24.02.1930
Efri deild: 33. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (781)

17. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Steinsson:

Ég hefi nokkra sérstöðu í þessu máli, og er líklega einna radikalastur allra þingmanna í því. Ég vakti máls á því við síðustu umr., að eðlilegast væri, að sama regla gilti um kosningar í öllum kauptúnum landsins og í kaupstöðunum. Brtt. hv. minni hl. ganga ekki eins langt að þessu leyti og óskir mínar, því að samkv. brtt. á reglan aðeins að ná til þeirra kauptúna, sem eru sérstakur hreppur. Þetta held ég, að verði til þess að valda miklum glundroða, og efast ég um, að það verði til nokkurra bóta. Því að víða hagar svo til, að stærstu kauptúnin í kjördæminu eru ekki sérstakur hreppur, en önnur kauptún miklu minni eru hinsvegar sveitarfélag fyrir sig, og mundu því njóta hlunnindanna. En mörg stærstu kauptúnin yrðu undanskilin réttindunum, og ætti hverjum manni að vera ljóst, að þetta er hæpið fyrirkomulag og mundi valda mikilli óánægju. Aftur eru þess dæmi um sum kjördæmi, að þar er kannske aðeins eitt kauptún, sem er sérstakur hreppur, og það hefir 100–200 íbúa. Er það greinilegt, að varla getur komið til mála að láta talning atkvæða í öllu kjördæminu bíða mánuðum saman eftir því, að svo fáir menn neyttu atkvæðisréttar síns.

Vil ég mælast til þess við hv. minni hl., að hann stigi sporið heilt. Þetta tvínón, sem nú er á honum, verður ekki til neinna bóta. Vænti ég, að hann geti aðhyllzt till. um að taka öll kauptún landsins með.