23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í C-deild Alþingistíðinda. (1218)

158. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Ólafur Thors:

Það má segja um hv. þm. S.-M., að hann er kjarkmaður, er hann kemur nú í 4. sinn inn í þingið — ekki með þennan gamla gest, eins og hann nefndi frv., heldur með þennan gamla draug. Því að við gerðum nú „Ömmu“ og aðstandendum hennar það til skammar í fyrra að lóga henni hreinlega. Það er gamall og góður siður, þegar afturgöngur gera vart við sig, að kveða þær niður hið bráðasta. Vil ég því sýna lit á að kveða niður þann draug, sem hér hefir verið vakinn upp.

Eins og allir hv. þdm. muna, var frv. þessu vísað frá með rökst. dagskrá á síðasta þingi. Nú er frv. borið fram aftur með þeim rökum, að hv. d. hafi ekki í fyrra vitað, hvað hún var að gera, að reikst. dagskráin hafi verið byggð á tómri vitleysu. Eins og menn muna, hljóðaði dagskráin þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að landsstj. hefir í gildandi löggjöf næga heimild til eftirlits með loftskeytum, þykir ekki þörf nýrrar lagasetningar um þetta, og tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá“.

Hv. flm. heldur því fram, og vitnar til „merks lögfræðings“, er hæstv. dómsmrh. hefir leitað til í þessu máli, sér til stuðnings, að þessi rökst. dagskrá hafi ekki við nein rök að styðjast. Ég vil nú leyfa mér að gagnrýna dálítið skoðun þessa „merka lögfræðings“. Ég skal geta þess, að ég byggi ekki aðeins á eigin dómgreind, heldur hefi ég borið skoðun mína undir marga lögfræðinga, sem eru mér alveg sammála.

Niðurstaðan, sem lögfræðingur hæstv. dómsmrh. komst að, er prentuð í grg. og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurstaðan af þessari athugun verður því sú, að lög 82/1917 og reglugerð 32/1918 séu ekki að neinu sérstöku leyti sett til þess að koma í veg fyrir misnotkun loftskeyta á veiðiskipum, og hafi því að sáralitlu leyti í sér fólgin ákvæði, sem hægt sé að beita sérstaklega í því skyni. Aftur á móti er frv. til laga um loftskeytatæki á botnvörpuskipum og um eftirlit með loftskeytanotkun íslenzkra veiðiskipa sérstaklega flutt til þess, eins og fyrirsögn þess ber með sér, að koma í veg fyrir slíka misnotkun, enda er í frv. að finna mörg nýmæli, er miða að þessu marki“.

Niðurstöðu þessa byggir lögfræðingurinn, sem hæstv. dómsmrh. nefnir „einn af helztu lögfræðingum landsins“, á því, að þar sem lögin frá 1917 hafi verið samin áður en farið var að búa íslenzk veiðiskip út með loftskeytatækjum, geti þau ekki náð út yfir þær takmarkanir, sem nú sé nauðsynlegt að setja um loftskeytanotkun botnvörpuskipanna. Ég tel mjög vanhugsað að slá fram slíkum rökum sem þessum, eiga rökleysum réttara sagt. Móses hefir sennilega ekki vitað, er hann sagði: „Þú skalt ekki stela“, að upp mundu rísa slíkir mannorðsþjófar, sem við þekkjum nú. En þrátt fyrir það verða mannorðsþjófarnir vafalaust ásamt öðrum þjófum færðir undir þessa lagagrein Mósesar á dómsdegi. Það liggur í augum uppi, að hægt er að beita lögum um tilfelli, sem ekki hefir verið sérstaklega gert ráð fyrir, þegar lögin voru samin, að svo miklu leyti, sem þau geta náð yfir slík atriði. Það lítur því út fyrir, að lögskýring grg. sé eftir einhvern skósvein hæstv. dómsmrh., fremur en „einn helzta lögfræðing landsins“. Ólíklegt er, að þar hafi menntaður lögfræðingur verið að verki.

Ég skal nú leyfa mér að minna á, hvað stendur í lögunum frá 1917, sem síðasta þing taldi felast í nægilega heimild fyrir ríkisstj. út að skapa þau ákvæði, sem hún telur nauðsynleg um það efni, sem frv. ræðir um. 4. gr. þeirra hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Innan íslenzkrar landhelgi og á Íslandi má aðeins að fengnu leyfi ráðuneytisins, og með þeim skilyrðum, sem leyfið ákveður, setja upp og nota stöðvar eða annan útbúnað til þráðlausra firðviðskipta“.

Nú kann að orka tvímælis, hvort þessi grein ein gefur ráðh. aðstöðu til að gera þær ráðstafanir, sem hann sækist eftir með þessu frv. Það mætti álykta svo, að þegar atvmrh. hefir einu sinni veitt skipi leyfi til loftskeytanotkunar, þá geti hann ekki afturkallað það né sett skilyrði, sem ekki var getið um, þegar leyfið var veitt. En 2. gr. laganna tekur af öll tvímæli um þetta. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

.... Ráðuneytið getur bannað öll þráðlaus viðskipti innan íslenzkrar landhelgi og gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þykja, til þess að banninu verði hlýtt“.

Samkv. þessari gr. getur ráðuneytið tekið loftskeytaleyfið af skipunum hvenær sem því sýnist og veitt þau aftur gegn hvaða skilyrðum, sem það vill setja.

Við skulum nú athuga nánar, hvað rúmast getur innan þess ramma, sem lögin frá 1917 setja. Ég skal lesa upp úr grg. frv., með leyfi hæstv. forseta, hvaða atriði í frv. hinn „merki lögfræðingur“ telur nýmæli, hvað hann álítur hæstv. dómsmrh. vilja fá með samþykkt frv., fram yfir það, sem er í gildandi lögum. Jafnframt vil ég biðja hv. þm. að athuga, hvað af þessum nýmælum gæti rúmazt í reglugerð byggðri á lögunum frá 1917:

„1) að allir ísl. útgerðarmenn, sem hafa skip með loftskeytatækjum við veiðar hér við land, skuli skyldir að láta dómsmálaráðuneytinu í té lykil að hverju því dulmáli, sem notað kann að vera í skeytasendingum milli útgerðarmanns og veiðiskipa, eða íslenzkra veiðiskipa innbyrðis, 2) að landssímastöð og hvert ísl. veiðiskip með loftskeytatækjum skuli hafa sérstök eyðublöð frá dómsmálaráðuneytinu undir frumrit slíkra skeyta, 3) að hver sá, sem skeyti sendir til eða frá veiðiskipi, skuli undirrita á skeytið drengskaparvottorð um, að skeytinu sé ekki ætlað að stuðla að landhelgisbroti, forða sökunaut við töku eða gefa bendingu um ferðir varðskipa, 4) að skrá skuli í sérstaka bók á loftskeytastöðvum og veiðiskipum öll skeyti til og frá skipunum í töluröð, með nákvæmri stund og dagsetningu, 5) að loftskeytamenn varðskipa og starfsmenn loftskeytastöðva í landi skuli skyldir að bókfæra öll loftskeytaskipti milli veiðiskipa innbyrðis og skeytaskipti þeirra við land, 6) að landssímastjóra skuli senda frumrit allra loftskeyta, sem milli lands og skipa hafa farið á síðastliðnum mánuði, og skrásetningarbækur skuli senda dómsmálaráðuneyti, og að öll þessi skjöl séu látin sjávarútvegsnefndum Alþingis í té til rannsóknar, 7) að refsa megi útgerðarstjóra, skipstjóra eða öðrum, sem hagsmuna hafa að gæta og reynzt hafi sannir að sök um brot á fyrirmælunum, með 3–15 þús. kr. sekt, 8) að útgerð skips ábyrgist slíka sektargreiðslu, 9) að skipstjóri, sem reynzt hafi sannur að sök um misnotkun loftskeyta í þessu skyni, skuli í fyrsta sinn missa rétt til skipstjórnar í 1 ár og í annað sinn missa skipstjóraréttindi fyrir fullt og allt, og 10) að svipta megi útgerðarstjóra eða skipstjórnarmenn rétti til loftskeytaskipta milli lands og veiðiskipa“.

Síðan heldur hann áfram:

„Öll þessi 10 atriði, sem nú hafa verið talin upp úr frv., eru nýmæli, sem hvorki fyrirfinnast í lögum frá 1917 né reglugerð frá 1918. Og öll þessi nýmæli hafa það sammerkt, að þau miða að því að koma í veg fyrir misnotkun loftskeyta í þágu landhelgisbrota. En eldri lög og fyrirmæli um rekstur loftskeytastöðva höfðu engin sérstök ákvæði að geyma, sem sérstaklega miðuðu að þessu“.

Flest af þessum 10 atriðum, og öll þau, sem máli skipta, er tvímælalaust hægt að rúma í reglugerð samkv. 1. frá 1917, þar sem þau heimila ráðuneytinu að banna veiðiskipum loftskeytanotkun, að setja hvaða skilyrði sem því sýnist fyrir að leyfa hana og gera ráðstafanir til þess, að þau skilyrði séu uppfyllt.

8. atriðið er ef til vilt ekki hægt að setja í reglugerð, en það er ekkert aðalatriði. Sama er að segja um 9. atriði. Það mundi líklega ekki rúmast orðrétt í reglugerð, en það skiptir engu máli, því að í lögunum sjálfum eru harðari sektarákvæði um sama efni. Hinum atriðunum öllum, sem lögfræðingurinn telur nýmæli, getur hæstv. stj. hæglega komið fyrir í reglugerð, nenni hún að gefa hana út. Þau tvö atriði, sem hv. flutningsmaður taldi aðalatriði frumvarpsins, að útgerðarmenn skuli skila lyklum að dulmálum sínum og hið margumtalaða drengskaparvottorð, eru alveg augljós reglugerðarákvæði.

Ég get nú í sjálfu sér látið útrætt um efnishlið þessa máls. Ég hefi nú sýnt fram á, að frv. þetta er ekki einungis alóþarft, heldur er það einnig móðgun við hv. d., að það er enn fram borið. Fyrir því er ekki hægt að bera fram aðra ástæðu en þá, að hv. d. hafi ekki haft vit á, hvað hún gerði, þegar hún afgreiddi málið í fyrra.

Ég vil vekja sérstaka athygli á grg. þeirri, sem nú er látin fylgja frv. Það mun óhætt að telja það „næsteinstakasta“ plagg hins 1000 ára Alþingis. Annað plagg frá hæstv. dómsmrh. hefir verið viðurkennt það einstakasta. Hv. flm. segir síðast í þeim fáu línum í grg., sem munu vera frá honum sjálfum, með leyfi hæstv. forseta:

„Að vonum hafa einstakir þingmenn og fleiri, sem um málið hafa fjallað, eigi áttað sig til fulls á því, hve veik og villandi rökin gegn frv. hafa verið, en þess verður að vænta, að fyllri skýringar á þessu nauðsynjamáli alþjóðar leiði til lögfestingar frv.“

Að vonum“, segir hv. flm. Hvaða „von“ er til þess, að hv. þm. hafi ekki enn áttað sig á þessu einfalda frv., sem alltaf gengur aftur, sem hv. þm. hafa nú speglað sig í á þremur þingum í röð? Þótt ég játi, að til eru nokkuð sljóir menn hér í hv. d., þá held ég þeir geti ekki verið svo sljóir, að þeir séu ekki búnir að átta sig á jafneinföldu máli og þessu.

Annars ætlaði ég ekki að fara að mæða hinn aldna vin, hv. flm., með því að deila á hann sérstaklega út af þeim fáu orðum, sem hann á í grg. frv. En þeim hluta grg., sem er eign hæstv. dómsmrh., mun ég ekki ganga þegjandi framhjá. Hann kveðst hafa verið á fundi með hreppsnefndarmönnum í Ólafsvík og á Sandi, og hefir hann eftir þeim ýms ummæli því til sönnunar, hvað ásókn togaranna í landhelgi sé mikil. Þessu næst skýrir hæstv. dómsmrh. frá fundum, sem hann hefir haldið með hreppsnefndum í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og segir þar m. a. frá því, að einn þeirra oddvita, sem fundinn sátu, hafi skýrt frá því, að landhelgisveiðar togara hafi verið mjög áberandi í Garðsjó, meðan varðskipin voru að leita að „Apríl“. Af þessum upplýsingum dregur ráðh. svo þær ályktanir, að útgerðarmenn í Reykjavík haldi nákvæman vörð um hreyfingar varðskipanna og gefi skipstjórum bendingar eftir því“, eins og lesa má í grg. frv. „Vitnisburður sjómanna í Garði og Ólafsvík er shlj. um það, að veiðiskipin vaða uppi dagana, sem varðskipin eru að leita að Apríl“, bætir hæstv. ráðh. svo við. Og litlu síðar segir ráðh.: „Sagan úr Ólafsvík er engu síður ber. Þrem sinnum á vetrinum er farið í landhelgina. Í öll skiptin getur hreppsnefndin gert grein fyrir, hvers vegna skipin fara inn einmitt þá“.

Ég get nú ekki annað sagt en að þetta lýsi óvenjulega sljóum hugsunarhætti. Þegar ráðh. ætlar að sanna, að útgerðarmenn beini skipum sínum inn í landhelgina með óleyfilegri notkun loftskeyta, sannar hann það gagnstæða. Í þau þrjú skipti, sem togararnir voru í landhelgi hjá Ólafsvík að sögn hreppsnefndarinnar, getur hreppsnefndin fundið ástæðuna til þess, ástæður, sem ekki verða raktar til afskipta útgerðarmanna. Og í þetta skipti, sem ráðh. tilfærir um það, að togararnir hafi verið á landhelgisveiðum í Garðsjó, gátu skipstjórarnir fengið vitneskju um varðskipin frá öðrum en útgerðarmönnum. Hugsunin er svo sljó hjá hæstv. ráðh., að hann segir það berum orðum í grg., að skipstjórarnir hafi ekki fengið vitneskju sína um það, hvar varðskipin voru, frá útgerðarmönnum. Hæstv. ráðh. segir svo frá: „Á fundinum í Keflavík var staddur hr. Pálmi Loftsson útgerðarstjóri. Garðbúar höfðu staðið í símasambandi við hann, meðan varðskipin væru að leita að „Apríl“. Nú kom í ljós, er borin var saman skeytasending hans til varðskipanna og reynsla Garðbúa, að hinir brotlegu togarar höfðu farið burtu úr Garðsjónum einum degi áður en þeir „þurftu“, af því að útgerðarstjórinn hafði sent varðskipunum tvírætt skeyti, sumpart á mæltu máli og sumpart á dulmáli“. Þarna er það berlega sagt, að það eru skeyti hr. Pálma Loftssonar, sem hæstv. ráðh. telur, að hafi valdið landhelgisveiðum togaranna í þetta skipti. Er það heldur sljó röksemdafærsla hjá hæstv. ráðh., að hann skuli einmitt velja þetta tilfelli því til sönnunar, að útgerðarmenn misnoti loftskeytin, úr því að togararnir höfðu ekki frá þeim vitneskjuna um það, hvar varðskipin voru, heldur frá öðrum, og þessi annar var hr. Pálmi Loftsson, þjónn sjálfs ráðh. Hvað snertir landhelgisveiðar togaranna á jólanóttina og nýjársnótt, er það að segja, að hæstv. dómsmrh. upplýsir sjálfur, „að það hafi verið venja, ef ekki hafi verið um sérstök atvik að ræða, að varðskipin væru til skiptis inni um jólin og nýárið“. Samkv. þessari venju geta því togararnir fiskað rólegir í landhelgi þessar nætur, án þess að fá nokkrar bendingar frá útgerðarmönnum.

Ég skal ekkert fara út í það, hvort sá óhróður hæstv. dómsmrh. um íslenzka sjómenn er sannur, að þeir hafi notað tækifærið til landhelgisveiða, meðan dauðaleitin að „Apríl“ stóð yfir. Það, sem ruglar hæstv. ráðh., er það, þó að skömm sé frá að segja, að hann er svo blindaður af heift til útgerðarmanna, að hann hikar ekki við að bera þeim á brýn, að þeir noti jólanóttina og tímann, sem verið var að leita dauðleitina að „Apríl“, til þess að láta skip sín fiska í landhelgi, jafnvel þótt þessi dæmi út af fyrir sig sanni það gagnstæða við það, sem ráðh. þarf á að halda til rökstuðnings því, að útgerðarmenn beini skipunum í landhelgi. Ég verð því að segja það, að mig undrar það stórum, ef það eru ekki fleiri en ég, sem ofbýður eitt og annað í þessari grg. Og ég verð einnig að segja það, að það er ef til vill ekki fjarri sanni að spyrja, þegar þetta frv. er rætt, hvernig þessi maður, sem þykist vera að halda hlífiskildi fyrir landhelginni, stendur að vígi, þegar hann er að ráðast á útgerðarmenn fyrir það, að þeir láti skip sín stela úr landhelginni. Ég ætla hér ekki að tala um Tervanihneykslið, þegar ráðh. gaf augljósum sökudólg upp allar sakir, en ég vil minna á, að í þessu endemisplaggi, sem ég hefi verið að vitna í, segir ráðh. m. a.:

„Ríkið kostar fram undir 700 þús. kr. árlega til landhelgisvarna. En á sama tíma reynist það ofurefli fyrir heilan hóp af fulltrúum þjóðarinnar að rétta þrem sinnum upp hendina við atkvgr.“

Hæstv. ráðh. mun hér eiga við það, með hverjum hætti frv. hans hefir liðið út af á undanförnum þingum, og er þess að vænta, að þm. svari brigzlum hans á þann eina veg, sem rétt er. Við hinu er ekkert að segja, þó að ríkið eyði 700 þús. kr. til þess að koma í veg fyrir, að sjómennirnir séu rændir. Það er ekki nema rétt og sjálfsagt. En það er hart, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki jafnframt því, sem hann er að vitna, að landhelgin sé rudd á einni nóttu, vitna um það, sem hann hefir á sinni eigin samvizku. Hæstv. ráðh. hefir vikum og mánuðum saman haldið varðskipunum í pólitískum snattferðum og notað þau til þess að flytja sig og fylgifiska sína til fundarhalda, þar sem fundirnir voru auglýstir, svo að hver maður á landinu vissi, hvar varðskipin héldu sig. Ef því landhelgin er rudd á einni nóttu, og það sjálfri jólanóttinni, hvað mun þá um allar þær nætur, sem varðskipin eru í snattferðum fyrir hæstv. ráðh.? Það situr því sízt á hæstv. dómsmrh., þessum frumkvöðli landhelgisveiðanna, þessum Al Capone landhelgisbrjótanna, þegar hann er að hrópa: „Þið útgerðarmenn, þið ræningjar, sem sviptið atvinnu þúsundir af varnarlausum sjómannaheimilum!“ — Má með sanni segja við hæstv. dómsmrh.: „Vei yður, þér hræsnarar!“ — Og það verð ég að segja, að þá er hræsnin komin á hátt stig, ef slík framkoma sem þessi er ekki virt að verðleikum.

Ef það á annað borð er talið nauðsynlegt að lögfesta þau ákvæði, sem felast í þessu frv., er hægurinn á að gera það með reglugerð. Það er því hæstv. dómsmrh. sjálfum að kenna, að þessi ákvæði eru ekki þegar lögfest. Hæstv. ráðh. hefir ekkert hafzt að í þessu efni þau ár, sem hann hefir farið með völdin í landinu.

Ég skal svo láta hér staðar numið, en vil að síðustu geta þess, að ég er hv. flm. sammála um það, að óþarfi sé að vísa þessu máli til n. Mun ég því greiða atkv. á móti því.