13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Ég skal ekki fara að blanda mér í deilu hv. þm. Vestm. og hv. þm. V.-Ísf. En ég heyrði að hv. þm. V.-Ísf. talaði af miklum eldmóði um málið. Ég vildi nú gjarnan spyrja hv. þm. og aðra Jónasarmenn um það, hvort þeir myndu hafa flutt tillöguna með jöfnum krafti og jöfnum eldmóði, ef þessi ágæta bók, sem þeir segja, hefði ekki verið árás á Sjálfstæðisflokkinn.

Annars vildi ég nota þetta tækifæri til þess að vita það, að hv. þm. V.-Ísf. notar ekki rétt nafn á þessum stjórnmálaflokki. Ég tel, að það sé óviðeigandi, og sérstaklega verð ég að ætlast til þess af forseta sameinaðs þings, að hann beri fulla kurteisi í þessu efni; annað er ekki samboðið honum: (ÁÁ: Íhald er sérstök hugstefna). Ég hefi heyrt hv. þm. vera hvað eftir annað að uppnefna þennan þingflokk; ég læt mig það engu skipta, þótt einhverjir Jónasarmenn, eins og t. d. hv. þm. Ísaf., geri það, en ég vil ekki að forseti sameinaðs þings leyfi sér slíkt.

Læt ég svo hv. þm. Vestm. og hv. þm. V.-Ísf. eigast við.

Ég fór einu sinni að lesa þessa bók og komst þangað, sem verið var að halda því fram, að eiginkonur okkar væru skækjur; þá hætti ég að lesa. En þetta er sjálfsagt eitt af því, sem hv. þm. Vestm. vill ekki láta styrkja. Ég hefi lesið þann kafla bókarinnar, þar sem því er haldið fram, að hin borgaralega eiginkona sé sú heilsteyptasta skækja, sem til sé. Við hv. þm. Vestm. erum báðir kvæntir og finnst þetta af þeim sökum nokkuð athugavert, en borgarinn hv. þm. Ísaf. á enga konu, og er honum því líklega sama, hvað eiginkonur eru kallaðar, — en ég ætla ekki frekar að blanda mér inn í þessa deilu, og læt því staðar numið um þetta efni.

Ég hefi leyft mér að flytja hér till. um það að veita 800 kr. til styrktarsjóðs Margrétar Bjarnadóttur frá Bergvík til hjálpar fátækum ekkjum og börnum sjómanna í Gerða- og Keflavíkurhreppum. Ég flutti till. um þetta á Alþingi í fyrra, og var sú fjárveiting, 800 kr., samþ. Alþingi viðurkenndi þá ágæti þessa sjóðs og starfsemi hans. Sjóðurinn er nú orðinn eitthvað 15–16 þús. kr. og hefir að honum orðið mikið gagn; viðurkenndi þingið gagnsemi hans í fyrra, með því að leggja honum þá 800 kr. Nú þykir mér það ganga hneyksli næst, þegar þessi fjárbruðlunarstjórn, sem nú situr, sér ekki annað ráð betra en að skera niður einar 800 kr., sem veittar eru til hjálpar fátækum ekkjum og börnum þeirra. Þetta er því verra, sem það er skylda þjóðfélagsins að létta undir með þeim, sem verst eru staddir, en eru þó að berjast við að komast af án hjálpar hins opinbera. — Þetta eru einar 800 kr., og ég vona, að hv. þdm. sýni þá sanngirni að taka þá fjárveitingu aftur upp á fjárl.

Þá hefi ég flutt brtt. XXXVII. á sama þskj., það er vegna Carls Axels Möllers fyrrv. símstöðvarstjóra, að honum verði veittar 600 kr. á ári. Þessi maður er kominn á áttræðisaldur, heilsulaus og eignalaus. Kona hans er líka komin hátt á áttræðisaldur, sömuleiðis heilsulaus og eignalaus. Raunir þessa manns eru ekki aðeins af þeim rótum runnar, að hann hafi misst stöðu sína fyrir elli sakir, heldur hefir hann líka misst fjárstyrk, sem honum hefir borizt úr annari átt. Hann hafði verið starfsmaður verzlunarfélags hér á landi og notið frá því nokkurs styrks, en það féll í rústir og við það missti þessi gamli maður þann styrk, sem hann hafði fengið þaðan. Nú vil ég aðeins benda á það, að úr því að þetta einkafyrirtæki taldi það skyldu sína að greiða þessum manni eftirlaun, á meðan það hafði nokkra gjaldgetu, þá er ekki nema rétt, að ríkið geri það sama. Ég hefi hér meðmæli landssímastjóra, og skal ég aðeins, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð upp úr bréfi hans:

....... „Mér er því bæði skylt og ljúft að mæla hið bezta með umsókn hans um ellistyrk og vænti þess fastlega, að hið háa Alþingi sjái sér fært að verða við þessari beiðni hans“.

Ég skal aðeins taka undir með landssímastjóra og beina þeirri ósk til hv. dm., að þeir telji sér bæði skylt og ljúft að taka vel undir fjárbeiðni þessa gamla manns.

Þá hefi ég leyft mér að flytja hér með nokkrum öðrum ágætismönnum, nefnilega þeim hv. þm. Ísaf., hv. þm. V.-Ísf. og hv. þm. Dal., tillögu um það, að Guðmundi Kamban rithöfundi verði veittar 2000 kr. í 18. gr. fjárl. Ég tel óþarft að flytja ræðu um verðleika Guðmundar Kambans, því að hann er fyrir löngu orðinn þjóðkunnur af sínum ágætu bókum, sem hafa verið þýddar á mörg mál og orðið okkur til sóma. Þessi maður er bæði gáfaður og duglegur, en ef menn spyrja, hvernig standi á því, að maður, sem er bæði gáfaður og duglegur, skuli þurfa að sækja um styrk til Alþingis, þá er það löngum sama sagan, sem endurtekur sig, að skáld og rithöfundar geta sjaldnast unnið fyrir sér fyrr en á elliárum. Maður heyrir oft um þá menn, sem hljóta Nobelsverðlaunin, að það er sagt, að þau hafi komið vel niður, því að maðurinn hafi ekki haft til hnífs og skeiðar. — Guðmundur Kamban er vel verður styrksins; hann fæst við það verkefni, sem ég veit, að öllum Íslendingum verður til ánægju. Hann brá nýju ljósi upp fyrir mönnum hér, þegar hann hélt fyrirlestur fyrir almenning um Daða og Ragnheiði Brynjólfsdóttur. Guðmundur Kamban hefir með sínum óvenjulegu hæfileikum og mikla dugnaði sökkt sér niður í þann kafla íslenzkrar sögu, sem mér hafa sagt sögufróðir menn, að væri myrkasti hluti hennar, svo að það er ákaflega skemmtilegt að fá hann skýrðan með vísindalegri nákvæmni og um leið frá listamanns og skálds hendi.

Þá er loks brtt. viðvíkjandi bryggjugerð og lendingarbótum í Keflavík. Ég álít ekki nauðsyn að rökstyðja það, hve mikil þörf er fyrir bryggju þar. Það er nóg að vísa til þess, er fjvn. leggur til, að ríkið greiði 1/3 hluta þess kostnaðar, sem af því mannvirki leiðir, en það eru 250 þús. kr., og fyrst nefndin leggur það til, þá eru það ríkari sannanir en þó að ég héldi hér ræðu um það. En það, sem ég ætla að fara fram á, er það, að ríkið aðstoði Keflvíkinga meira til þessa verks en hv. fjvn. leggur til. N. leggur nefnilega aðeins til, að ríkið greiði 1/3 hluta af kostnaðinum, en hafi að öðru leyti ekki afskipti af verkinu. Ég hefi aftur á móti leyft mér að leggja til, að ríkið skipti sér það meira af þessu, að ríkissjóður ábyrgist 1/3 hluta af byggingarkostnaðinum gegn endurábyrgð sýslunefndar Gullbringusýslu. Það hefir að vísu verið regla, að ríkið taki ekki meiri þátt í kostnaðinum en það greiði 1/3. Sú regla hefir verið rökstudd með því, að þegar um lendingarbætur er að ræða, þá sé fjárfúlga sú, sem til þess þarf, svo lítil, að viðkomandi hreppur með aðstoð sýslunefndar sé einfær með þær framkvæmdir. Þetta er rétt í flestum tilfellum, en hér er um svo stóra fjárupphæð að ræða, að ástæða er til að gera undantekningu frá þeirri reglu. Þessi upphæð, sem Keflvíkingar eiga að útvega, er 167 þús. kr. Þetta er svo mikið fé, að ástæða er til að ætla, að þeir geti ekki útvegað það, nema þeir fái aðstoð til þess frá ríkinu. Ég vil vekja athygli hv. þdm. á ummælum sumra hv. þm. hér í deildinni í fyrradag út af hafnarbótum á Sauðárkróki. Þá féllu þau orð af munni margra hv. þm., að það væri rétt að ganga í ábyrgð fyrir Sauðárkrók. Nú geng ég þó ekki lengra en það, að ég ætla Keflvíkingum einum að bera 1/3.

Ég vænti þess sérstaklega, að hv. sjútvn. aðstoði mig í þessu máli. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða fyrir Keflavík, en fjárupphæðin er svo mikil, að Keflvíkingar geta ekki risið undir henni hjálparlaust.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira, en vænti þess, að hv. þdm. sýni þessu máli alla sanngirni. Hv. þm. geta kynnt sér málið betur með því að lesa nál. meiri hl. fjvn.