19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. fyrri kafla (Jörundur Brynjólfsson):

Við 2. umr. fjárl. lét fjvn. þess getið, að hún mundi fyrir þessa umr. koma fram með athugun á tekjulið fjárlagafrv. Þetta hefir nú n. gert og ber fram brtt. á þskj. 302 um þetta efni. Þar leggur n. til, — eins og hv. þdm. sjá, — að hækkaðir verði nokkrir tekjuliðir í 2. gr.

Það er þá 1. brtt. n., að áfengistollurinn verði hækkaður úr 375 þús. upp í 425 þús. kr. Hækkun 50 þús. kr. Í öðru lagi, að tóbakstollur hækki úr 950 þús. upp í 1 millj. 25 þús. kr. Hækkun 75 þús. kr. Í 3. lagi, að vörutollur hækki úr 1,4 millj. upp í 1,5 millj. kr. Hækkun 100 þús. kr. Í 4. lagi, að verðtollur hækki úr 1½ millj. upp í 1,7 millj. Hækkun 200 þús. kr. Í 5. lagi, að tekjur af víneinkasölu hækki úr 550 þús. upp í 575 þús. kr. Hækkun 25 þús. kr. Hækkunin á þessum 5 tekjuliðum nemur því alls 450 þús. kr.

Þegar litið er á þessa einstöku tekjuliði, ætla ég, að yfirleitt megi segja, að þó að um allverulega hækkun sé að ræða á sumum tekjuliðum, þá megi telja varlega farið af hálfu n. Ég skal geta þess, að áfengistollurinn hefir verið 3 síðustu árin: 1927 423 þús., 1928 441 þús. og 1929 659 þús. kr. Ég ætla þess vegna, að þó að lagt sé til, að hann sé hækkaður upp í 425 þús. kr., sé það mjög varlega farið, því meðaltal þriggja síðustu ára er liðlega ½ millj. kr.

Tóbakstollurinn hefir verið nærfellt 1,1 millj. kr. að meðaltali 3 síðastl. ár. Árið 1927 var þessi tollur 949 þús., 1928 1083 þús. og 1929 1250 þús. kr. Þar sem þessi tollur hefir aukizt allverulega ár frá ári, ætla ég, að ekki sé óvarlega farið, þótt hann sé áætlaður 1025 þús. kr., sem er lægra en meðaltal 3 síðastl. ára. (ÓTh: Síður en svo).

Þá er vörutollur að meðaltali 3 síðustu árin um 1600 þús. kr. Með tilliti til þess, að þessi tollur hefir ekki staðið óbreyttur öll þessi ár, er ekki hægt að segja, að með till. um hækkun á þessum lið sé nokkuð freklega af stað farið. Þessi tollhækkun gekk í gildi 1. apríl 1928. Ég tel það því varlega áætlað, þótt gert sé ráð fyrir, að hann verði 1½ millj. kr., þar sem meðaltal 3 síðustu ára er 1600 þús. kr.

Þá er 21. liðurinn, verðtollur. Hann var árið 1928 1667 þús. og 1929 2173 þús. kr. Um þennan toll er það sama að segja og hinn næsta á undan. Hann var hækkaður árið 1928, og gekk sú tollhækkun í gildi á sama tíma og hin. Það er því ekki hægt að segja, að fjvn. hafi farið óvarlega í sínum till. um að hækka hann upp í 1700 þús. kr.

Þá er loks víneinkasalan. Þar hefir n. lagt til að hækka þann lið upp í 575 þús. kr. Árið 1927 var þessi liður 325 þús., 1928 529 og 1929 1 millj. kr. Meðaltal 610 þús. kr. Eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefir um þessa tekjugrein, ætla ég, að forsvaranlegt sé að hækka þennan lið upp í 575 þús. kr. Auðvitað eru þessar till. byggðar á því, að löggjöf sú, sem gildir í þessu efni, fái að halda áfram, eða, verði hún ekki óbreytt, þá verði henni ekki breytt þannig, að tekjur ríkissjóðs verði að nokkru rýrari við það.

Þó að n. fyrir sitt leyti hefði verið ljúfast að bera ekki fram neinar till. um hækkun gjalda, gat hún ekki komizt hjá því að bera fram nokkrar till. þess efnis, og skal ég gera þeirra stutta grein.

Það er þá fyrst 6. liður undir I á þskj. 302, við 12. gr., um að hækka styrk til læknisvitjana um 150 kr. Er það samskonar styrkur og veittur er víða annarsstaðar. Þessi styrkur er ætlaður Loðmundarfjarðarhreppi í N.-Múlasýslu. Þeir eiga erfitt með að sækja lækni og n. þótti sanngjarnt að verða við þeirri ósk og leggur því til, að þessi styrkur verði veittur. Í sambandi við þessa till. vil ég geta þess fyrir hönd fjvn., að hún óskar þess, að stj. heimti skýrslur frá þeim sveitarfélögum, sem fá styrk í þessu skyni, því það er talinn vafi, hvort hann er alstaðar notaður sem vera ber, en ekki er ástæða til að veita þeim fé, sem nota það á annan hátt en til er ætlazt. Það ætti því að vera föst regla, að hlutaðeigandi sveitarfélag gefi skýrslu um það, hvernig fé því hafi verið varið, sem veitt hefir verið úr ríkissjóði. Væntir n., að það verði svo framvegis.

Þá er 7. liður um að hækka styrkinn til hjúkrunarfélagsins Líknar úr 3.500 kr. upp í 4.000 kr. Er það sama upphæð og er í núverandi fjárl. Þetta félag hefir haft hjúkrunarstarfsemi með höndum og innt það vel af hendi. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir styrkt það með 4.000 á móts við ríkissjóð. Auk þess hefir félagið fengið 4.000 kr. að gjöf. Allur starfskostnaður félagsins er því um 12.000 kr. Félagið hefir víst mikið lagt af mörkum og þeir, sem vinna við það, gefa mikið til starf sitt, og þar sem menn vinna af svo mikilli ósérplægni, álítur fjvn. rétt að láta hið sama af mörkum og áður.

Þá er ennfremur brtt. 1. á sama þskj., um að hækka laun aðstoðarverkfræðings vitamálastjóra úr 5.700 kr. upp í 6.500 kr., eða um 800 kr. Þessi breyt. er ekki nema leiðrétting á frv. Í frv. eru laun þessa manns vantalin um 300 kr., svo að hækkunin er ekki nema 500 kr. Orsökin til þess, að n. leggur til, að hann fái þessa hækkun, er sú, að hann er svo bundinn við störf í vitamálaskrifstofunni, að hann getur ekki leitað sér annars starfa. Hinsvegar hefir þessi maður unnið lengi í þágu landsins og hefir erfitt heimili og þarf því að breyta frá því, sem laun hans eru nú. N. þótti þetta hæfileg hækkun og býst við, að hv. deild geti fallizt á það.

Þá er skrifstofukostnaður vitamálastjóra hækkaður um 1200 kr. Vitamálastjóri átti tal við n. um kaup sitt og taldi sig fremur illa haldinn með það, sem hann hefir nú, samanborið við ýmsa aðra starfsmenn hins opinbera. Og þegar tekið er tillit til þess, hve lengi hann hefir unnið í þágu þess opinbera, fannst n. — þótt henni sé ekki vel við að blanda sér inn í þessi launakjör — ekki verða hjá því komizt að gera bót á þessum launum. Borið saman við aðra eru laun hans svo lág, að ekki er sanngjarnt, að hann sitji við þau alveg óbreytt. Og þegar litið er til þess, hvað greitt er til þeirra manna, sem í seinni tíð hafa gengið í þjónustu hins opinbera, virðist vitamálastjóri eiga kröfu á því, að laun hans séu dálítið hækkuð. N. sneið sína till. eftir því, hvað minnst er hægt að komast af með. Vitamálastjóra er því ætluð þessi hækkun af hálfu n.

Þá er brtt. XIII., við 13. gr., um bryggjur og lendingarbætur. Hún er til þess að tryggja almenningi afnot af bryggju, sem byrjað er á í Grindavík. N. þótti tryggilegast að setja slíka aths. við þessa fjárveitingu, vegna þess að það er einstakur maður, sem á landið og uppsátrið. Hún telur það sjálfsagt, að almenningur á þessum slóðum hafi bryggjunnar full not og væntir þess, að hæstv. stj. sjái svo um, að svo tryggilega sé búið um, að menn úr sveitinni hafi bryggjunnar full not, þegar hún er fullgerð.

Hækkunartill. þær, sem n. flytur, nema alls liðlega 50 þús. kr. Eru það þær till., sem ég hefi hér talið, og till. þær, sem heyra til síðari kafla, 14. gr. og út, og verður gerð grein fyrir þeim af frsm. síðari kafla fjárl. Þessar till. allar, sem n. flytur, þótti henni ekki hægt að komast hjá, þótt hún hefði gjarnan kosið að þurfa ekki að flytja slíkar till.

Viðvíkjandi öðrum till., sem fram hafa komið frá einstökum þm., munu þær nema um 350 þús. kr. Hækkunartill. á þskj. 302 nema því liðlega 400 þús. kr. Ef gert er ráð fyrir, að þær verði allar samþ. hér. í þessari hv. deild, verður tekjuhallinn á frv. 250 þús. kr. eftir þessa umr. Slíkt væri óhæfileg afgreiðsla á fjárl. N. væntir því, að hv. þdm. sýni varfærni í því að samþ. till., sem fara fram á verulega hækkun.

Þá held ég, að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um þau atriði, sem fjvn. flytur og snerta mig sem frsm. Ætla ég, að ég hafi gert næga grein fyrir þeim. En áður en ég sezt niður, ætla ég að gera stutta grein fyrir brtt., sem ég flyt undir mínu nafni.

Það er brtt. VII. á þskj. 302. Hún er um það, að Guðlaugi Þórðarsyni verði veittar 4.000 kr. til þess að stækka gistihúsið að Tryggvaskála.

Eins og allir vita, er þetta við mjög fjölfarna þjóðbraut og þurfa margir að gista þar, svo húsið er nú allt of lítið fyrir alla þá, sem þar þurfa að gista. Gestgjafinn er því í vandræðum með gesti, sem ber þar að garði, og ætlar að ráðast í að stækka húsið á næsta vori. Kostnaðurinn við þetta mun nema um 15.000 kr. Þessi maður er fyrir stuttu kominn þangað og keypti þá húsið dýru verði. Hann á því ekki auðvelt með að standa straum af slíkum kostnaði. Mér finnst því sanngjarnt að veita honum liðsinni eins og sumum öðrum hefir verið veitt, sem líkt stendur á með og hann. Eins og gististaðurinn er nú, er hægt að taka á móti allmörgu fólki, en þó minna en vera ætti. Sérstaklega er gistihúsið of lítið haust og vetur. Hefir það sýnt sig nú í vetur. Vona ég svo, að hv. deild geti fallizt á þessa till. mína.