03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (384)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Ólafur Thors:

Mér þykir undarlega við bregða í stærsta málinu, sem komið hefir fram á mörgum þingum, ef þm. eru skyldugir að þegja, þó að þeir hafi vakað eina nótt. Mér þykir það líka undarlegt, að einmitt hæstv. fjmrh., sem ég hefi aldrei séð bregða skapi fyrr en núna, ræðst á mig með hálfgerðum illindum, af því að ég dirfðist að halda hér ræðu, sem þó var ekkert hnjóðsyrði í. Ég gerði fulla grein fyrir því, hvað fyrir mér vekti, og tók það fram, að ég mundi jöfnum höndum nota rök annara manna, sem fram voru borin á lokuðum fundi í nótt, og mín eigin rök. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. sjái, þegar honum rennur reiðin, að ég hafi rétt að mæla. Hæstv. fjmrh. sagði, að ég hefði farið rangt með eitthvað. Ég skora á hæstv. ráðh. að segja, við hvað hann á. (Fjmrh.: Ég skal gera það seinna). Því ekki núna? Ég vil ekki heita „landsfrægur lygari“ lengur en þörf er á. Hv. þm. verða að geta staðið við fullyrðingar sínar, og ég skora sem sagt á hæstv. fjmrh. að lýsa því yfir sem fyrst, hvað það er, sem hann telur, að ég hafi farið rangt með.