11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í C-deild Alþingistíðinda. (1412)

40. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég kann ekki við, að þessum umr. sé lokið svo, að ég segi ekki nokkur orð. Ég skal þó haga þeim svo, að þau krefjist ekki andmæla.

Þetta mál var mikið rætt á síðasta þingi og þá færð rök fyrir því. Nú er það aftur hér á ferð. Vil ég þá fyrst þakka hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm. fyrir þá velvild þeirra að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þá hefir og hv. frsm. meiri hl. gert grein fyrir sínu máli, og þó einkum í sambandi við umr. um næsta mál á undan, hafnargerð Akraness. Ég verð þó að segja, að mér þykir aðstaða hans í þessu máli einkennileg. Ef rök hans í málinu eru rakin, þá eru þau eindregin meðmæli. En mér þykir niðurstaðan vera önnur en vænta mætti af rökum hans. Hann taldi hafnargerð á Skagaströnd vera annars eðlis en hafnargerð á SauðSauðárkróki.

Ég er nú vel kunnugur á Skagaströnd og þekki þó engar sérstakar ástæður fyrir því áliti hv. frsm. Sauðárkrókur hefir nú meira en þrefalt fleiri íbúa en Skagaströnd. Á Sauðárkróki eru fleiri vélbátar. Árið 1929 var innflutningur á Skagaströnd 166 þús. kr., en innfl. á Sauðárkróki tæp 1 millj. kr. Þetta bendir á aðstöðuna á þessum tveim stöðum, og tel ég, að þetta sé í öfugu hlutfalli við ályktun hv. þm.

Hv. þm. sagði, að hér væri undantekning, því að á Skagaströnd væri um lendingarbót að ræða. Ég sé enga ástæðu til að rökræða um það, því að allar hafnargerðir eru jafnframt lendingarbætur. Mér er ekki ljóst, hvar markalínan á að vera þar á milli. Mér virðast engin glögg takmörk þar á milli.

Hv. þm. hefir sérstaklega lagt áherzlu á, hver nauðsyn væri að fá nauðalendingu, sem hann kallaði, að sérstaklega væri að tala um í sambandi við Húnaflóa. En alveg er sama að segja um höfn á Sauðárkróki. Þar er engin höfn, sem hægt er að bjarga sér á. Hér er því um þá miklu nauðsyn að ræða, sem hann segir, að gerði það rétt, að ríkissjóður hefði lagt svo ríflega fram til þessa sem gert var í hafnarlögunum, sem voru samþ.

Ég sé enga ástæðu til að ræða um þetta öllu frekar. Þau rök, sem fyrir þessu máli eru, voru rækilega rædd á síðasta þingi, og þarf því ekki að fara frekar út í þau. Þó vil ég benda á það til frekari áréttingar því, sem hv. þm. Barð. sagði, að á síðasta sumri var dálitið flutt til Sauðárkróks af síld, og þeim bátum, sem þangað komu, reyndist afgreiðsla þar betur en þeir höfðu gert sér vonir um.

Ég vil fullyrða það, að ef þarna væri fullgerð höfn, þó að það væri ekki nema nokkur byrjun, þá myndi þarna mikið dragast að, því að það er alkunnugt, að mikill hluti af þeirri síld, sem aflað er þar fyrir norðan, er tekinn bæði yzt á Skagafirði og inni á firðinum. Af Sauðárkróki er því aðeins örstutt að fara til að fá síldina.

Hv. þm. N.-Þ. lét svo um mælt, að hann væri á móti þessari hafnargerð, af því að fjárhagsörðugleikar ríkissjóðs væru miklir og fé því ekki fyrir hendi. Ég vil ekki mótmæla þessu, en ég vil benda á, að hér er ekki að ræða um neitt fjárframlag nú; það er alveg bundið við það, að fé sé veitt til þess í fjárlögunum.

Hv. þm. talaði um þá nauðsyn, sem væri fyrir höfn á Akranesi. Það get ég að sjálfsögðu tekið undir, en mér er ekki grunlaust, að hv. þm. hafi orðið ljós þessi mikla þörf á Akranesi við það að koma þangað og sjá með eigin augum, hvað þörfin er mikil, og mér er nær að halda, að ef hann kæmi til Sauðárkróks á hentugum tíma, þá mundi sama ljós renna upp fyrir honum um þá nauðsyn, sem þar er.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vænti þess, að málið fái nú að ganga sinn eðlilega gang.