16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3449)

538. mál, endurheimtun íslenskra handrita frá Danmörku

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það var rétt, sem hv. 1. flm. þessarar till. sagði í upphafi ræðu sinnar, að þessi till. er flutt í samráði við mig. Hefir hann nú í skörulegri og myndarlegri ræðu gert grein fyrir till. og rakið þau sögulegu rök, sem fyrir þessari kröfu eru. Hefi ég þar engu við að bæta, né heldur vil ég neitt niður fella af því, sem hv. flm. sagði, heldur gera öll orð hans að mínum orðum. Geri ég ráð fyrir, að á bak við þessa till. standi eindregnar óskir, ekki einungis okkar, sem hér eigum sæti á Alþingi sem fulltrúar þjóðarinnar, heldur og þjóðarinnar sjálfrar.

Mér hafa ýms erindi falin verið um æfina, en fátt eða ekkert, sem mér er kærara fram að bera en þetta. Er fátt á meira rétti og sanngirni byggt en þessi krafa, þó að ekki sé við því að dyljast, að óvíst er um árangurinn eins og sakir standa.

Ég tel víst, að allir Íslendingar finni, hvað það er réttmætt, að við fáum fornrit vor hingað heim aftur. Þeir, sem komið hafa til Kaupmannahafnar og á þá staði, þar sem þessir dýrgripir eru geymdir, skilja það og finna, að það hvílir sorg yfir landinu, á meðan þeir eru ekki geymdir hér.

Fleiri orðum skal ég svo ekki fara um þetta, en vil beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann láti fara fram nafnakall um till., svo að það megi sjást, að Alþingi stendur einróma á bak við þessa tillögu.