03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

32. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég skal nú reyna að fara fljótt yfir sögu. Um brtt. þær, sem fram hafa komið í dag, get ég ekki talað fyrir hönd samgmn., með því að hún hefir ekki haft tækitæri til að ræða þær sameiginlega ennþá.

Hv. þm. V.-Húnv. sagðist ekki geta fylgt því, að gera veginn mill Hnífsdals og Ísafjarðar að þjóðvegi. Þó flytur hann nú sjálfur brtt. um að taka upp vegi, sem eru hliðstæðir að öðru en því, að þeir eru miklu minna notaðir en þessi vegur. Hv. þm. hafði þá afstöðu í n., að hann vildi taka upp allmarga vegi, sem við meiri hl. vorum á móti, og jafnframt var hann andvígur sumum till. okkar. Það er vitanlega alltaf nokkurt álitamál, hvað velja ber og hverju hafna, ef ekki er allt tekið með. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, hefir samgmn. ekki viljað „opna“ vegalögin síðan 1924, sakir þess hve mikið hefir verið óunnið af því, sem ráðgert er í lögunum. Margt af því eru vegir, sem aðkallandi þörf er, að komið sé í viðunandi horf. Þó hefir meiri hl. samgmn. nú hallazt að þeirri skoðun, að rétt sé að bæta við nokkrum vegum, sem reynslan hefir sýnt sérlega brýna þörf á að taka upp.

Hv. þm. V.-Húnv. fannst ekki sanngjarnt að taka Skeiðabraut og Landbraut upp í þjóðvegatölu, þar sem hér væri um hliðarbraut að ræða. En það er nú svo, að ríkissjóður hefir í sumum héruðum tekið að sér að létta nokkuð undir með sýslusjóðum um hliðarbrautir, einkum þar sem litlar samgöngur eru á sjó og vegakostnaðurinn mikill. Menn hljóta að viðurkenna, að hér er svo ástatt, einkum um Rangárvallasýslu. Auk þess er það svo um þessa tvo vegi, að þá nota aðrir eins mikið og jafnvel öllu meira en héraðsbúar.

Þá er till. á þskj. 399, frá hv. þm. V.-Húnv. Um hana get ég ekkert sagt frá n. Enginn tími hefir verið til að athuga hana. En æskilegt væri, að bæði sú og aðrar brtt., sem fram eru komnar nú, yrðu teknar aftur til 3. umr., svo n. ynnist tími til að athuga þær og bera þær undir vegamálastjóra.

Það þóttu mér undarleg meðmæli, sem hv. þm. V.-Húnv. bar fram með Snæfellsnesbraut, að hún væri dýr pr. km. Réttmæti hverrar brautar fer eftir þörf, en ekki dýrleika. Þessi vegur yrði lítið notaður, en kostar 200 þús. kr.

Hv. 2. þm. Eyf. sagðist hafa betri trú á samgmn. nú en áður. Okkur er það ánægjuefni, ef við höfum getað glatt hv. þm. Hann sagði, að það mætti með nokkrum sanni segja, að Alþ. 1923 hefði lofað að taka að sér viðhald Eyjafjarðarbrautar. En síðari þing hafi ekki viljað fallast á það. Ég vona nú, að hv. þm. sætti sig við þann kafla vegarins, sem n. leggur til, að tekinn verði í tölu þjóðvega. Þetta er erfiðasti kaflinn um viðhald. Honum þótti það ósamræmi af n. að taka ekki alla brautina. En sú braut og Borgarfjarðarbraut eru lagðar fyrir fé ríkissjóðs eingöngu. Flestar aðrar brautir hafa verið lagðar með tillagi frá sýslunum að helmingi eða minna. Þau héruð, sem sloppið hafa við byggingartillag, hafa því þegar fengið stór hlunnindi.

Ég þarf engu að svara hv. 2. þm. Rang.

Hann virtist nokkurnveginn ánægður, enda hefir lýst yfir, að hann taki eina till. sína aftur.

Hv. 1. þm. N.-M. og hv. 1. þm. S.-M. hafa reynt að færa nokkur rök fyrir till. sinni um að taka nú þegar í tölu þjóðvega veginn frá Eyvindarárbrú að Óshöfn. Það má vitanlega deila um, hvort þetta er nauðsynlegt eða nauðsynlegt ekki. Það væri vitanlega gott að taka allt, sem fyrir liggur, og koma því þegar í framkvæmd. En afleiðing þess mundi bara verða of mikil dreifing á vegafénu og ósamstæðar og óhentugar framkvæmdir vegabóta. Réttast er að stefna að því að ljúka sem fyrst allra nauðsynlegustu vegunum. Þeir héldu því báðir fram, að Unaós væri ekki vond höfn. En það er vitanlegt, að svo er. Hún er máske sambærileg við Vík, en alls ekki við Blönduós og Hornafjörð. Unaós var áður á áætlun Austra, en ekki var að meðaltali hægt að afgreiða hann meira en í annarihverri viðkomu. Áður en lagður er vegur að slíkri höfn, ber að gera þar hafnarbót. Ef sýslubúar ætluðust til, að þarna væri útflutningshöfn, myndu þeir ráðast í hafnarbætur. Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að þessi vegur væri nauðsynlegur vegna flutnings á fóturbæti á vetrum. En ég held, að eftir Fagradal mætti alltaf komast á snjóbíl. Mun nú vera í ráði að útvega fleiri snjóbíla, og mundi þá Fagridalur fljótlega njóta góðs af því.

Hv. þm. Mýr. sagði, að sér virtist Borgarfjarðarbraut ekki hafa minni rétt á sér en Fljótshlíðarbraut, Skeiðabraut og Landbraut. Sú fyrsta er nú, eins og ég gat um áðan, sjálfsögð, þegar skaðræðisvötnin austur þar verða brúuð. Hinar eru akbrautir héraðanna. Og Skeiðabrautin er sérstaklega nauðsynleg vegna mjólkurflutninganna að hinu nýja mjólkurbúi Flóamanna, enda verið áður árlega styrkt af ríkisjóði. En um Borgarfjarðarbraut er það að segja, að þegar nýja brúin var sett á Hvítá, þá fluttist sú eiginlega umferð á þann veg, er að henni liggur. Hér er um það eitt að ræða, hvort flytja skuli allt viðhaldið á ríkissjóðinn. Nú greiðir ríkissjóður það hálft samkv. l. um sýsluvegi. Vegamálastjóri álítur, að viðhald þessarar brautar muni nema 2.500–3.000 kr. á ári. Að vísu getur umferð um Kaldadal aukizt eitthvað. Er sú leið að vísu miklu skemmtilegri fyrir ferðamenn, en helgar þó ekki, að brautin sé tekin í tölu þjóðvega.

Hv. 1. þm. S.-M. þótti slæmt, að ekki væri hægt að mæla með veginum kringum Tjörnes. En það er eingöngu af því, að vegamálastjóri vill sjálfur athuga vegarstæðið, áður en ákvörðun er tekin. Mitt álit er, að réttara sé, að vegurinn liggi þarna. Það er álit verkstjóra eins, sem þetta hefir athugað, að þessa leið beri að velja. En vegamálastjóri vill ekki segja álit sitt, fyrr en hann hefir athugað vondar brekkur, sem eru á þessari leið. Ein brekkan — Auðbjargarbrekka hygg ég hún heiti — er svo vond, að þeir, sem skoðað hafa, álíta vafa á því, hvernig hægt sé að leggja veg yfir hana.

Hv. þm. A.-Sk. var ánægður. Þarf ég því engu að svara honum.

Þá mælti hv. 2. þm. Skagf. með Siglufjarðarbraut. Um þá braut er hið sama að segja og um Tjörnesbraut, að vegarstæðið hefir ekki verið rannsakað til hlítar. En öll n. var sammála um þörfina á þessari braut. Viðskipti milli Siglufjarðar og Skagafjarðarsýslu eru nauðsynleg og til hags fyrir báða aðilja. N. gat þó ekki mælt með þessu að sinni, af framangreindum ástæðum.

Það er mála sannast hjá hv. þm. V.-Ísf., að Ísafjarðarsýslur hafa mjög orðið útundan með vegi. Við höfum haldið því fram, að við þyrftum að fá veg frá Ísafirði til Rafnseyrar. En mest liggur þó á að fá veg milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar, svo Önfirðingar komi afurðum sínum á markað á Ísafirði. En meiri hl. n. telur sig þó ekki geta gengið eins langt og hann leggur til að þessu sinni. Enda er svo, að þó þetta yrði samþ. nú, þá mundu þó framkvæmdir dragast.

Þá vill hv. 2. þm. G.-K. fá þjóðveginn framlengdan til Sandgerðis. Hvorki n. né vegamálastjóri geta fallizt á þetta, enda þótt það væri full nauðsyn, þar sem mikil umferð er á þessum vegi frá og til Sandgerðis. En tillit verður þarna að taka til þess, hve létt er fyrir sýsluna að viðhalda sínum vegum. Þessi sýsla hefir ágæta vegi, enda hefir hún og lagt mikið til þeirra. Hér er eingöngu um viðhald að ræða, og þá það, hvort ríkissjóður beri allt viðhaldið eða helming þess.

Þá var hv. þm. Dal. með till. um Laxárdalsveg, frá Búðardal um Laxárdal og Laxárdalsheiði að vegamótum þjóðvegar utan Borðeyrar. Meiri hluti þessarar leiðar er auðveldur til vegalagningar. Á heiðinni er sjálfgerður vegur um malarkamba. En Laxárdalur er erfiður. Þessi vegur er naumast nauðsynlegur fyrst um sinn. Hann yrði það þá fyrst, ef frystihús yrði byggt á Borðeyri. Annars er þarna lítil umferð.

Þá er hv. þm. Borgf. með brtt. á þskj. 409. Mikið af þeim vegi, sem hann gerir till. um, fellur inn í Norðurlandsveginn. Till. er því sanngjörn. En ég vil þó ekki mæla með henni fyrr en umsögn vegamálastjóra er fengin. Gildir hið sama um hana og hinar aðrar till., sem n. hefir ekki átt kost á að athuga, að heppilegast væri, að þær yrðu teknar aftur til 3. umr.

Það er að vísu gleðilegt, að svona mikill áhugi kemur fram fyrir bættum samgöngum á landi. Allir vita að þörfin er víða mikil. Er því hið eina, sem hægt er að gera, að gera upp á milli meiri og minni þarfar. Að vísu verður ekki unnið mikið næstk. ár að vegagerð á þeim stöðum, sem nú koma í tölu þjóðvega, þó samþ. verði. Yfirleitt má segja um þá vegi, sem nefndin leggur til að samþ. verði, að það er ekki um mjög miklar nýbyggingar að ræða, en munar talsverðu á viðhaldinu fyrir þau héruð, sem njóta eiga þessara nýju vega.