08.03.1930
Neðri deild: 48. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Það er óþarfi að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. N. hafði ásett sér að gera sem minnstar breyt. á frv., svo að ekki þyrftu að verða miklar deilur um það og að það gæti nú orðið afgr. af þinginu.

Aðallega eru það tvær breyt., sem n. hefir gert við frv., og skal ég lítillega minnast á þær.

Fyrsta brtt. er við 7. gr., og fer hún fram á það, að enn tryggilegar sé búið um það, að ekki safnist skuldir frá ári til árs, og einmitt strax í byrjun séu reistar skorður við, að skuldir safnist.

Þó að ýmsum nm. þætti slæmt að geta ekki fylgt því, að sveitabankar lánuðu til hinna dýrari jarðyrkju- og heyskaparverkfæra, þótti n. samt rétt að nema það ákvæði úr frv., því að þar er gert ráð fyrir, að lánið megi standa allt að 5 árum. Þar að auki er sennilegt, að einstaklingar geti fengið slíkt lán úr bústofnslánadeild Búnaðarbankans. N. þótti viðsjárvert að leyfa, að lán væru framlengd um svona langan tíma, og leggur því til, að þetta hverfi úr sögunni.

Þá kemur n. með till. um það, að hver félagsmaður sé skuldlaus a. m. k. einu sinni á ári. Félögin ráða því þá auðvitað sjálf, hvenær sá gjalddagi er.

Þá vill n. setja ákvæði um, að það megi víkja þeim manni úr félaginu, sem sýnir vanskil. Þó getur félagsstjórnin liðkað til í sérstökum tilfellum, t. d. ef maður hefir notað lán sitt til að kaupa heyvinnuvélar, svo sem sláttuvélar eða rakstrarvélar. Þá gæti það orðið að samkomulagi milli stjórnar sveitabankans og lántakanda, að lánið mætti standa lengur en eitt ár, því slík verkfæri borga sig ekki á einu ári; og þegar um skilamenn er að ræða og, gott veð, þá ætti það ekki að vera nein hætta, en það verða sjóðstjórnir að meta. Eins er það, ef veikindi koma upp og maður verður að kosta miklu til læknishjálpar, þá gæti það verið mjög óréttlátt að reka félagsmann úr félaginu fyrir það, að hann getur ekki staðið í skilum það árið vegna svo ófyrirsjáanlegra orsaka. Með þessu höfum við þannig viljað lina aðalákvæði greinarinnar, sem fljótt á litið virðast vera ærið hörð.

Ég vona, þegar hv. þdm. hafa heyrt, hvaða skilning n. leggur í frv. og þessar brtt., að till. hennar verði teknar til greina.

Þá skal ég líka geta þess, að n. hefir átt tal við bankastjóra Búnaðarbankans um þetta, og þeir voru eindregið því fylgjandi, að það væri sett sem aðalregla, að félagar væru skuldlausir einusinni á ári.

Þá er ein brtt. frá n., sem einnig er til frekara öryggis, en það er um veðin. Það má búast við því, að menn í sveitum hafi oft ekki annað veð fram að bjóða en lausafjárveð, og því er nauðsynlegt, að sá veðréttur sé tryggður sem bezt fyrir bankann. Í frv. var upphaflega það ákvæði, að lausafjárveð þyrfti ekki að víkja fyrir forgangskröfum í þrotabúi skuldunauts, en það var fellt úr í Ed. En bankastjórar Búnaðarbankans álitu, að þetta ákvæði ætti að vera í frv. Því hefir n. komið með brtt., sem er lík því, sem frv. var upphaflega, þannig, að þessi veð víki ekki fyrir öðru en forgangskröfum samkv. 82. gr. skiptalaganna, nr. 3, 12. apríl 1878.

Ég held, að óþarfi sé að orðlengja þetta meira. Það er öllum ljóst, hve nauðsynlegt það er, að þessi veð séu vel tryggð fyrir bankann, svo að bann verði almenningi að notum.

Þá er 3. brtt., sem er aðeins um staðfestingu frv., ef það verður að lögum. N. þótti rétt, þar sem Búnaðarbankinn tekur nú þegar til starfa, að einnig væri nú þegar hægt að starfrækja þessa sveitabanka.

Um aðrar brtt, sem við frv. eru, ætla ég ekki að tala, fyrr en flm. þeirra hafa mælt fyrir þeim.