28.01.1930
Efri deild: 7. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (808)

20. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að þeim röksemdum hv. 3. landsk., að lögreglustjórum beri að líta eftir kvikmyndahúsunum. Slík fullyrðing stafar vafalaust af misskilningi og vanþekkingu á meginatriðum þessa máls. Eftirlit það, sem hér er um að ræða, er nánast uppeldislegs og siðferðislegs eðlis, sem hingað til hefir algerlega vantað hér á landi hvað kvikmyndahús snertir. Að það liggi innan verksviðs lögreglustjóra, er á engum rökum reist. Hitt get ég eftir atvikum tekið undir, að heppilegra sé að hafa myndaskoðunina í Reykjavík gildandi fyrir allt landið, eins og frv. gerir ráð fyrir, í stað þess að láta skoða sérstaklega í hverjum kaupstað á landinu, eins og frv. í fyrra gerði ráð fyrir. Þó ber á það að líta, að með því fyrirkomulagi ættu kaupstaðirnir hægara með að fá myndir beint frá útlöndum; en þetta er ekkert höfuðatriði.

Hv. þm. óx mjög í augum, hve myndskoðunargjaldið væri hátt, og bar okkur saman við Dani í því efni. Ég skal benda honum á, að við höfum nú miklu lægri sætaskatt en Danir og engan myndskoðunarskatt. Sá maður, sem að miklu leyti hefir samið þetta frv., hefir kynnt sér þessi mál erlendis til nokkurrar hlítar og gefið Alþingi upplýsingar um skatt af kvikmyndahúsum þar. Annars er ég hv. 3. landsk. sammála um að hafa ekki myndskoðunina fyrir skattagrundvöll, en ég vildi ekki breyta þessu, heldur láta þingið gera það, ef því sýndist svo. En skoðunin verður þó að greiða þann kostnað, sem af henni leiðir. Frv. ætlast til, að afgangurinn renni til menningarþarfa. Ef Alþingi hnígur að því ráði að láta skoðunina aðeins borga sig, þá verður að sjálfsögðu að hækka sjálfan skattinn. En þetta er nánast sagt fyrirkomulagsatriði, og okkur hv. 3. landsk. ber í rauninni fremur lítið á milli. Ég vil, að þessi skattur sem aðrir sé réttlátur, en að engum sé skotið undan honum, sem ber að greiða hann, og að engri stofnun sé íþyngt með honum umfram ástæður.

Ég get alls ekki verið hv. þm. samdóma um það, að okkur væri vansalaust að notast við erlenda myndskoðun. Ég held, að hv. þm. muni ekki eftir því, að hann hefir alveg nýlega haft fataskipti. Hann gleymir nýju sjálfstæðisfötunum, sem hann nú er í, þó þau klæði hann ekki sem bezt. Hann mun hafa verið í íhaldsleppunum, þegar þessi setning varð til í höfði hans. Ég held hinsvegar, að enginn, sem í fullri alvöru lætur sig nokkru skipta sjálfstæði þessa lands, láti sér detta þessi aðferð í hug. Slíkt væri meiri undirlægjuskapur en frjálsborin þjóð getur við unað.

Um bollaleggingar hv. þm. viðvíkjandi talmyndum skal ég ekki fullyrða að svo stöddu. Engin óyggjandi reynsla er fengin um þá hluti. En næsta ólíklegt virðist mér þó, að til þurrðar muni draga um kvikmyndir og kvikmyndaframleiðslu í heiminum. Myndagerðin er afarmikil í heiminum, og í sumum löndum allveruleg atvinnugrein, svo að varla þarf að kvíða því, að veröldin verði kvikmyndalaus, fremur en t. d. stálvörulaus eða fataefnalaus. Hvað snertir málaþekking almennings hér á landi, þá má fullyrða, að hlutfallslega ekki eins margir kunna t. d. ensku hér á landi eins og á Norðurlöndum; annars skiptir þetta ekki beint máli. Annars skal ég engu spá um það, hvort stóru löndin verða kvikmyndalaus í framtíðinni, en ef svo færi, yrðu litlu löndin annaðhvort að notast við gamlar textamyndir eða búa til talmyndir á sínum tungum.