08.04.1930
Sameinað þing: 3. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (3475)

85. mál, útibú Landsbanka Íslands í Vestmannaeyjum

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Með því að tiltölulega mjög stutt er síðan svipuð tilmæli voru flutt hér á Alþingi, till. til þál., sem hneig í sömu átt, þá er óþarft fyrir mig að færa eins glögg rök fyrir þessu máli nú, þar sem það var gert rækilega þá af flm. þeirrar till., hv. 2. þm. Reykv. Einnig notaði ég það tækifæri til þess að telja fram þær ástæður, sem að þessari ósk liggja, er felst í till.

Það er nú alls ekki neitt nýtt, þótt Vestmannaeyingar leitist við að fá Landsbankann til þess að stofna útibú austur þar. Jafnvel áður en útibú Íslandsbanka var sett á stofn þar, voru komnar eindregnar óskir um það frá einstökum mönnum til ríkisstj. og Landsbankastj., að einmitt sá banki setti upp bækistöð í þessu byggðarlagi. Þetta varð þó ekki, sem kunnugt er, því að Landsbankinn beindi athygli sinni að öðrum stað um það leyti, nefnilega Selfossi; en aftur á móti setti Íslandsbanki á stofn útibú í Vestmannaeyjum.

En þessar óskir Vestmannaeyinga, fleiri eða færri, hafa ávallt verið vakandi og komu m. a. fram á þingi 1927. Og í vetur var áskorun borin fram á þingmálafundi í Eyjunum að tilstuðlan jafnaðarmanna og samþ. mjög einróma, — áskorun til þm. kjördæmisins um það, að beita sér fyrir því að fá samþykki Alþingis til þess, að Landsbankinn setti upp útibú á þessum stað. Og ég held mér sé óhætt að segja, að þetta sé nokkuð almennur vilji í kjördæminu.

Eins og kunnugt er, eru í stærri kaupstöðum útibú frá báðum bönkunum, svo sem á Ísafirði og Akureyri. Á Austurlandi er útibú sitt frá hvorum banka, þótt ekki séu á sama stað.

Þegar þáltill. var borin fram 1927, var sýnt fram á, hve mikill útflutningur er frá Vestmannaeyjum, t. d. að 1924 hafi hann numið 6 millj. kr. Síðan hefir ekki orðið afturför í atvinnulífi í Eyjunum, heldur þvert á móti. Síðan hefir skipaflotinn aukizt bæði að tölunni til, en þó miklu meir að skipastærð og gæðum. Nú er þess því enn meiri þörf, að atvinnurekendur þurfi ekki að vera algerlega bundnir við eina bankastofnun. Þeir atburðir hafa gerzt í vetur, sem sýna ljóslega annmarkana á því, ef svona stór framleiðslustaður hefir ekki í nema eina peningastofnun að venda. Ég er engan veginn að spá, að neitt slíkt komi fyrir aftur á nálægum tíma, en ég bendi aðeins á þá staðreynd, að þarna í Vestmannaeyjum voru á tímabili hreinustu vandræði um miðjan framleiðslutímann; þrátt fyrir það þótt atvinnurekendur hefðu nægar tryggingar í boði, var allt að reka í rogastanz vegna lokunar bankans. Þessi vandræði hefðu vitaskuld aldrei orðið neitt þvílík, ef Landsbankinn hefði haft þarna útibú. Enda reyndist það svo, að til þess að bjarga ástandinu varð að grípa til þess ráðs, að Landsbankinn setti þar upp útibú. Er ég þó ekki að segja, að af því leiði, að útibúið þurfi að halda áfram; þetta var auðvitað nauðsynleg bráðabirgðaráðstöfun. En á hinn bóginn vil ég benda á það, að af þessu hefir leitt, að ýmsir, sem hafa haft viðskipti sín við Íslandsbanka aðallega, hafa nú um tíma orðið viðskiptamenn Landsbankans. Og þannig má búast við, að sá hópur stækki austur þar, sem skiptir við Landsbankann svo að segja eingöngu.

Þau rök, sem færð voru fyrir nauðsyn þessa máls á þingi 1927, bæði af flm. till. og mér, þau standa því öll, og miklu sterkari en þau voru þá, vegna þess að síðan hefir orðið svo að segja óslitin framför í atvinnulífi Eyjanna.

Samkv. landsbankalögunum frá 1928 var lagt allmikið vald í hendur bankaráðs og framkvæmdarstjórnar bankans um það, hvar sett skuli á stofn útibú. En þó er þess að minnast, að slíkt á að gerast með samþykki fjmrh. Og réttasta leiðin til þess að stuðla að því, að þau yfirvöld, sem hlut eiga að máli, fallist á að stofna slíkt útibú, virðist mér vera sú, að leita álits Alþingis. Því að ég geri ráð fyrir, að hvaða ráðh. sem er mundi mest meta það, sem Alþingi leggur til málsins, og haga sínum till. gagnvart bankanum eftir því.

Ég ætla það sé ekki þörf að tefja hið háa Alþingi með lengri ræðu, þar sem hv. þm. er kunnugt málið frá fyrri þingum. En ég vona, að Alþingi sýni þá sanngirni að samþ. fyrir sitt leyti þá ráðstöfun, sem farið er fram á í þessari till.