22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

9. mál, flugmálasjóður Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu þessa frv. og jafnframt víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Vestm.

Hv. þm. heldur því fram, að það verði ekki nema nokkur hluti skipa, sem hafa muni gagn af þessari síldarleit. Ég hygg, að hv. þm. geri of mikið úr þessu. Það mætti ef til vill segja, að nokkur hluti síldveiðaskipanna komi til með að hafa minnst gagn af eftirgrennslan flugvélarinnar um síldargöngur, að því leyti sem skipin fá mismunandi fljótt þá vitneskju, sem flugvélin veitir í þessu efni, en að öll skipin muni hafa gagn af síldarleitinni, það tel ég víst. Og ég tel það einnig víst, að þeim skipum muni fjölga, sem útbúin eru með nauðsynlegum tækjum til þess að taka á móti loftskeytum, svo að þess verði ekki langt að bíða, að öll síldveiðaskipin hafi jafnmikið gagn af síldarleitinni.

Um hitt atriðið, að ekki sé rétt að leggja skatt á sjávarútveginn í þessu skyni, get ég að vissu leyti verið sammála hv. þm. Vestm., enda setti ég það sem skilyrði fyrir að bera þetta frv. fram, að fyrir lægju í málinu meðmæli frá einstökum félögum og stofnunum, sem að útveginum standa. Þessi meðmæli lágu fyrir, eins og tekið er fram í grg. frv., og einnig kom fram í meðferð málsins í hv. Ed., svo að ég verð að líta svo á, að almennur vilji standi á bak við, að þetta verði gert. Þó að menn því kunni að líta sömu augum á þetta mál og hv. þm. Vestm., mega þeir ekki láta það fæla sig frá fylgi við frv., vegna hinna sterku óska, sem fram hafa komið frá útgerðarmönnunum sjálfum um að þetta verði gert.