10.04.1931
Neðri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í C-deild Alþingistíðinda. (1435)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Lárus Helgason:

Ég skal ekki tala langt mál. Mér virtist hv. 1. þm. Skagf. draga rangar ályktanir út af ræðu minni, þar sem ég sagði, að þm. væru kosnir fyrst og, fremst fyrir landið í heild, en svo sagði hann að ég vildi þá ganga inn á, að enginn þm. væri kosinn fyrir Vestur-Skaftafellssýslu. Ég man ekki betur en ég tæki skýrt fram, að Reykjavík liði ekki fyrir það, að þm. væru ekki nógu kunnugir staðháttum Reykjavíkur. Ég tók líka fram, að hvert kjördæmi hefði núi rétt til að senda mann úr sínu kjördæmi (sýslu), og er eðlilegt, að svo sé, því að í flestum málum er betra, að þm. séu á víð og dreif utan af landi, svo þekking á staðháttum komist sem bezt að. Það var því ekkert nema hártogun að fara að spyrja mig, hvort ég vildi, að úr Vestur-Skaftafellssýslu væri enginn þm. Sú sýsla er ein af þeim afskekktustu kjördæmum, og menn, sem þar eru búsettir, eru kunnugri ýmsu, sem lýtur að málum þeirra, en menn, sem eru máske uppaldir og búsettir í Reykjavík eða annarsstaðar utan sýslunnar.

Hv. l. þm. Reykv. vildi gera lítið úr því, þó að þm. væru búsettir í Reykjavík. Hann sagði, að engin trygging væri fyrir því, að framvegis yrði helmingur þm. búsettur þar, eins og nú er. En ég get ekki séð, að það væri mikill skaði skeður, þó að út af því brygði, að fullur helmingur þm. ætti þar heima.

Ég sé ekki betur en að Reykjavík sé vel sett, meðan mikill hluti þm. á þar heima, og þar að auki er föst tala þm. fyrir bæinn. Ég álít, að þessi reipdráttur milli hv. þm. hér, bæði um þetta mál og eins t. d. um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, sé ógeðfelldur og beri vott um talsverða ásælni.