13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Auðunn Jónsson:

Það er undarlegt, þegar rætt er um enska lánið, að ekki skuli vera gerður samanburður á lánskjörum annara ríkja á sama tíma. Það er þó vitanlegt, að mörg hin smærri ríki tóku lán um þetta leyti, til þess að halda uppi gengi sínu, og verður lántakan 1921 að skoðast í því ljósi. Ennfremur er það vitanlegt, að þessi ríki mörg urðu að sæta sömu kjörum eða svipuðum og við um enska lánið. Norðmenn tóku t. d. lán um svipað leyti og við með 7½% vöxtum og 8% afföllum.

Ég er hryggur yfir framkomu hæstv. stj., ekki sízt eftir það, að hún í þessum umr. í dag hefir verið að reyna að halda á hinum erlenda málstað og draga hann fram, með því að reyna að sanna, að tolltekjur landsins hafi verið veðsettar fyrir enska láninu. Hvers má vænta af hæstv. stj. á erlendum vettvangi, þegar hún í sjálfu löggjafarþingi þjóðarinnar gerist til að halda fram hinum erlenda málstað gegn hinum íslenzka? Eftir þessi ráð — að ég ekki segi landráð —, sem hæstv. stj. hefir nú gripið til, er ég vondaufur um það, að hún fái nokkru fram komið um lántöku erlendis. Ég mun því taka brtt. mína aftur, og sé mér ekki heldur hægt að greiða atkv. með frv.