19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (480)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Halldór Steinsson:

Ég get verið stuttorður. Ég er einn af þeim, sem ekki eru beinlínis kunnugir þarna. Í öllum slíkum málum, þar sem brestur á æskilegan kunnugleika til staðhátta, verður að fara eftir gögnum, sem fyrir liggja. Og ég verð að segja, að hér liggja ekki næg gögn fyrir. Það eru þrír aðiljar, sem hefðu átt að koma til greina. Sóknarpresturinn hefði átt að gefa sína umsögn um þetta, og ennfremur hreppsnefndin í Reyðarfjarðarhreppi. Í þriðja lagi er biskup landsins. Umsögn biskups liggur fyrir, og hann er algerlega þessari sölu mótfallinn. Um umsögn prestsins verð ég að segja, að upp úr henni er ekkert leggjandi, því að hann hefir gefið þrisvar sinnum umsögn í þessu máli, og þær hafa alls ekki verið samhljóða.

Þá er þriðji aðilinn, hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps. Umsögn hennar liggur alls ekki fyrir.

Þar sem svo er ástatt, að nægileg gögn vantar í þessu máli, þá get ég fyrir mitt leyti ekki verið með því að afgreiða það á þessu þingi, og hefi þess vegna leyft mér að orða rökstudda dagskrá, svo hljóðandi:

„Í því trausti, að ríkisstj. undirbúi þetta mál til næsta þings og leggi fram nauðsynleg gögn í málinu, þar á meðal umsögn Reyðarfjarðarhrepps um kaupin og upplýsingar um það, að Eskifjarðarkauptún eigi ekki kost á hentugu landi til ræktunar, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Það er upplýst í umr., að til er ræktanlegt land nær kauptúninu heldur en Hólmaland, allt að því 30 ha. Og ég verð að segja, að mörg kauptún á þessu landi verða að láta sér nægja minna ræktað land en það. Ef það er rétt, að hægt sé að fá fyrir kauptúnið eins mikið landsvæði til ræktunar, og það til hentugri ræktunar en Hólmaland, þá mundi ég fyrir mitt leyti telja þann kost miklu aðgengilegri. Og meðan ekki er fullkomlega gengið úr skugga um, hvort möguleikar eru að fá þetta Eskifjarðarland, þá finnst mér ekki tímabært að samþ. kaup á Hólmum.