28.02.1930
Neðri deild: 39. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

154. mál, milliþinganefnd

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég er sammála hv. flm. um það, að betra hefði verið, ef hægt hefði verið að hraða svo undirbúningsvinnu allri, að leggja hefði mátt málið fyrir þetta þing, enda er ég honum ekki síður sammála um það, að hér er um ákaflega mikið nauðsynjamál að ræða.

En við erum svo fátækir af sérfræðingum, og þangað til í haust var ekki völ á manni, sem gæti óskiptur gefið sig við því að undirbúa málið. Hinn maðurinn, sem ég nefndi og leitað hafði verið til, var í annara þjónustu, og t. d. Eimskipafélag Íslands og Landsbankinn þurftu á honum að halda, svo að hann gat ekki sinnt þessu nema að litlu leyti. En sem sagt, nú er fenginn annar maður, svo að nú ætti að fara að koma skriður á málið.

Hv. flm. spurði um, hvort sá undirbúningur, sem unninn hafi verið, mundi ekki geta komið að notum við aðrar tryggingar, og svaraði sér sjálfur, að svo mundi vera. Ég er þessu ekki fremur kunnugur en hann, en mér finnst sennilegt, að sú n., sem málið fær til athugunar, geti aflað sér fullnægjandi upplýsinga.