14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

Afgreiðsla þingmála

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi mega mæla hér nokkur orð utan dagskrár og bera upp kveinstafi mína yfir því hátterni hæstv. forseta, að hann skuli ekki hafa orðið við þeim tilmælum að taka á dagskrá ákveðin mál, sem ég er einn flm. að. Þessi mál eru till. til þál. um lyfjaverzlun, till. til þál. um takmörkun áfengisveitinga í sambandi við alþingishátíðina, og till. til þál. um skilning á 14. gr. berklavarnalaganna, og fyrir sérstakan góðvilja hæstv. forseta hafa þau nú fengið að prýða dagskrána undanfarna daga, þar til í dag, að þau eru með öllu horfin. Nú er mér sagt, að samkomulag sé orðið milli Íhaldsflokksins og Framsóknarflokksins um að fresta þingfundum á morgun. (MG: Mér er ekki kunnugt um neitt slíkt samkomulag! — SE: Hér er enginn Íhaldsflokkur til!). Því vil ég endurtaka tilmæli mín um, að þessi mál séu tekin á dagskrá og verði þar þá svo ofarlega á morgun, að þau komi þá til umr., en verði ekki tekin út, eins og að undanförnu.