15.04.1930
Neðri deild: 83. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3508)

387. mál, lyfjaverslun

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hygg, að hv. þm. Ísaf. hafi ekki fylgzt alveg með því, sem gert hefir verið í þessu máli síðan í fyrra. Hann minnir þó á, að málinu var þá vísað til stj. með dagskrá, þar sem Alþingi æskir, að athugaður sé lyfjataxtinn. Nú vill svo til, að landsstj. hefir gert talsvert í því máli. Settur hefir verið nýr taxti, sem gekk í gildi um nýár í vetur, eftir rannsókn um það, hve mikið væri hægt að lækka verð lyfjanna. Við rannsóknina var gerður nokkuð ítarlegur samanburður á þessum málum hér og í næstu löndum. Reyndist helzt tiltækilegt að lækka taxtann á vinnu við meðalagerð og umbúðum. Niðurstaðan varð sú, að lækkunin mundi í Reykjavík einni nema a. m. k. 30–40 þús. kr. í meðalári. Og ef lækkunin er svo mikil fyrir þennan fjórðung þjóðarinnar, sem hér býr, má sjá, að það verður lagleg upphæð fyrir landið allt. Ég skal ekki segja, hvort hægt er að halda lengra á þessari braut. Ég veit að vísu, að lagt var til við undirbúning málsins að lækka hagnað lyfsalanna meira. En að ráði landlæknis og til samkomulags við lyflæknafélagið var horfið frá því.

Jafnframt hefir sú deild áfengisverzlunar ríkisins, sem kölluð hefir verið pöntunardeild spítalalækna, aflað sér betri sambanda og verið aukin, svo að þeir læknar standa betur að vígi.

Þetta hefir verið gert, og satt að segja er ég hræddur um, að þótt þessi till.samþ., þá geti stj. ekki gert mikið meira næstu árin.

Það, sem vakir fyrir flm., hv. þm. Ísaf., er tvennt. Það fyrra er að gerbreyta fyrirkomulagi lyfjaverzlunarinnar sjálfrar. Ég hygg, að hv. þm. styðjist þar við álit Vilm. læknis Jónssonar á Ísafirði, en hann mun hafa kynnt sér það fyrirkomulag og vera því fastlega fylgjandi. En það yrði svo stór breyting, að áreiðanlega er ekki hægt að framkvæma hana í skyndi; til þess þyrfti að vinna þjóðina til fylgis við hið nýja form. Jafnvel það, sem gott er, taka menn ekki undirbúningslaust. Ég skal ekkert um það dæma, hvort hugmynd læknisins á Ísafirði verður talin rétt í framíðinni eða ekki.

Í öðru lagi vill hv. þm. breyta lyfjunum sjálfum, um leið og ríkið taki kaupin að sér. Ríkisverzlun á lyfjum er ekki eingöngu tillaga flokksins, sem hv. þm. fylgir, heldur hygg ég, að sjálfur landlæknirinn hafi hallazt að þessu hérna á árunum. Og að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir, að færa megi ýmsar ástæður fyrir því, að hér á landi, þar sem svo lítið er keypt af hverju lyfi, hljóti að vera betra að kaupa það allt í einu lagi. En á ríkisrekstri eru hinsvegar margir örðugleikar. Þá yrði ríkið að kaupa miklar eignir, margar lyfjabúðir, víðsvegar um land, og innihald þeirra, og mér finnst, eins og hug manna er háttað; að það mundi skjóta skelk í bringu margra einstakra hv. þm. Jafnvel þó að menn létu sér nægja heildsölu á lyfjum, þá er varla réttmætt að búast við, að Alþingi hallist að þessu ráði. Ég skal hvorki játa né neita hinum reikningslega hag. Hvað sem honum líður, er ekki búið að sannfæra þjóðina nægilega til þess, að ríkisrekstri verði hrundið í framkvæmd.

Ég legg ekki á móti því, að till. verði samþ., en ég segi það, sem ég hugsa, að nú þegar sé búið að gera það, sem frekast er hægt í þessu máli.