09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (1125)

6. mál, tollalög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. N.-M. heldur því fram, að hér sé um munaðarvöru að ræða, en mér finnst, að þau rök hans séu engu betri nú en síðast. Hv. þm. sagði, að menn færu inn á kaffihús til að kaupa sér kaffi og því væri það munaðarvara. Það er alveg rétt, menn fara inn á kaffihús til að fá sér kaffi, en menn fara þangað líka til að borða. Og það er þó enginn óþarfi að borða, nema ef til vill að því leyti, að matur er þar dýrari en annarsstaðar. Að þetta sé sönnun fyrir því, að kaffi og sykur sé munaðarvara, er fjarstæða, og mig furðar á því, að slík rok skuli koma fram hér í deildinni. Þetta eru alveg samskonar rök og að þetta hafi verið munaðarvara fyrst þegar það var flutt inn og sé það því enn. Alveg það sama mætti segja um hveitið. Einu sinni þótti það yfirlæti, að hafa mat úr hveiti á borðum sínum. (HStef: Hveiti er ekki heldur tollað). Það hefir verið tollað, þó að sá tollur hafi ekki verið hár. Slíkar röksemdir eru bágbornar. Það má alveg eins segja, að hveiti sé munaðarvara eins og kaffi og sykur.

Hv. þm. sagði, að ef frv. um einkasölu á t6baki og eldspýtum væri komið í höfn, eins og hann orðaði það, þá væri hann fremur fáanlegur til að fylgja þessum till. mínum. Það er nú að sjálfsögðu að miklu leyti á valdi deildarinnar, hverja afgreiðslu það mál fær. Ég man ekki betur en að þetta einkasölufrv. hafi í fyrra verið samþ. með greinilegum meiri hluta, og nú er deildin skipuð alveg sömu mönnum og þá, og í Ed. var það samþ. við 2. umr. Eftir þessu virðist frv. hafa haft mikið fylgi og eiga víst að ganga fram, ef hv. frsm. (HStef) skiptir ekki um skoðun.

Ég held því, að hv. þm. sé óhætt að greiða atkv. með þessum brtt. mínum, því að ríkissjóði verður áreiðanlega séð fyrir þessum tekjum. (JAJ: Ég held, að það sé ekki sýnilegt, að þar verði auknar tekjur). Hv. þm. getur auðvitað lokað augunum.

Ég held, að ég þurfi ekki að segja fleira í sambandi við þessi andmæli, en vil aðeins vænta þess, að hv. deild fallist á að gera þessa lækkun á þessum tollum, því að þeir eru einhver sá alranglátasti skattur, sem landsmenn verða að greiða.