30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

13. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson:

Hv. þm. Borgf. hefir játað það, að tilgangurinn með þessu frv. eigi að vera sá, að jafna aðstöðuna milli þeirra, sem búa langt, og þeirra, sem búa skammt frá verzlunarstöðunum. Hann hefir einnig játað, að miklu stórvægilegri sé aðstöðumunurinn með tilliti til flutnings á efni til þeirra bygginga, sem byggingar- og landnámssjóður lánar til, og að full þörf sé að reyna að draga úr heim flutningskostnaði. Það er rétt hjá honum, að þar er um miklu stærra atriði að ræða, — en hvers vegna hefir hv. þm. ekki reynt að berjast fyrir því að jafna þann aðstöðumun?

Annars hefir hann ekki að jafnaði virzt vera „spenntur“ fyrir því að gera alla jafna, en ef til vill er hann nú að hníga inn á þá braut, og þá útfærir hann sjálfsagt sína nýju stefnu á fleiri sviðum. En ég vil aðeins benda hv. þm. á, að eins og flutningsstyrk var úthlutað síðastl. ár samkv. gildandi lögum, þá hefir það verið reiknað út, að bændur austur í sveitum hafa fengið borgaðar nokkrar kr. á hverja tunnu fram yfir flutningskostnað, og ætti það að vera honum sönnun fyrir því, að þessi ákvæði um styrk til flutnings á landi voru lítt hugsuð af honum í upphafi, þó að nú sé að vísu nokkuð breytt til batnaðar.