er lagt upp lítið af vörum, enda er þar ekkert kauptún og ekki að búast við, að það byggist upp á næstu árum, vegna þess að á Austurlandi eru margar hafnir miklu betri. Eins og ég gat um, er það till. nefndarinnar, að vegurinn frá Eyvindarárbrú að Eiðum verði tekinn í tölu þjóðvega. Byggingarkostnaður mun verða um 20 þús. kr., að því er vegamálastjóri segir. Hinsvegar álítur hann, að akvegur út að Unaósi mundi kosta um 200 þús. kr. Það væri illa varið stórri fjárhæð, ef lagður væri vegur á slíkum útkjálka, meðan fjöldi bráðnauðsynlegra vega verður að bíða.

Þá leggur n. til, að Skeiðabrautin frá vegamótum Suðurlandsvegarins, 12,3 km., verði tekin í tölu þjóðvega. Að vísu eru stórar flutningabrautir nú um þetta hérað, bæði Eyrarbakkabrautin og Biskupstungnabrautin, sem eru langir og dýrir vegir, auk þjóðvega, sem liggja gegnum þvera sýsluna. En hér stendur sérstaklega á. Nú hafa menn austur þar slegið sér saman og myndað samlagsmjólkurbú, og til þess að Skeiðamenn geti notfært sér það, þurfa þeir að hafa góðan veg á þessu svæði. Að öðru leyti er þessi vegur líka talsvert fjölfarinn. Að þessu athuguðu hefir nefndin lagt með því að taka þennan kafla í þjóðvegatölu. Hefir hann verið gerður að meiri hluta af ríkisfé. Part af honum þarf að endurbyggja, og mun kosta nokkurt fé, þar sem aðdráttur ofaníburðar er afarerfiður.

Loks er Landbraut, sem n. leggur til að taka í þjóðvegatölu. Þessi vegur liggur af þjóðveginum hjá Meiri-Tungu og Holti upp Land. Var farið fram á af þm. kjördæmisins, að vegur væri lagður alla leið að Galtalæk. En n. taldi ekki fulla ástæðu til að fara svo langt, heldur aðeins að Múla á Landi.

Í Rangárvallasýslu er engin flutningabraut, nema sú, sem liggur gegnum þvera sýsluna, og engin höfn er þar, eins og kunnugt er, svo að flutningar eru næsta erfiðir. Hafa Rangæingar lagt á sig mjög mikil gjöld til vega, að tiltölu kannske meiri en nokkur önnur sýsla á landinu. Um Landbrautina streymir fjöldi ferðamanna, því að þar fara allir, sem ætla Fjallabaksveg, og þeir, sem ætla upp að Heklu. Yfirleitt er það svo, að viðhaldið á vegum þarna er óskaplega dýrt, svo að sýslubúar stynja undir þeim byrðum, en vegina notar hinn mesti fjöldi utanhéraðsmanna.

Samtals eru þeir vegir, er nefndin vill koma í tölu þjóðvega, um 87 km., en þar af munu vera bílfærir nú þegar fullir 60 km. Sumstaðar þarf að endurbyggja kafla, en aðrir kaflar eru sæmilega góðir. Þá þarf að byggja talsvert af smærri brúm á þessum nýju vegum.

Um hinar aðrar till. um breytingar á vegalögunum, sem liggja fyrir, vil ég spara mér að ræða, vísa aðeins til álits vegamálastjóra, sem fylgir nál. meiri hl. samgmn. Nefndin hefir fallizt á það í öllum aðalatriðum.

Ég skal rétt geta þess um till. frá hv. þm. S.-Þ. um þjóðveginn austur frá Húsavík, að það er ekki rannsakað, hvort fara beri um Tunguheiði eða fyrir Tjörnes. En hinsvegar virðist vegamálastj. flestar líkur benda til, að farið verði að till. hv. þm. S.-Þ. Með því að leggja veginn kringum Tjörnes, kemur hann miklu fleiri mönnum að notum, auk þess sem þar er miklu snjóléttara, en náttúrlega kostar hann eitthvað talsvert meira. Ég get sagt það sem mína skoðun, að ég tel sjálfsagt að leggja veginn fyrir Tjörnes.

Um Siglufjarðarbrautina er það sama að segja, að ekki er enn fullrannsakað, hvar hún skal liggja. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að tengja Siglufjörð, sem er í talsvert miklum uppgangi, við það blómlega hérað Skagafjörðinn. En það má ekki hraða þessari vegarlagningu, fyrr en fullrannsakað er, hvar vegurinn skal liggja.