10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3353)

363. mál, lækkun vaxta

Benedikt Sveinsson:

Ég þarf litlu að svara hv. þm., er síðast talaði. Mér þótti frekar kenna nokkurra gamanyrða í ræðu hans en röksemda. Hv. þm. viðurkenndi, að ég hefði fært fram réttmætar forsendur fyrir minni skoðun, en taldi ályktanir mínar vafasamar. En þar sem hv. þm. reyndi ekki neitt að rökstyðja þá skoðun sína, verður það að bíða betri tíma að tala nánar um það.

Hann féllst á, að bankarnir störfuðu eftir sama lögmáli og fisksalarnir. En mér finnst harla einkennilegt, ef bankarnir þurfa að hoppa eftir sama lögmáli og fisksalar, sem selja eins dýrt og þeir geta í hverf sinn. Ástæðan til þess, að fisksalar selja dýrara fisk á laugardögum en aðra daga, er þá líklega sú, að þeir eru innblásnir af einhverri himinhárri viðskiptasiðspeki.

Sú ástæða hefir verið færð gegn því, að bankinn lækki vexti, að hann starfi með svo dýru lánsfé. En sú ástæða getur ekki gilt um sparisjóðsféð. — Menn leggja peninga sina inn gegn 4–4½% vöxtum. Og bankinn tekur nærri jafnmikið fyrir að dreifa þessu fé milli manna. Ég hélt nú, að honum nægði að hafa minna en 70–80% fyrir milligöngu sína. Ég hélt, að t. d. 20% væri nóg. Þá gætu þó vextir lækkað nokkuð. Þá gætu bankarnir lánað með 5½% gegn góðri tryggingu. Sú bankastarfsemi yrði affarasælli en sú, að lána gegn háum vöxtum, lélegum tryggingum og þar af leiðandi áhættu. Ég læt svo útrætt um þetta mál. Allir nema bankamennirnir sjá, að þetta er svona.

Ég vil að endingu skjóta því til hæstv. forseta (JörB), hvort honum þykir ekki rétt að fresta atkvgr. til morguns, þar sem fáir þm. eru nú viðstaddir.