06.02.1930
Neðri deild: 16. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

37. mál, björgunar- og eftirlitsskip við Vestmannaeyjar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég álít, að þetta sé góð úrlausn hjá hæstv. forseta, en ætla að víkja nokkrum orðum að þáltill. þeirri, sem fyrir liggur. Hin fjárhagslegu atriði, sem í henni felast, verða nánar skýrð fyrir n. og við síðari umr. þessa máls. Ég lít svo á, að aðalhugsunin í ræðu hv. flm. hafi ekki fengið sem heppilegastan búning. Hann virðist hugsa sér framkvæmd hennar á þann veg, að byggt verði eða keypt nýtt skip í staðinn fyrir Þór; en þar er um svo stórt mál að ræða, að ekki er leyfilegt fyrir stj. að ráðast í það, og enda mjög óhyggilegt, nema í samræmi við vilja þingsins og eftir fyrirmælum þess.

Það er rétt, að skipið var vátryggt fyrir 120 þús. kr. Ríkissjóður keypti Þór fyrir 80 þús. kr. 1926 af Vestmannaeyingum, og hefir miklu verið kostað til hans síðan í aðgerðum og auknum tilbúnaði, en engin breyt. var gerð á vátryggingarupphæðinni frá því, sem fyrrv. stj. hafði ákveðið.

Ég get því miður ekki verið eins bjartsýnn og hv. þm. Vestm. um, að unnt sé að fá viðunanlegt skip til þess, sem hér um ræðir, með þeim kjörum, er hann lýsti. (JJós: Vill hæstv. ráðh. gefa mér umboð til þess að útvega skipið?). Ég geri ráð fyrir, að Alþingi gefi það umboð, og þá að sjálfsögðu stjórninni. En kaupverð slíks skips er í raun og veru miklu minna atriði heldur en árlegur rekstrarkostnaður þess.

Í Ed. er til umr. frv., sem er líks efnis og þessi þáltill. Flm, þess, hv. þm. Snæf., leggur þar til, að byggt verði nýtt strandvarnarskip sérstaklega til gæzlu fyrir Vesturlandi. Og gæzlustarf þess skips mundi ekki mega staðbinda nema við Faxaflóa og Breiðafjörð, og ef til vill Vestfirði. En hinsvegar virðist ekki hægt að fullnægja þörfum Vestmannaeyinga, nema skip á stærð við Þór sé þar staðbundið við eyjarnar.

Ég vil gefa þessa skýringu til þess að þm. sé það ljóst, að ýmsir landshlutar vilja fá sérstakt gæzluskip fyrir sig. En þeir verða vel að athuga, að það þarf meira en að byggja skipin og leggja fram stofnverð þeirra, það þarf líka að greiða rekstrarkostnað þeirra á hverjum tíma, og sá baggi er ríkissjóði erfiður.

Vestmannaeyingar og þm. þeirra vilja halda því fram, að samningur sá, sem stj. gerði við bæjarstj. Vestmannaeyja 12. nóv. 1926, sé enn í gildi. En bæði ég og þeir lagamenn, sem ég hefi átt tal við um þetta, erum þeirrar skoðunar, að þessi samningur hafi eingöngu verið bundinn við Þór. Vestmannaeyingar selja Þór fyrir fullt verð og fastákveðið, en áskilja sér jafnframt, að Þór annist björgunarstarfsemi og netjagæzlu við Eyjarnar gegn vissri greiðslu. Þessi samningur náði aðeins til Þórs meðan hann væri nothæfur.

Kunnugir sjómenn í Vestmannaeyjum héldu því fram, að Þór væri ekki nógu sterkbyggður til þess að hafa gæzlu við Eyjarnar. Svo að það var aðeins tímaspursmál, hversu lengi hann hefði fullnægt þeim kröfum, sem Vestmannaeyingar gera til slíks skip. Mig furðar, að hv. þm. Vestm. skuli mæla með þessu máli á þann hátt, sem ekki getur orðið því til gagns, og að hann skuli leggja annan skilning í samninginn en unnt er að fá út úr honum, og halda því fram, að skilyrðum hans sé ekki fullnægt. Ef bæjarstj. í Vestmannaeyjum færi í mál við stj. út af því, að þeir fengu ekki stærra skip en Hermóð, þá hlyti bæjarstj. að tapa því. — Samningurinn hljóðaði aðeins um Þór. Og þess vegna er ekki hægt að segja annað en að samningurinn um Þór sé úr gildi fallinn, eftir orðalagi hans að dæma, eins og hv. þm. Vestm. ætti að vita. Enda er það alveg þýðingarlaust fyrir hann að byggja kröfur á samningnum. En hv. þm. Vestm. verður að athuga annað; Vestmannaeyingar ættu sem fyrst að gera nýjan samning við þing og stjórn. Þar gæti margt komið til greina; annarsvegar verður að líta á þörf Vestmannaeyja og hinsvegar á getu ríkissjóðs. Um gildi gamla samningsins þarf ekki að deila; hann er svo ljós, að hv. þm. ætti ekki að gera frekari tilraun til þess að byggja kröfur Vestmannaeyinga á honum. — Þess má og geta, að ýms vandkvæði hafa verið á framkvæmd samningsins af hálfu Vestmannaeyinga. Síðan 1926 hafa þeir aðeins einu sinni greitt hið árlega iðgjald fyrir starfrækslu Þórs við Eyjarnar. Fyrir síðastl. 2 ár hafa þeir ekkert greitt, og stj. hefir vissulega farið hóflega í þær sakir og sýnt mikla biðlund. Þegar Vestmannaeyingar báðu um greiðslufrest á framlagi sínu í vetur, þá gekk stj. inn á uppástungu þeirra um frestinn. Svo að hv. þm. verður að játa, að í þessum efnum hefir verið sýnd fyllsta sanngirni af hálfu stj.

Ég þykist vita, að hv. þm. játi, að þessi vangreiðsla af hálfu Vestmannaeyinga gat ein út af fyrir sig fellt samninginn úr gildi. En ég þykist vita, að það hafi stafað af getuleysi bæjarfélagsins, og tel, að stj. hafi tekið mildilega á því. Á móti drengskap frá hálfu ríkisvaldsins verður að ætlast til hins sama frá hálfu Vestmannaeyinga. Það hefir ekki gætt mikillar sanngirni né vinsemdar frá íhaldsmönnum við meðferð þessa máls, og á ég þar sérstaklega við framkomu þeirra í hlöðunum, róg þeirra um Hermóð o. fl.

Þegar um það er að ræða, hvort það eigi að byggja eða kaupa nýtt skip og gera það út til eftirlits við Vestmannaeyjar, þá getur verið um fleiri leiðir að velja. Það væri t. d. ekki óeðlilegt, að Vestmannaeyingar keyptu sjálfir björgunarskip með styrk frá ríkinu, og hefðu þá sjálfir allan veg og vanda af því. Þess má geta, að Vestmannaeyingar hafa ekki gefið ríkissjóði neitt í þessum viðskiptum; þeir hafa aðeins selt landinu skip gegn fullu verði. Úr ríkissjóði hafa árlega verið greiddar 48 þús. kr. í rekstrarstyrk vegna Þórs, og á sumrin hefir landið haft hann á leigu; eitt sumarið t. d. fyrir 174 þús. kr. (JJós: Það var fyrir 9 mán.). Útgerðarkostnaður skipsins var 200 þús. kr. á ári. Og ef Vestmannaeyingar hafa veigrað sér við að greiða sinn umsamda hluta af þeirri upphæð, sem ég fyrir mitt leyti trúi, að hafi stafað af getuleysi, þá er það mjög athugunarvert fyrir þjóðina, hvað hún getur í heild lagt árlega til þessarar gæzlu í einni verstöð landsins. Ég álít eðlilega að ríkið annist strandgæzluna að öllu leyti, og það er nú margra mál, að ef Alþingi samþykkir það frv., sem fyrir liggur um eftirlit með loftskeytum til togaranna, þá muni tvö íslenzk skip nægja til, gæzlunnar, auk danska varðskipsins í 9 mán. árlega. — En þá er eftir að ráðstafa gæzlu við Vestmannaeyjar, sérstaklega til björgunar og verndunar veiðarfærum; og við Breiðafj. og Faxaflóa yfir veturinn og fyrir Austfjörðum að nokkru leyti. Á öllum þessum svæðum þarf mikla gæzlu. Og ef ríkið tekur eitt þeirra að sér og kostar þar gæzluna að öllu leyti, þá koma hin á eftir með samskonar kröfur, og þeirra þörf er líka mikil; því verður ekki neitað. En þá er spurningin aðeins sú: Hvað er framkvæmanlegt fyrir ríkið í þessu efni?

Ég býst við, að ég játi þessi fáu orð nægja að sinni til þess að reifa málið og benda hv. flm. og öðrum þdm. á þá erfiðleika, sem fyrir liggja í því.

Ég vil skjóta því til hv. flm., að ég tel óviðeigandi og órökstudd þau ummæli í ræðu hans, sem mikið hefir verið stagazt á í hlöðum Íhaldsfl., að Hermóður væri óhæfur til gæzlu við Vestmannaeyjar. (JJós: Sem björgunarskip). Ég get sagt hv. þm., að margir samherjar hans hafa talið Hermóð ónýtt skip, og blöð þeirra flutt harðorðar greinar um hann. Og svo þegar vitamálastjóri, sem hafði keypt skipið, séð um viðgerð á því og gat bezt um það dæmt, skrifaði leiðréttingu á þessu ranghermi og sendi Morgunbl. til birtingar, þá neitaði blaðið að taka hana. Ég vil skjóta því til hv. þm., hvort þessi rógur um Hermóð hafi ekki verið gerður að kappsmáli, þegar ekki mátti birta gögn vitamálastjóra.

Vill hv. þm. mótmæla því, að skipstjórinn á Hermóði hafi gert skyldu sína? Skipshöfnin er yfirleitt sú sama og var á Þór, og Eiríkur Kristófersson þaulkunnugur við Vestmannaeyjar. (JJós: Hefi ég borið sakir á skipshöfnina?). Nei, ekki sérstaklega, en ummælin beindust að því og það hefir komið fram í blöðunum, að hún hafi ekki gert skyldu sína.

Ég vil biðja hv. þm. að taka það skýrt fram í næstu ræðu sinni, að hann hafi ekki beint örvum til skipshafnarinnar á Hermóði, og á hverju hann byggir það, að Hermóður geti ekki annazt eftirlitsstarfið við Eyjarnar. (ÓTh: Það er sitthvað skip og menn).

Ég álít rétt að taka það fram við þessa fyrstu umr., að það hefir áður fengizt reynsla fyrir því, hvað Vestmannaeyingar meta það, ef gæzluskipið þarf um stundarsakir að víkja sér frá til að elta togara. (MG: Ef það á að koma með þessa sögu enn, þá verður umr. ekki strax lokið). Hv. 1. þm. Skagf. má halda eins langa ræðu og hann vill fyrir mér, — en þegar það kostar ríkið 25 þús. kr. að fá skipið til þess að vera í þrjá daga fjarri Eyjunum, þá er það greinilegt að Vestmannaeyingar ganga hart eftir rétti sínum gagnvart ríkinu, og það er ekki nema eðlilegt, að sérhver stj. vilji hafa hreina og glögga samninga, þar sem athugaðar eru skyldur beggja aðila.

Að síðustu vil ég benda hv. þm. Vestm. á það, að till. hans er ekki á réttum grundvelli, þar sem hún í raun og veru fer fram á það, að keypt verði nýtt skip og rekið af ríkinu. Ég treysti mér því ekki til að taka hana til greina, nema hún verði samþ. við tvær umr. í báðum deildum. En ef hv. þm. ætlast aðeins til bráðabirgðalausnar á þessu máli, þannig að annaðhvort Óðinn eða Ægir verði staðbundinn við netjagæzlu við Vestmannaeyjar, verður að gæta þess, að ekki er hægt að binda þessi 2 gæzluskip okkar við ákveðinn stað, þar sem allir vita, hvar þau eru, og hegða sér þar eftir. — En eins og ég hefi áður tekið fram í símskeyti til bæjarstj. í Vestmannaeyjum, þá er það skip, sem þeir hafa nú til gæzlu, bæði sterkbyggt og vel skipað mönnum, svo að það er engin ástæða til að kvarta undan því.