10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (517)

197. mál, sóknargjöld

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Allshn. hefir klofnað í þessu máli, og leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ.

Samkv. stjskr. er enginn skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar, sem hann sjálfur aðhyllist, en jafnframt hefir stjskr. að geyma ákvæði, þar sem þeim mönnum, sem utan þjóðkirkjunnar standa og ekki heyra heldur til öðrum viðurkenndum trúarbragðafélögum í landinu, er gert að greiða til háskólans þau gjöld, sem þeim ella hefði borið að greiða til þjóðkirkjunnar. Þetta er í mesta máta ranglátt og óviðeigandi og kemur fram eins og nokkurskonar sektargjald á þá menn, sem ekki aðhyllast nein trúarbrögð og því standa utan við öll trúarfélög. Er þetta frv. fram komið til þess að ráða bót á þessu misrétti utankirkjumanna.

Því hefir verið haldið fram, að ef mönnum væri ekki gert að skyldu að greiða þessi gjöld, mundu þeir sópast úr þjóðkirkjunni þúsundum saman. Þessu er engu öðru að svara en því, að ef menn eru einungis í þjóðkirkjunni af vana, er eins gott, að þeir noti sér heimildina um að fara úr henni. Gildir það jafnt um báða aðilja, kirkjuna og fólkið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, fyrr en ég hefi heyrt þær röksemdir, sem hv. minni hl. hefir fram að færa fyrir sinni afstöðu.