10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (551)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Ólafsson:

Það voru aðeins lítilfjörleg atriði, sem ég ætlaði að leiðrétta. Það fyrsta var, að hv. frsm. meiri hl. sagði, að borgarstjóri Reykjavíkurkaupstaðar hefði ekki mætt á fundi, sem halda átti með sveitarstjórn Seltjarnarneshrepps. Ég hefi rannsakað þetta nokkuð, og hefir borgarstjóri sagt mér, að hann hafi ekkert fundarboð fengið og muni nefndin því aldrei hafa boðað neinn fund. (HV: Honum var sent bréflegt fundarboð). Það hefir þá misfarizt. Vegna þessa hefir hann ekki mætt og rætt málið sem vera skyldi. (MG: Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hann hefði komið á fundinn. — ÓTh: Það er eitthvað óhreint við þetta).

Það er ekki rétt, að það hafi verið neitað að senda slökkviliðið, þegar bruninn var þarna suður frá. Það hringdi einhver á slökkvistöðina og bað menn að vera viðbúna að koma suður eftir, ef álíta mætti, að eitthvað væri hægt að gera. Þessu var tekið vel, ef þeir fengju þau boð síðar, að þeir mundu eitthvað geta gert þar. Þau boð komu ekki. Ástæðan var sú, að hvergi var hægt að fá vatn sem slökkviliðinu kæmi að nokkru gagni. Þetta er því rangt og er ekki rétt að láta því ómótmælt. Þetta hefði líka getað komið í bág við öryggi bæjarbúa, svo ekkert vit hefði verið í að senda það að gamni sínu, þar sem búast má við, að það verði kallað til hjálpar bæjarbúum. Það er því ekki hægt að ætlast til, að þetta verði skilyrðislaust gert. Það hefir þó verið sent upp í sveit. En þá fór það svo, að þegar viðkomandi brunabótafélag var krafið um beinan kostnað af ferðinni, svo sem benzíneyðslu, neitaði það að greiða. Það er því ekki til uppörvunar fyrir Reykjavíkurbæ að senda öryggi sitt burt, þegar sjálfsagður kostnaður af ferðinni fæst ekki greiddur, hvað þá nokkuð fyrir slökkviliðið. Ef svo færi að hús brynni hér í Reykjavík, og því væri um að kenna, að slökkviliðið hefði verið sent í burt, yrði það beint til þess að hækka brunabótagjöldin við næstu vátryggingasamninga.

Ég vildi aðeins benda á það, að það er ekki gerandi að gamni sínu að senda slökkviliðið til annara. Sjóðurinn, sem tryggir Reykjavík, á heimtingu á því að þetta öryggi sé til staðar, þegar þörf er á því, að það bjargi.

Að öðru leyti þarf ég ekki að segja mikið. Það, sem hv. frsm. meiri hl. talaði um lítilmagnann og þann stærri og minni, má geta þess, að þeim voru boðnar fullar bætur fyrir, og er það svo mikið fé, að vel má við una. Reykjavíkurbær yrði að sjálfsögðu að borga nokkuð mikið fyrir þennan bæjarhluta, því hann á fyrir sér að vaxa. Þetta væru því allríflegar bætur fyrir þann smáa. Það er þess vegna ekki um neinn lítilmagna að ræða.

Þá er það hv. 2. þm. Árn. Hann sagðist ekki geta verið með þessu fyrr en brýn nauðsyn væri fyrir hendi. Allir vita, að brýn nauðsyn er ekki fyrir hendi. Hún verður ekki fyrir hendi, meðan land er nóg fyrir vestan þennan fjallgarð. En nauðsynin liggur í því, að þegar að því kemur, að þetta svæði verður lagt undir Reykjavík, verður skilyrðislaust að breyta skipulagi jarðanna, en það yrði þá svo dýrt, að það er hrein og bein skylda okkar að byrgja þann brunn í tíma. Þetta er það, sem hv. 2. þm. Árn. ætti að gera sér grein fyrir, þegar hann er að tala um, að það sé ekki þegar brýn nauðsyn. Aðiljar eiga ekki að vera svo skammsýnir í þessu máli sem þeir virðast vera. Alþingi verður því að styðja að því, að samningar takist með þeim. Það getur líka vel tekizt ennþá. Menn hafa enn ekki lagt sig svo í líma í þessu máli sem oft og einatt er gert. Mönnum hættir alltaf til að láta dankast það, sem ekki er óhjákvæmilegt að framkoma það árið, þó menn sjái, að það þarf nauðsynlega og hlýtur að verða framkvæmt.

Það er fyrirsjáanlegt, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur hlýtur að verða stækkað, og það er þegar svo mikil þörf á því, að óforsvaranlegt er af Alþ. að draga það. Þessi krafa er alls ekki sprottin af ásælni af hálfu Reykvíkinga eða löngun til að innlima næstu sveitir. Menn verða bara að taka tillit til þess, að Reykjavík er að stækka og mun halda áfram að stækka, meðan sæmileg lífsskilyrði haldast hér. Móti því verður ekki spornað.

Það er oft um það talað, hvað stækkun Reykjavíkur sé mikið á kostnað sveitanna. En þegar betur er athugað, sést, að þetta er nokkuð orðum aukið. Ef farið er gegnum manntalsskýrslur sveitanna síðastliðna áratugi, sést, að fólki hefir ekki fækkað þar svo, sem af er látið. Að vinnukraftur virðist minni í sveitunum nú en áður, getur meðfram stafað af því, að nú er verra að fá fólk að heldur en áður.

Árið 1901 voru allir landsmenn full 80 þús., árið 1910 85 þús., árið 1920 94–95 þús. og árið 1928 105 þús. Þessi mannfjölgun hefir lent í Reykjavík og kaupstöðunum víðsvegar um landið, en lítið fleira. Frá 1907 til 1928 fjölgaði um 14500 í Reykjavík; þar af eru 5000, sem fleiri hafa fæðzt en dáið í bænum sjálfum. Það er því ekki svo ýkjamargt, sem flutt hefir hingað annarsstaðar frá; ekki nema mikill minni hluti af fólksfjölgun þjóðarinnar.

Reykjavík er því ekki sú plága á landinu að þessu leyti, sem látið er af sumum, og réttlætir það því ekki mótstöðuna gegn því, að hætt sé aðstaða þeirra, sem annaðhvort alast hér upp eða vilja flytja hingað af eðlilegum ástæðum.

Ég býst ekki við, að umr. um þetta mál hafi mikið að þýða. Er útlit fyrir, að því sé ætlað að fara sömu leið og á síðasta þingi. En ég hygg, að það verði einhverntíma talið illa ráðið af þeim, sem nú ráða, að standa gegn framgangi þessa máls.