16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (987)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Baldvinsson:

Það er undarleg tilhneiging hjá hv. 3. landsk. að þurfa nú endilega að vera að andmæla því samkomulagi, sem allir vita, að orðið er milli hæstv. stj. annarsvegar og hans og hans flokksmanna hinsvegar, um að fresta a. m. k. deildafundum í kvöld. Vegna þessa samkomulags má það vel vera, að nú standi yfir seinustu fundirnir í báðum deildum. Þeir voru ekki að hugsa um hafnarmálin þá, hv. íhaldsmenn, þegar þeir féllust á þessa samninga um þingfrestun. Hvað kemur það eiginlega málinu við, sem hv. 3. landsk. talaði um í þessu sambandi, að komið er fram að páskum? Má ekki samþykkja hvaða frv. sem er eins fyrir því? Við skulum hugsa okkur, að Framsóknarflokkurinn neitaði um öll afbrigði frá þingsköpum, sem þurft gæti til að koma hafnargerðafrv. áleiðis. Þau þyrftu þá að bíða þangað til á þriðjudaginn kemur, það væri allt. Sé ég ekki betur en að þeir 3–4 dagar, sem þingið lengdist við þetta, væru stór sparnaður móts við það að þurfa að taka málið allt upp aftur á næsta þingi. — Þessu samkomulagi, sem ég var að tala um, vil ég undanskilja hv. þm. Snæf., sem hefir, það ég veit, sýnt fullan áhuga á að koma fram hafnargerðamálunum. En hv. 3. landsk. hefir tekið þátt í samkomulaginu og engin skilyrði sett um þessi mál. Það er því hann, en ekki ég, sem nú á að hafa vonda samvizku út af því að sálga frv. Ég er alveg sannfærður um, að hv. framsóknarmenn neita algerlega um afbrigði fyrir frv. í kvöld, þótt engar brtt. yrðu samþ. við þessa umr. Frv. verða því ekki að lögum í kvöld, og þá ekki á þessu þingi. Þetta vissu þeir fyrir hv. 3. landsk., hv. þm. Skagf. (MG. og JS), hv. 2. þm. Eyf. (BSt) og hv. þm. Borgf. (PO), sem allir játast vera mjög áfram um að fá hafnargerðafrv. afgr. En hefði þeim verið nokkur alvara, þá hefðu þeir aldrei gengið að því, að láta síðustu deildafundina vera í kvöld. — Reynslan mun nú skera úr, hvor okkar hv. 3. landsk. hefir rétt fyrir sér um þetta. Ég vildi feginn óska, að ég hefði rangt fyrir mér og að þingi yrði ekki slitið fyrr en hafnargerðafrv. eru orðin að lögum. En ég hefi ekki mikla von um, að svo fari.