03.02.1930
Neðri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

10. mál, laun embættismanna

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir fljóta afgreiðslu á þessu máli. Og ég skal taka það fram strax, að ég ætla ekki að deila mikið um þann ágreining, sem verið hefir milli n.-hlutanna um það, hvort ákvæði frv. skuli gilda til eins eða tveggja ára. Ég er þó þeirrar skoðunar, að enn þurfi að framlengja þetta á næsta þingi, ef eigi er framlengt nú lengur en til eins árs, og er því sammála hv. frsm. n. um það.

Um fyrirspurn þá, er hv. þm. Dal. gerði til stj., hvenær vænta mætti endurskoðunar á launalögunum, get ég sagt, að stj. hefir ekkert um það ákveðið. Ég lýsti því yfir sem minni skoðun á þinginu í fyrra, að endurskoðun launalaganna yrði að bíða, þar til gengismálið væri leyst. Og ég er sömu skoðunar enn. Annars skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta, því hér er aðeins um smáatriði að ræða.