10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (1322)

32. mál, ræktunarsamþykktir

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi ekki gefið frv. þessu miklar gætur hingað til. En nú, er ég hefi athugað það, þykir mér rétt að geta þess, að ég get ekki léð frv. atkv. mitt óbreyttu, en hingað til hefi ég hvorki greitt atkv. með né móti því. Er það sérstaklega ein grein þess, er ég get ekki fallizt á, og er það 14. gr. Verði hún samþ., þá er gengið svo nærri 63. gr. stjskr., að við það er ekki hægt að una. Hefi ég ekki orðið þess var, að nokkur brtt. hafi komið fram við gr. þessa. — Auðvitað er hægt að segja, að með þessu ákvæði frv. sé aðeins ráðstöfunarréttur jarða tekinn af jarðeigendum og fenginn leiguliðum í hendur. En því er svo farið með eignarréttinn, að hann er í raun og veru ekkert annað en umráðaréttur eða réttur til ráðstöfunar, og þegar hann er með öllu tekinn af jarðeigendum og fenginn í hendur ábúendum, þá getur mér ekki skilizt annað en að það sé brot á 63. gr. stjskr.

Ég vil ekki verða til þess að bregða fæti fyrir frv., ef annars er kostur, en óbreytt get ég ekki samþ. það. Mér kom því til hugar að bera fram skrifl. brtt. við 14. gr., og freista þannig að komast framhjá þessu blindskeri. Legg ég til, að gr. orðist þannig:

„Leiguliði fer með atkvæði fyrir ábýli sitt í samráði við landeiganda, ef hann er fjarverandi“.

Skal ég svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.