25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í C-deild Alþingistíðinda. (1235)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Flm. (Jón Ólafsson):

Frv. þetta er fram borið að ráði og með samþykki fulltrúaráðs Útvegsbankans. Þótt ekki sé langt síðan l. um þennan banka voru sett, þá eru þau að ýmsu leyti þannig sniðin, að þau geta ekki staðið óbreytt til lengdar, enda var það vitað fyrirfram. Ég skal ekkert fara út í forsögu þessa máls. Hún kemur þessu stigi þess ekkert við. Aðeins skal ég snúa mér að þeim lögum, sem Útvegsbankinn er stofnaður eftir, en það eru l. frá 11. marz 1930. Þegar þau l. voru sett, var ekki fengin fullkomin vissa um það, hver verða mundu forlög Íslandsbanka, sem lokað hafði verið snemma í febr. það ár. Í 1. varð því að setja ýmis bráðabirgðaákvæði, sem nú eiga ekki lengur við. Þannig eru í III. kafla 1. fyrirmæli um það, að ríkissjóður lengi fram 3 millj. kr. sem forgangshlutafé, að því tilskildu, að lagt verði fram hlutafé innanlands 1½ millj. kr. og að samkomulag náist við aðallánardrottna Íslandsbanka, sem eru ríkissjóður Dana, Privatbanken og Hambrosbank. Þegar þessum skilyrðum væri fullnægt, þá skyldi Íslandsbanki renna inn í Útvegsbankann, sem þá tæki við skuldbindingum hans og kæmi í stað hans að öðru leyti. Eitt ákvæði þessa kafla er það, að afskrifað skuli hlutafé Íslandsbanka. Þá er og ákveðið, að seðlar hans skuli dregnir inn. Í IV. kafla eru enn sett ákvæði til vara, ef ákvæði 12. gr. verða ekki uppfyllt. Þá er gert ráð fyrir, að Íslandsbanki verði tekinn til skiptameðferðar sem gjaldþrota. Útvegsbankinn kemur því í stað Íslandsbanka, sem er lagður niður, samkv. því, sem l. frá 11. marz 1930 ákveða. Um Útvegsbankann er svo gerð samþykkt, sem er frá 5. apríl 1930. Lagafyrirmælin um Útvegsbankann eru því svo ófullkomin, að nauðsyn þótti að safna þeim í eina heild, svo sem er um lög Landsbankans og lög Búnaðarbankans. Þótti vel til fallið að gera þetta nú þegar, að setja bankanum fullkomin lög, en fella niður þau bráðabirgðaákvæði 1., sem nú eru orðin óþörf.

En um leið og þetta er gert, þótti rétt að fara fram á nokkur fríðindi bankanum til handa, um ábyrgð o. fl. Skal ég með nokkrum orðum leyfa mér að minnast á þau fríðindi, sem fram á er farið í frv. og eigi standa í 1. frá 11. marz 1930. Það er þá hið fyrsta, að í 4. gr. frv. er farið fram á það, að ríkissjóður ábyrgist allt það fé, sem Útvegsbankinn eða útibú hans taka við til ávöxtunar með sparisjóðskjörum. Það þykir ekki ósanngjarnt að fara fram á þetta. Ríkið hefir tekið fulla ábyrgð á Landsbankanum með l. frá 1928 og á Búnaðarbankanum með l. frá 1929. Hér er aðeins farið fram á, að ríkið taki ábyrgð á sparisjóðsinnstæðum. Ef svo er ekki gert, þá má telja fullvíst, að Útvegsbankinn, með hina bankana til beggja hliða, fái sama sem ekkert af sparisjóðsinnlögum. Nú má þó telja það víst, að Útvegsbankinn, sem ætlað er það hlutverk aðallega að styðja annan og stærri aðalatvinnurekstur landsins, muni eiga þau ítök hjá mörgum sparifjáreigendum, að þeir vildu gjarnan láta hann geyma fé sitt, ef þeir telja fullt öryggi fyrir geymslu þess þar. Nú vil ég segja það, að þeir, sem spara fé og leggja það til þjóðarrekstrarins í gegnum bankana, eiga það fyllilega skilið, að öryggi þeirra sé tryggt með ábyrgð ríkisins. Þetta á ekki hvað sízt við banka, sem hafa víðtæka starfsemi og svo flókna, að einstaklingar, sem eiga fé sitt þar inni, geta ekki til hlítar fylgzt með starfsemi þeirra. Öðru máli er að gegna um hina mörgu smáu sparisjóði víðsvegar um land. Þar þekkja menn svo að segja til hlítar alla starfsemi sparisjóðanna og vita því jafnan um öryggi þeirra.

Þar sem nú ríkið á 3/5 hluta af hlutafé bankans, þá mundi aldrei til þess koma, að ríkið léti innstæðueigendur tapa fé sínu þar. Er það enn greinilegra, þegar þess er gætt, að auk þess sem ríkið á meiri hluta í bankanum, þá hefir það líka öll umráð yfir honum. Hér er því um enga nýja hættu að ræða, heldur það, að rétta bankanum hönd til jafnréttis við hina bankana.

Þetta er þá um fyrsta nýmæli frv. Hið annað er það, að bankinn megi draga seðla sína inn á 10 árum. Þegar litið er yfir sögu seðlainnlausnar Íslandsbanka, þá er ljóst, að engin föst regla hefir um hana gilt. Upphaflega hafði Íslandsbanki alla seðlaútgáfu hér á landi, að undantekinni ¾ millj. kr., sem Landsbankinn gaf út.

Þetta stóð svo lengi, en þegar að inndrættinum kemur 1921, er tilskilið, að Íslandsbanki skuli draga inn 1 millj. kr. ári, en mest máttu vera í umferð 8 millj. kr. En 1922 er þessum inndrætti frestað, og svo ár frá ári til 1928, svo að ekki hefir komið til inndráttar á seðlum bankans fyrr en 1929 og 1930.

Þegar litið er á sögu seðlanna og þá erfiðleika, sem voru fyrir hendi hjá Íslandsbanka, virðist mönnum, að þau sömu skilyrði séu enn fyrir hendi, svo að líta megi sömu augum á þetta mál og áður. Það er því skiljanlegt, að þar sem ekki þótti fært að heimta af Íslandsbanka, að hann drægi inn seðlana meira en gert var, þá eru ekki breyttar þær ástæður, sem til þess voru, nema síður sé, þar sem nú virðist gengið inn á tímabil, sem að mörgu leyti horfir erfiðlegar við en 1926–29.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum að sinni. Það má vel vera, að einhverjar umr. verði um málið nú þegar, en ég ætla aðeins að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.

Ég skal bæta því við, að ég vona, að hv.. n. líti á það með mikilli gætni og varfærni; en bankanum er sennilega enn nokkuð erfitt um að halda áfram, ef hann fær ekki þessi fríðindi, annarsvegar ríkistryggingu fyrir sparifjárinneignum, og hinsvegar betri skilyrði um innlausn seðla heldur en verið hefir, þar sem nú er hægt, á hverjum tíma sem er, að heimta, að hann dragi inn alla seðla, sem hann hefir í umferð. Þeir, sem komizt hafa í einhver kynni við viðskiptalífið, hljóta að sjá, að ekki er kleift að fullnægja þeim lögum, sem um þetta fjalla, nema þá með sérstökum ráðstöfunum.