28.02.1930
Neðri deild: 39. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3375)

154. mál, milliþinganefnd

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þessi till. var flutt á síðasta þingi hér í þessari hv. þd. nálega óbreytt frá því, sem hún er nú, en varð þá ekki útrædd. Hún mun hafa fengið hlýlegar undirtektir hjá þeim, sem minntust á hana þá. En í því sambandi lýsti hæstv. atvmrh. því yfir, að hann myndi undirbúa og leggja fyrir þetta þing, samkv. þál. frá 1928, frv. um fullkomnar ellitryggingar, en það frv. er enn eigi fram komið. Samband kvenfélaga hér í Reykjavík hefir gengizt fyrir því að afla upplýsinga um kjör ekkna og munaðarlausra barna og hversu mikinn sveitarstyrk þær hljóta. Var gert ráð fyrir, að flutt yrði á þessu þingi frv. um tryggingar fyrir ekkjur og munaðarlaus börn, en mér er ekki kunnugt um, að það hafi fram komið. Vil ég nú spyrja hæstv. atvmrh., hvernig þessum málum er nú komið og hvað undirbúningi þeirra líður.

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þessa till. um alþýðutryggingar; þörf þeirra er svo alviðurkennd. Hver siðuð þjóð telur það eina af höfuðskyldum sínum að koma tryggingarmálunum sem bezt fyrir, og hjá öðrum þjóðum veita alþýðutryggingar öllum þorra almennings stórum meira öryggi um afkomu hans en þekkist hér á landi. Eini sæmilegi vísirinn til alþýðutrygginga hér eru slysatryggingarlögin. Að vísu má telja berklavarnalögin á sama sviði, þ. e. sem opinbera forsjá, og eru þau góð í sinni röð, ef þeim væri ekki beitt annan veg en til er ætlazt. Það eru nálega þau einu íslenzku lög, sem talizt geta sæmileg félagsmálalöggjöf í nútímaskilningi.

Það kann nú einhver að segja, að seilzt sé um hurð til loku að vera að setja hér lög um alþýðutryggingar; einfaldasta ráðið sé að framfylgja fyrirmælum stjórnarskrárinnar, sem kveður svo á, að hver, sem ekki getur séð fyrir sér sjálfur, skuli verða aðnjótandi framfærslustyrks samkv. fátækralögunum. En á fátækralögunum eru svo margir stórfelldir gallar, ómannúðleg og svívirðileg ákvæði, sem eigi hefir lánazt af fá felld úr þeim, að ekki tjáir að vísa til þeirra. — Það mun vera álit þeirra manna, sem kunnugir eru tryggingarmálum, að heppilegast sé að hafa hinar ýmsu tegundir alþýðutrygginga undir einni sameiginlegri stjórn. Hitt mundi verða miklu kostnaðarsamara, að stofna hér margar sértryggingar, t. d. örorku-, slysa-, elli-, sjúkra- og atvinnuleysistryggingar. Þessir tryggingarflokkar grípa svo hver inn í annan í ýmsum tilfellum, að það yrði langtum vafningaminna að skipa þeim undir eina stjórn.

Í till. er gert ráð fyrir, að n. athugi og, hvort ekki sé heppilegast að gefa alþýðutryggingarstofnuninni einkarétt til þess að taka að sér og annast líftryggingar hér á landi. Það er vitanlegt, að árlega fer geysimikið fé út úr landinu til erlendra líftryggingarfélaga, og mundi því réttast að ætla innlendri tryggingarstofnun að reka þá starfsemi, því að með því móti héldist þetta fé kyrrt í landinu.

Ég býst við, að menn séu yfirleitt sammála um, að ríkið eigi að taka að sér sjúkra-, slysa-, elli-, örorku- og framfærslutryggingar. En ég hefi orðið var við það hjá ýmsum hv. þm., að þeir eru meira í vafa um, hvort atvinnuleysistryggingar eigi þar að fylgjast með. Ég lít svo á, að allar þessar tryggingar séu stofnaðar til þess að tryggja starfsorku manna, eða réttara sagt: bætur fyrir missi hennar. Starfsorkan er eina verðmætið, sem almenningur. á; glatist hún um skemmri eða lengri tíma, t. d. vegna slysa, sjúkleika eða elli, er ekki annað fyrir hjá þorra verkalýðs en að lifa á lánum, góðgerðasemi eða fátækrastyrk. Og fái maðurinn ekki vinnu, geti hann ekki selt starfsorku sína, er hún einnig verðlaus, og er því sama þörf tryggingar gegn atvinnuleysi og gegn sjúkdómunum.

Ég játa hinsvegar, að það væri miklu betra, að hið opinbera sæi fyrir nægilegum verklegum fyrirtækjum til atvinnubóta, eða hagfelldri þjóðnýtingu einstakra atvinnugreina, fyrirbyggði atvinnuleysi, svo að eigi þyrfti að grípa til atvinnuleysistrygginga eða að greiða mönnum atvinnuleysisstyrk. Það kemur betur við alla aðila að veita heldur atvinnu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um till. að sinni, en geri ráð fyrir, að henni verði vísað til hv. allshn.