14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

78. mál, áfengislög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég get ekki látið þetta mál ganga svo til atkvgr., að ég ekki segi um það nokkur orð.

Ég hjó eftir þeim orðum hjá hv. þm. Skagf., að hann vildi láta fara sem mest eftir till. þeirra í þessu máli, sem halda vilja uppi bannlögunum. Ég verð að segja það, að hið háa Alþingi hefir ekki fylgt þeirri reglu nema að litlu leyti. Ég skal ekki ásaka hv. Nd., en frv. þetta kemur hingað stórskemmt frá hv. Ed. Ég hafði hugsað mér að gera nokkrar brtt. í þá átt, að bæta inn í frv. aftur því, sem fellt var úr því í hv. Ed., og fella úr því það, sem þar var laumað inn. En þar sem enn eru í frv. ákvæði, sem ég tel nauðsynlegt að komist inn í lögin hið fyrsta, og hinsvegar orðið svo áliðið þings, að lítil von er um að koma frv. í gegn breyttu, þá ætla ég nú að sleppa að gera brtt. við það að þessu sinni.

Ég skal nú geta um, hvaða skemmdir það eru, sem mér finnst hv. Ed. hafa gert á frv.

1. gr. frv. var upphaflega þess efnis, að bæta skyldi inn í 3. gr. laganna ákvæði um það, að útlendum skemmtiskipum, sem ferðast hér við land, sé bannað að veita Íslendingum áfengi um borð. Þetta ákvæði var tekið upp í frv. eftir ósk stórstúkunnar, vegna þess að reykvískir borgarar hafa ekki þolað að koma um borð í útlend skip án þess að drekka sig fulla og verða þjóð sinni til skammar. (HK: ósköp er þetta raunalegt!). Fannst mér því full ástæða til að láta það standa, til þess að fyrirbyggja, að slíkt geti komið fyrir. En það hefir hv. Ed. ekki gert. Í öðru lagi átti að taka af lögreglustjórum heimildina til að leyfa vínveitingar í opinberum veizlum. Eftir því, sem mér er sagt, mun lögreglustjórinn hér í Reykjavík hafa mælzt til, að það ákvæði væri tekið upp í frv: Mun oft erfitt að synda milli skers og báru í því efni, hvort leyfa á vínveitingar eða ekki. Annað skemmdarverk hv. Ed. á frv. var það, að fella niður þetta ákvæði. Þriðja skemmdaratriðið er það, að hv. Ed. bætti inn í frv. ákvæði til að koma í veg fyrir það, að refsað sé með fangelsisvist fyrir áfengisbruggun. (PO: Það á að sæta fangelsi áfram, ef bruggað er til sölu). Já, en það er nú oft þannig um hnútana búið, að ekki er gott að sanna, að áfengið hafi verið ætlað til sölu. Og hinsvegar hygg ég, að enginn leggi í bruggun til annars en að græða á því. (HK: Það eru dæmi til þess).

Mér skildist á hv. frsm., að hann telja aðeins eðlilegt að refsa fyrir bruggun, ef hún væri gerð í ávinningsskyni. En ég man nú ekki betur en að það beri að refsa mönnum, sem sjást fullir á almannafæri, þó þeir hafi engan hagnað af því. Það er velsæmishlið málsins, sem þá kemur til greina.

Þessar skemmdir á frv. væru undir vissum kringumstæðum nægar til þess, að við templarar greiddum atkv. á móti frv. þeirra vegna.

Aftur tel ég það ákvæði frv. til mikilla bóta, að hægt á að verða að láta lækna sæta refsingu fyrir, ef þeir misnota þá heimild, er þeir hafa til að nota áfengi til lækninga. Er það vegna þess ákvæðis, að ég mun drattast til að fylgja þessu frv.

Annars mætti margt segja í sambandi við þetta mál. (HK: Það er satt). Árangur slíkra laga sem þessara er vitanlega alveg kominn undir því, hvernig tekst að framfylgja þeim. Það verður að kannast við þá sorglegu raun, að áfengisnautn er að aukast hér aftur, og ég hefi raunar ekki mikla trú á, að þessi lög ráði bót á því. En það liggur ekki fyrir nú að tala um fullkomna lækningu á þessu böli, en að því mun koma. Meðan ekki er kostur á henni, verður að halda vínnautninni í skefjum, að svo miklu leyti sem hægt er. Til þess þarf að setja mjög ákveðin lög, og þó öllu framar að gera miklar kröfur til þeirra, sem laganna eiga að gæta. Og það má ekki hafa einlægar glufur og undanþáguheimildir í lögunum, sem óleyfileg sala og notkun þróast í skjóli við. (LH: Það þarf að hætta við Spánarvínin). Það er einmitt það. Við verðum að losna við Spánarvínin. Og það munu aldrei líða mörg ár, þangað til Alþingi fær að fjalla um það mál.

Ég hefi nú gert grein fyrir þeim ástæðum, sem ég vildi bera fram í þessu máli. Hefi ég um leið talað fyrir hönd minna flokksbræðra, og sennilega flestra templara, en þeir eiga sorglega fáir sæti hér.