17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ástæðurnar til þess, að þetta frv. er flutt, eru teknar fram í aths. við það. Breytingarnar, sem farið er fram á, að gerðar verði á núgildandi heimild fyrir ríkisstj., eru tvær. Fyrst sú, að beint sé tekið fram í l., að lánið megi taka í erlendri mynt, sem jafngildi 12 millj. ísl. kr. Þetta er ekki tekið fram í núgildandi l., en erlendir bankamenn hafa talið það nauðsynlegt, að þetta væri sérstaklega tekið fram. Liggja til þess þær ástæður, meðal annars, að ekki er enn búið að lögfesta gildi ísl. kr. Er því tryggara fyrir lánveitandann, að tekið sé fram, að lánið megi taka í erlendri mynt.

Hin breytingin er sú, að fella niður þau ákvæði gildandi l. um lántöku fyrir ríkissjóð, sem um það eru, til hvers láninu skuli verja. Það hefir komið í ljós við lánaumleitanir erlendis, að erlendir lánveitendur telja hað óhagstætt, að tekið sé fram í lánsheimildinni, til hvers láninu skuli verja. Þeir telja sig með því bundna til að hafa eftirlit með því, að láninu sé ekki varið á annan hátt; slíkt eftirlit teljast þeir enga afstöðu hafa til að framkvæma, enda sé það þeim með öllu óviðkomandi.

Ég vil taka það fram, að stj. hefir tekið bráðabirgðalán í London, að upphæð 250 þús. £. Það lán er að sjálfsögðu innifalið í þeirri upphæð, sem stj. samkv. 1. gr. þessa frv. er heimilað að taka að láni.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til fjhn., að þessari umr. lokinni, og mun ég fá n. í hendur þann lánssamning, sem ég gat um áðan.