01.04.1930
Efri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (612)

131. mál, bæjarstjóri á Siglufirði

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi ekki miklu að svara að þessu sinni. Þó eru það einstök atriði, sem mér þykir hlýða að drepa örlítið á. — Þá er það fyrst hv. 4. landsk. Hann sagði, að löggjafinn hefði sett reglur um þessi mál í fyrra, og er það að vísu rétt, svo langt sem það nær, en þess ber þó að geta, að í eldri lögum er ákveðið, að bæjarfógetinn á Siglufirði skuli einnig vera bæjarstjóri. Hv. þm. gat þess, að ekki væri óhugsandi, að bæjarfógetinn á Siglufirði yrði bæjarstjóri áfram. Ja — hver er þá breytingin? Verður hann þá færari til þess að vera bæjarstjóri eftir en áður? En ein breyt. yrði þó við þetta, ef bæjarfógetinn yrði áfram bæjarstjóri án þess að vera bæjarfulltrúi, og hún er sú, að hann missti atkvæðisrétt í bæjarstjórn.

Og það er rauði þráðurinn í þessu öllu saman. Það er óþarfi að reyna að láta líta svo út, að eitthvað annað vaki fyrir þeim, sem að þessu frv. standa.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði sagt, að þetta frv. væri ekki komið venjulegar leiðir inn í þingið. Það er rétt að vísu, en þm. svaraði því á þá lund, að það væri flutt samkv. beiðni Siglfirðinga. Ég vil nú draga mjög í efa, að þetta sé fullkomlega rétt. Ég hefi ekki getað fundið aðra heimild um þetta atriði, en símskeyti eitt, sem ég vil lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fyrradag var samþykkt svohljóðandi tillaga af bæjarstjórn Siglufjarðar: Komi fram breyting á lögum nr. 30 1918 eða 58 1919 í þá átt, að Siglufjarðarkaupstað sé heimilt að taka sérstakan bæjarstjóra þegar hann vill og hafi rétt til að semja við bæjarfógetann áfram, þá skorar bæjarstjórnin á Alþingi að samþykkja breytinguna og þingmenn kjördæmisins að fylgja henni vel fram.

Bæjarfógetinn“.

Ég sé nú satt að segja ekki, að þetta skeyti beri það með sér, að þetta frv. sé flutt samkv. eindregnum óskum Siglfirðinga. Upphafsorð símskeytisins sýna það glögglega, að Siglfirðingar hafa engan veginn talið það víst, að slíkt frv. yrði flutt, enda ekki hvatt til þess. Samkv. venju þá snúa aðilar sér til þm. kjördæmisins jafnan þegar þeir vilja fá eitthvert mál flutt í þinginu, en ef þeir vilja ekki sinna því, þá er vitaskuld ekki um annað að ræða en að leita til annara þm. um það, að þeir taki málið að sér til flutnings. Í þessu tilfelli hefir verið breytt út af þessari venju, og alveg að ástæðulausu, að því er séð verður.

Þá sagði hv. 4. landsk., að þingið hefði leyfi til að snúast í þessu máli. Ég get nú ekki séð, að um neitt slíkt sé að ræða í þessu sambandi. Við viljum einungis, að það sé gert ljóst fyrir löggjafanum, hvað hér er farið fram á, en í till. okkar meiri hl. felst ekkert tilefni til þess að tala um snúning í þessu máli.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að ýmsum atriðum í ræðu hv. þm. Ak. Hann byrjaði ræðu sína með því að deila, hógværlega að vísu, á allshn. fyrir drátt á afgreiðslu þessa máls. Hann sagði, að þetta væri eitt af fyrstu málunum, sem n. hefði fengið til meðferðar í vetur, en samt hefði n. þurft allan þennan tíma til þess að semja nál. Ef ég man rétt, þá var þetta mál tekið fyrir í Ed. 20. febrúar., eða hér um bil mánuði eftir þingbyrjun. Var því þá vísað til allshn., sem afgreiddi það síðan þann 17. marz. Ég held nú, að það geti engin goðgá talizt, þótt n. hafi ekki komið þessu máli af fyrr en 17. marz, enda ber á það að líta, að n. hafði samtímis mörg umfangsmikil mál með höndum. Þessi ásökun hv. þm. virðist því tæplega á nægum rökum reist.

Þá drap hv. þm. á það, að bæjarfógetinn hefði setið hjá við atkvgr., og hann taldi það rétt gert af honum. Þetta sýnir þó það, að bæjarfógeti er á móti þessari breyt., því ef hann hefði verið með henni, þá hefði verið ástæðulaust fyrir hann að sitja hjá. Af þessu og fleiru má sjá, að það er mjög hæpið, að meirihlutavilji fólksins standi að baki þessu máli.

Þá þótti hv. þm. það óviðurkvæmilegt af mér að segja, að bæjarfógeti væri fær um að halda þessu starfi áfram, því að það væri ekki hann, heldur fólkið, sem ætti að skera úr þessum málum. Hv. þm. taldi mig hafa farið rangt með, að bæjarfógeti væri bæjarfulltrúi. Það er að vísu rétt, að hann er ekki kosinn, en hann er bæjarfulltrúi að lögum, og það virðist koma nokkuð út á eitt. Hitt er meira efamál, hvort það er í rauninni rétt stefna að láta bæjarstj. kjósa bæjarstjóra; um það má deila, þó auðvitað sé það rétt, að meiri hl. þm. virðizt hafa hallazt að þeirri skoðun á síðasta þingi.

Þá sagði hv. þm., að við krefðumst rannsóknar í þessu máli. Hvaðan kemur honum sú speki? Nei, okkar meining er sú, að fá málið betur upplýst og undirbúið, til þess að vita, hvort það er í rauninni almenn ósk í héraði að fá þessu framgengt eða ekki.

Ég hefi þá svarað flestu af því, sem máli skiptir, en sé hinsvegar ekki ástæðu til þess að fara út í hinn sögulega fyrirlestur hv. þm. Ak.; ég geri ráð fyrir, að hann sé sannleikanum samkvæmur, enda er það ekki mikill vandi, að tína tölur upp úr hagskýrslum og fylla dálka þingtíðindanna með því, en slíkt skiptir í rauninni ekki svo miklu máli; hitt er aðalatriðið, að það fáist uppklárað, hvort vilji almennings liggur að baki þessu máli. — Hv. þm. var líka að tala um, hversu umfangsmikil væru störf lögreglustj. á Siglufirði. En ég skal benda honum á, að engum er vitanlegt annað en að hann leysi þau öll vel og röggsamlega af hendi. — Hv. þm. var að tala um fólksfjölda, og bar Siglufjörð saman við Seyðisfjörð í því efni, og átti þetta að vera sem sönnun fyrir nauðsyn þessa máls. En síðar fór hann að tala um Vestmannaeyjar, sem eru fólksfleiri, en þá snéri hann við blaðinu og sagði, að fólksfjöldi skipti engu máli í þessu sambandi. Þetta mætti nú kalla umskiptingshátt, en ég vil þó enganveginn leggja hv. þm. þetta til lasts, en fremur óhönduglega tekst honum að snúa málsatriðum í hendi sér, svo að ávinningur sé fyrir hann. En þetta er þó tilraunin.

Um umskiptingstal hv. þm. sé ég annars ekki ástæðu til að þess ræða, en mér fyndist hv. þm. ætti heldur að nota gamla ráðið, að berja umskiptinginn þar til um verður skipt aftur; en til þess hefir hv. þm. ekki treyst sér, en leggst í stað þess á bæn og er hinn. aumasti.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta; vil fyrst láta mesta hitann rjúka úr hv. þm. Ak. — Ég álít, að n. hafi tekið mjög skynsamlega í þetta mál, og vænti þess, að deildin geri það einnig.