03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (564)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég vil ekki vera að tefja tímann. Þetta er í raun og veru ekki nema orðaleikur hjá hv. 1. þm. Skagf. til þess að snúa út úr ræðu minni. Ég hefi aldrei sagt, að ekkert hafi verið gert til þess að framfylgja lögunum frá 1917. Ég komst svo að orði, að þeim hefði ef til vildi ekki verið framfylgt eins stranglega og hægt hefði verið.

Að því er snertir heimildir til þess að hlutast til um notkun loftskeytatækja, þá veitti reglug. frá 1918 stj. þessa heimild, en ég get ekki fundið, að slík heimild felist í lögunum frá 1917, því þau eru aðallega og reyndar eingöngu um það, með hvaða skilyrðum einstakir menn fái að setja upp loftskeytastöðvar og starfrækja þær, en allir verða að fá stjórnarráðsleyfi til þess. Hitt er annað mál, að reglug. frá 1918 geymir ákvæði, sem ekki hafa fullan stuðning í lögunum.

Það er tilgangslaust að vera að þræta lengur um slíka hluti, sem þessa. Ég skýt því til deildarinnar, hvort hún er mér ekki sammála um það, að rétt sé að skerpa eftirlitið og hrinda þeim grunsemdum um slælegt eftirlit með loftskeytanotkun veiðiskipa, sem legið hafa á íslenzku lögreglunni undanfarið.