26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (1418)

44. mál, hafnargerð á Dalvík

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og menn muna, þá var þetta mál borið fram á síðasta þingi og samþ. í þessari deild. Þá gerði ég grein fyrir þeim ástæðum, sem liggja til þess, að frv. kom fram, og sé því ekki ástæðu til þess að endurtaka þær nú, en vil aðeins vona, að þetta mál fái góðar undirtektir á þessu þingi og geti orðið að lögum. Að vísu get ég búizt við því, þótt frv. verði að lögum nú, að ekkert geti orðið af framkvæmdum fyrst um sinn að því er snertir hafnargerðina á Dalvík; það virðist ekki ára vel til þess nú. Þrátt fyrir það álit ég samt nauðsynlegt að fá löggjöf um þetta, til þess að fá grundvöll undir frekari undirbúning málsins heima í héraði og menn þar fái vissu fyrir því, að hve miklu leyti ríkið vill styðja þá til þessara framkvæmda, þegar að þeim kemur.

Ég vil ennfremur taka það fram, að þótt ég beri fram frv. nú í sama formi og það hafði í fyrra, er það var samþ., þá er ekki svo að skilja, að ég sé ófáanlegur til að ganga inn á neinar breyt. á frv., ef málinu yrði borgnara með því móti.

Þá vil ég aðeins leyfa mér að leggja það til, að frv. verði vísað til sjútvn.