28.01.1930
Efri deild: 7. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (809)

20. mál, kvikmyndir og kvikmyndahús

Jón Þorláksson:

Ég hirði ekki um að elta ólar við útúrsnúninga hæstv. ráðh. um eftirlitsskyldu lögreglustjóra. Hitt sagði ég, og í fullri alvöru og með fullum rökum, að í orðum hæstv. dómsmrh. lá hörð aðfinnsla á embættisrekstri þess manns, sem hann sjálfur hefir sett sem lögreglustjóra í þessum bæ, en undir hann hefir að réttu lagi heyrt slíkt eftirlit og annað. Ég vil alls ekki taka undir þau ummæli ráðh., að eftirlitið hafi verið vanrækt. Ég hygg, að það hafi verið framkvæmt nokkurnveginn eftir þörfum og eftir því sem aðstaða hefir leyft.

Hæstv. ráðh. var auðsjáanlega að leitast við að vera fyndinn, þegar hann talaði um sjálfstæðisfatnað og þvílíkt í sambandi við myndskoðunina. Ég get nú satt að segja ekki séð neitt sjálfstæðisatriði í því, hvort við skoðum sjálfir þær myndir, sem sýna á hér á landi, eða við tökum gilda erlenda skoðun á erlendum myndum, sem tilbúnar eru erlendis. Sönnu nær væri að tala um sjálfstæðisatriði, ef um væri að ræða íslenzkar myndir með íslenzkum textum. Ef við eigum að skoða hverja einustu mynd erlenda, sem hér er sýnd, enda þótt búið sé að skoða hana í hverju landinu eftir annað og full trygging þannig fengin fyrir gæðum hennar, hlýtur það að haka okkur tilfinnanlegan kostnað, og öldungis að óþörfu. Að tala um sjálfstæði og þjóðarmetnað í sambandi við þetta, eru slagorð ein og gaspur út í bláinn.

Út af hinni misheppnuðu fyndni ráðh., sem ég drap á áðan, skal ég segja honum það, að hann er ennþá í sömu fötunum, sem hann var í þegar hann kom til valda, og sem hann hefir ávallt verið í síðan, við þá starfsemi, sem honum er tömust og lætur bezt, og sem áþekkast er starfi fuglanna á vorin, nefnilega að búa til hreiður. Með þessu frv. er verið að búa til eitt slíkt hreiður, til þess að geta klakið þar út einu pólitísku dindilmenni og alið það þar á sveita annara. Þessi er frumtilgangur þessa frv., þótt reynt sé að láta öðruvísi sýnast.