16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (994)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Ingvar Pálmason:

Eins og sést á nál. hv. þm. Ak., er afstaða mín nokkuð á annan veg en hv. meðnm. minna í sjútvn.

Eins og þessi hafnarmál lágu fyrir gat ég ekki lagt til, að þau næðu fram að ganga á þessu þingi, vegna þess að fyrir sjútvn. lágu ekki nægar upplýsingar og heldur ekki nein þau rök komið fram enn, sem mæli með því, að svo stór spor verði stigin í hafnarmálunum, eins og gert er ráð fyrir með frv. þeim, sem hér eru á dagskrá.

Þessa skoðun lét ég uppi á 1. fundi n., og má því finna þeim orðum stað í nál., þar sem sagt er, að ég vildi ekki, að málin gengju fram, þ. e. a. s. á þessu þingi.

Þessi mál skipta ekki alllitlu fyrir ríkissjóð, eins og bent hefir verið á. Og þegar um er að ræða að leggja á ríkissjóð kvaðir, sem nema um 900 þús. kr., og á viðkomandi héruð rúma 1 millj. króna, þá óska ég fyrir mitt leyti meiri upplýsinga og sterkari gagna en nú er kostur á að fá. Því að ef haldið er áfram á þessari braut, þá getur þingið ekki stanzað og verður að sinna slíkum beiðnum sem þessum, þegar þær koma fram.

Ég vil taka strax fram, að mér virðist ekki standa eins á í öllum þessum tilfellum, ef athugað er í fljótu bragði. Hv. þm. Snæf. vildi halda fram, að öll þessi mál væru svipuð eða ættu öll jafnmikinn rétt á sér. Má vel vera, að það reynist rétt við nánari athugun, en ég er ekki nægilega kunnugur til þess að fella dóm um það að þessu sinni, og það af þeim ástæðum, sem ég hefi tekið fram, að engin fullnægjandi gögn eru fyrir hendi, sem byggt verði á.

Þó getur mér ekki dulizt, að eftir öllum staðháttum á þessum stöðum, sem um er að ræða, verður að telja, að hafnargerð á Sauðárkróki sé frekast réttlætanlegust, eftir þeim litlu upplýsingum, sem fyrir liggja. Ég veit, að þar er um hafnleysi að ræða, og allt í kringum Skagafjörð hafnlaust svo að segja. En það verður ekki sagt um Dalvík, því þó að komið geti fyrir, að erfitt sé þar um lendingu, þá er þó skammt að leita góðra hafna, bæði innar í firðinum og á Akureyri, auk þess sem um skamman veg er að ræða að ná til Siglufjarðar. — Á Akranesi eru ekki heldur allar bjargir bannaðar, eins og sést á því, að Akurnesingar, sem eru mestu dugnaðarmenn, hafa komið sér upp stórum útvegi og rekið hann frá öðrum höfnum.

Það er rétt hjá hv. þm. Snæf., að málinu var vísað til sjútvn. þessarar hv. d. 8. apríl. En næstu dagana á undan hafði fjórum málum verið vísað til n., sem afgreiða þurfti á undan, svo það varð ekki fyrr en 11. apríl, að hægt var að sinna þessum hafnarmálum.

Nú getur vel verið, þó að ég viti það ekki, að eitthvert þessara sveitarfélaga, sem hér um ræðir, hafi safnað fé eða útvegað til þessara hafnargerða. En það er óupplýst með öllu og því ósaknæmt með öllu, eða engu spillt, þó að málin verði látin bíða til næsta þings, í von um, að aflað verði frekari upplýsinga. En ef þetta er samþ. nú og með því ákveðna framlagi úr ríkissjóði, sem frv. fara fram á, má ganga út frá því sem vissu, að fleiri kröfur koma á eftir, og þær alveg eins réttmætar og þær, sem hér eru gerðar.

Það má nú kannske segja, að hjá mér kenni nokkurs ósamræmis, er ég legg á móti frv. þessu nú, en er þó tilbúinn að greiða atkv. með að leggja stórfé í Vestmannaeyjahöfn. En þar er búið að leggja svo mikið fram úr ríkissjóði, að ekki er hægt að kippa að sér hendinni, svo að ekki hljótist tjón af. Vestmannaeyjahöfn ætti að geta kennt okkur það, að ekki er nóg að setja lög á pappírinn um hafnargerðir. Þegar sett voru lög um hafnargerð í Vestmannaeyjum, var ekki búizt við öllum þeim fjárhæðum, sem ríkissjóður hefir síðan orðið við að bæta, og þó er margt þar óunnið enn af nauðsynlegum mannvirkjum og sem gleypa mun mikið fé enn.

Ég verð því að líta svo á, að það sé ekki á neinum rökum byggt, sem kom fram hjá hv. þm. Snæf., að það væri unnið af óvild á móti þessum málum. Hvað mig snertir neita ég því algerlega. En fyrir mér vakir, að það sé ekki ráðlegt að leggja út á þessa braut, því að lögin verða ekki annað en pappírsplagg. Það er ekki hægt á þessum stöðum að byggja smátt og smátt. Hverja höfn fyrir sig verður að byggja í einu, svo að þær komi að gagni. Þó má vera, að svo hagi til á Akranesi, að komið geti til mála að byggja höfnina þar smátt og smátt, en annarsstaðar ekki.

Brtt. hv. þm. Ak. eru spor í rétta átt, því að þær eru aðhald fyrir héruðin að krefjast ekki framlags úr ríkissjóði nema þau séu búin að tryggja sér að geta lagt fé á móti. Þess vegna mun ég greiða atkv. með þessum brtt. En þó verð ég að taka fram, að eins og málin liggja fyrir get ég þó ekki greitt þeim atkvæði út úr deildinni.

Ég hefi talað um öll þessi frv. í einu og gert það til verksparnaðar, til þess að þurfa ekki að svara aftur, enda gildir það sama um þau öll. Eins og þau liggja fyrir verður því ekki neitað, að þau eru óupplýst með öllu og ekki forsvaranlegt að láta þau ná fram að ganga að þessu sinni.