25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í C-deild Alþingistíðinda. (1241)

173. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Sigurður Eggerz:

Ég skal játa, að ég sé ekkert athugavert við, að Landsbankinn lán Útvegsbankanum háar upphæðir til á fisk, ef tryggingin er góð og gild. Ég tel það ekki nema rétt og sjálfsagt. En þó að þetta þyki sjálfsagt nú, var það ekki eins sjálfsagt, meðan Íslandsbanki var við lýði. Þá var eilíft stríð um það fyrir Íslandsbanka að fá lán út á fisk, og held ég þó, að öll skuldin við Landsb. hafi aldrei getað farið fram úr eða mátt fara fram úr 6 millj. kr., en nú, eftir að vinir stj. hafa tekið við stjórn bankans, hefir skuldin komizt upp í 9–10 millj. kr. Ég er ekki að lasta þetta, en þetta sýnir aðeins aðstöðumuninn.

Það var verið að fárast yfir því, að fortíðarsaga þessa máls sé dregin inn í umræðurnar. Og þó kemur nú fyrirspurn frá einum úr stjórnarliðinu um að heimta að leggja öll gögn á borðið viðvíkjandi lokun Íslandsbanka. Er ekki þarna verið að fara inn á fortíðarsöguna? Er ekki enn verið að reyna að gera pólitískt „númer“ úr þessu máli? Annars er sama, hvort talað er um málið eða eigi; það fyrnist aldrei yfir glapræði landstjórnarinnar í þessu máli hjá þeim, sem hafa augun opin.

Í þeirri nefnd, sem málið á nú að fara til, mun verða reynt að sýna þessari bankastofnun alla sanngirni, því að framtíð bankans veltur svo mikið á því, hvort þarfir hans mæta góðum skilningi hér í þinginu.